07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

64. mál, mismunun gagnvart konum hérlendis

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úttekt á mismunun gagnvart konum hérlendis, en flm, að þessari till. er ásamt mér hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir. Efni tillögunnar er eftirfarandi:

„Alþingi ályktar að fela félmrh. og jafnréttisráði í framhaldi af fullgildingu samnings um afnám allrar mismununar gagnvart konum að gera á því úttekt:

a. hvað einkum skorti á að Íslendingar uppfylli þau ákvæði sem í samningnum felast;

b. hvort og þá hvað það er í starfi skóla og annarra uppeldisstofnana, svo og fjölmiðla, sem einkum vinnur gegn jafnri stöðu kvenna og karla;

c. hvað einkum torveldar konum á vinnumarkaði að ná jafnræði á við karla og hvað veldur því að svokölluð kvennastörf eru ekki metin með eðlilegum hætti til launa;

d. hvaða breytingar á lögum, reglugerðum og öðrum opinberum tilskipunum sé rétt að gera til að markmið samningsins verði að veruleika;

e. hvaða ráðstafanir aðrar sé æskilegt að gera af hálfu löggjafar- og framkvæmdavalds og í dómskerfinu til að öll mismunun gagnvart konum hérlendis heyri sem fyrst fortíðinni til.

Til að fylgjast með þessari úttekt verði skipuð samráðsnefnd með fulltrúum frá öllum þingflokkum á Alþingi.

Félmrh. skili fyrir árslok 1986 grg. til Alþingis um þessa úttekt og tillögum af sinni hálfu til úrbóta. Kostnaður við þessa úttekt greiðist úr ríkissjóði.“

Með þessari þáltill. fylgir grg. þar sem vitnað er til margra atriða í þeim alþjóðasamningi sem var til umræðu hér á síðasta þingi og Alþingi samþykkti 13. júní s.l. og staðfestur var af ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd þann 18. júní s.l. Einnig fylgja með till. nokkur fskj., sjö talsins, þar sem er að finna ýmsar upplýsingar um stöðu mála að því er varðar konur og mun ég lítillega fjalla um þau efni hér síðar í ræðu minni.

Í athugasemdum með samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum skv. þessum samningi skuldbinda aðildarríkin sig til að gera ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum á hinum ýmsu sviðum.

Skv. 2. gr. samningsins er m.a. gert ráð fyrir því að aðildarríkin hlutist til um það án tafar „að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema misrétti gagnvart konum af hálfu einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja“ og „að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til að breyta eða afnema gildandi lög, reglugerðir, venjur og starfshætti sem fela í sér mismunun gagnvart konum“.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að hér er ekki aðeins vikið að opinberum aðilum heldur stofnunum og fyrirtækjum og einnig vísað til venja og starfshátta sem vinna beri að að breyta og afnema.

Skv. 3. gr. ábyrgjast þeir sem fullgilda þennan samning „fulla þróun og framfarir til handa konum til að tryggja að þær geti á grundvelli jafnréttis við karla framfylgt eða notið mannréttinda og grundvallarfrelsis“.

Skv. 4. gr. samningsins eru ákvæði sem heimila aðildarríkjunum svonefnda „jákvæða mismunun“ sem „sérstakar bráðabirgðaráðstafanir sem miði að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist“.

Í 5. gr. samningsins segir m.a. að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir „til að breyta félagslegum og menningarlegum hegðunarvenjum karla og kvenna með það fyrir augum að takast megi að uppræta fordóma og venjur sem byggjast á hugmyndinni um vanmátt eða ofurmátt annars hvors kynsins eða á viðteknum hlutverkum karla og kvenna“.

Í Il. hluta þessa samnings er fjallað um ráðstafanir á stjórnmálavettvangi og opinberum vettvangi og í III. hluta hans um aðgerðir í menntamálum, atvinnumálum, á sviði heilsugæslu o.fl. Vikið er að ýmsum þáttum eins og t.d. varðandi menntamálin, endurskoðun kennslubóka og námsáætlana og aðlögun kennsluaðferða. Þar er kveðið á um að unnið skuli að því „að lækka hlutfall þeirra stúlkna sem hætta námi og skipuleggja beri námsáætlanir fyrir stúlkur og konur sem ótímabært hafa hætt námi“.

Þá eru ákvæði í samningnum, sem ekki eru minnst virði, um að gera skuli ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum á sviði atvinnu til að tryggja m.a. „rétt til sömu atvinnutækifæra, þar með talið að beitt sé sama mælikvarða við val starfsmanna“ og „rétt til sömu umbunar, þar með talið fríðinda, og sömu meðhöndlunar gagnvart vinnu sem er jafngild“, eins og þar segir, „og sömu meðhöndlunar við mat á gæðum vinnu“.

Til að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum vegna hjúskapar eða móðurhlutverksins og framfylgja raunverulegum rétti kvenna til vinnu eiga aðildarríkin að gera allar viðeigandi ráðstafanir, „m.a. sérstaklega með því að stuðla að stofnun og þróun sem flestra barnagæslustofnana“.

Í grg. er vikið að því hvernig með þennan samning skuli farið á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þar er sérstök nefnd, skipuð 23 fulltrúum frá aðildarríkjum, sem á að fylgjast með og fjalla um framkvæmd samningsins og gefa árlega skýrslu til allsherjarþingsins. Þau ríki, sem fullgilt hafa samninginn, skulu skila inn skýrslu innan eins árs frá gildistöku samningsins og síðan a.m.k. á fjögurra ára fresti.

Sú úttekt, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, getur þannig orðið undirstaða að greinargerðum skv. ákvæðum samningsins um leið og henni er ætlað að skapa sem fyrst grundvöll og samstöðu um breytingar sem gera þarf á fjölmörgum sviðum hér innanlands til að afnema mismunun gagnvart konum.

Það virðist eðlilegt að félmrn. og jafnréttisráð hafi forustu um þá úttekt sem till. gerir ráð fyrir og leiti álits þeirra mörgu aðila sem láta sig varða réttindamál kvenna. Um leið og gert er ráð fyrir því að úttektin verði unnin í nánum tengslum við jafnréttisráð er nauðsynlegt að heimild sé fyrir hendi til að greiða fyrir vinnu að henni með sérstöku framlagi úr ríkissjóði. En sem kunnugt er eru framlög til jafnréttisráðs mjög skorin við nögl miðað við þau miklu verkefni sem fyrir ráðinu liggja. Framlög á þessu ári til jafnréttisráðs nema aðeins um 1,5 millj. kr.

Til að tryggja samstarf við Alþingi um þessa úttekt gerir till. ráð fyrir að skipuð verði nefnd sem í eigi sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum. Gefa á nefndinni tækifæri til að fylgjast með - það er hugmynd flm. vinnu að úttektinni frá byrjun og ætti það m.a. að greiða fyrir æskilegum lagabreytingum til að afnema mismunun gagnvart konum.

Ég held að það skipti mjög miklu að tengja vinnuna að jafnréttismálum og að því er varðar að leiðrétta hlut kvenna sérstaklega við störf Alþingis þannig að auðveldara verði af hálfu löggjafans að grípa inn í þau svið þar sem leiðrétta þarf lög og reglugerðir í sambandi við stöðu kvenna. Sú er alveg sérstaklega ætlan flm. að með samráðsnefnd, sem fylgist með þessari úttekt, verði auðveldara og fyrr brugðist við á þessum sviðum en ella væri.

Segja má að með lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 65/1985 séu jafnréttisráði lagðar á herðar margháttaðar skyldur til að fylgjast með þróun jafnréttismála og gera tillögur og áætlanir m.a. til félmrh. um það hvernig á þeim málum skuli tekið. Þar er einnig gert ráð fyrir sérstakri ráðgjafarnefnd, sem jafnréttisráði er ætlað að skipa, en ekkert er kveðið á um hvaða sjónarmið skuli höfð í huga við skipun nefndarinnar.

Mér þykir í rauninni nokkuð á það skorta í sambandi við þessi nýsettu lög, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna, að þar séu tryggð nægilega skilvirk tengsl við Alþingi og ég vænti þess að ef till. þessi verður samþykkt og samráðsnefnd verður skipuð með þeim hætti sem hún gerir ráð fyrir verði úr þessu bætt varðandi þau efni sem till. gerir sérstaklega ráð fyrir.

Herra forseti. Í fylgiskjölum með þessari till. er að finna, eins og ég gat um, margháttaðar upplýsingar um stöðu kvenna í þjóðfélaginu, þar á meðal og ekki síst að því er varðar launamál og atvinnumál og möguleika kvenna til atvinnuþátttöku. Í fskj. I, sem er tafla sem sýnir ársverk og meðallaun eftir kyni á árinu 1983 og er frá Framkvæmdastofnun, kemur það í ljós, sem væntanlega er nú orðið á vitorði margra eftir þá umræðu sem fram hefur farið, að gífurlega mikið skortir á að konur á heildina litið njóti jafnréttis á við karla í launum þrátt fyrir öll ákvæði laga. Þar kemur fram að meðallaun karla á þessu ári, 1983, fyrir ársverk voru 308 þús. kr. en meðallaun kvenna aðeins 200 þús. kr. Munurinn er því yfir 50%. Þessi efni eru rakin enn frekar í fskj. II og fskj. III sem eru staðreyndir um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum þar sem sérstaklega er fram dregið vinnuframlag kvenna, það launamisrétti sem konur búa við og þær hindranir sem þeim mæta í sambandi við atvinnuþátttöku.

Ég ætla hér ekki að fara langt út í að rekja eða vitna til efnis þessara fskj. en vil þó nefna í sambandi við fskj. III um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum að „skv. jafnréttiskönnun í Reykjavík veturinn 1980-1981 kom fram að þegar lagður var saman vinnutími fólks heima og heiman var heildarvinnutíminn síst styttri hjá konum en körlum. Þar kom einnig fram að þáttur karla í heimilisstörfum var litlu meiri þegar konurnar voru í fullu starfi eða hálfu en þegar þær voru alveg heima.“ Þetta er tilvitnun í þetta fskj. um stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hér kemur fram m.a. hversu ríkar venjurnar og hefðirnar eru í sambandi við heimilisstörfin sem valda því að þrátt fyrir minni þátttöku kvenna á vinnumarkaði er vinnuframlag þeirra síst minna en karla á heildina litið og vafalaust í mörgum tilvikum mun meira þegar litið er á hlutdeild þeirra í heimilisstörfum.

Í þessu yfirliti kemur einnig fram að kröfurnar til hinna hefðbundnu kvennastarfa annars vegar og karlastarfa hins vegar eru í rauninni meiri, en framavonirnar og launin, umbunin fyrir unnin störf, minni. Þar er einnig að finna yfirlit varðandi það hvernig þessi mismunun kemur fram í sambandi við laun. Það gildir nánast um öll störf í þjóðfélaginu, sem konur sinna, að þar eru þær lakar settar launalega séð. Það á við um verkakonur en það á einnig við um konur sem vinna í hjúkrunarstörfum, svo að dæmi séu tekin, verslunarstörfum, störfum hjá ríkinu og hjá konum sem hafa langskólamenntun að baki.

Það er líka athyglisvert þegar litið er til dulinna launagreiðslna eða fríðinda hversu konur fara halloka. Fram kemur í nefndri könnun að árið 1982 voru konur 15% þeirra opinberra starfsmanna sem fengu greidda fasta yfirvinnu, en fengu að meðaltali 13 þús. kr. fyrir slíka fasta yfirvinnu en karlar 25 þús. kr. Á þessu ári, 1982, voru konur 13,7% þeirra opinberu starfsmanna sem fengu greiðslu vegna bifreiða sinna, konur að meðaltali 6 þús. kr. en karlar 15 þús. kr. Þessi dæmi sýna með skýrum hætti um hvernig mismunun er að ræða, einnig á þessu sviði dulinna launa sem bætist við þá mismunun sem er skv. launatöxtum.

Í fskj. V er að finna fréttabréf kjararannsóknarnefndar fyrir annan ársfjórðung 1985 þar sem fram kemur hversu hallað hefur á konur launalega séð nú milli ára á síðasta ári hins svonefnda kvennaáratugar, hvernig launaskriðið hefur lyft körlum verulega umfram konur og það nánast í öllum þeim störfum sem þar eru mæld. Hjá verkamönnum er hækkunin 30,9% miðað við tímakaup en hjá verkakonum 26,3%. Varðandi afgreiðslustörf er hækkunin hjá körlum á þessu tímabili 36,9% en hjá konum aðeins 30%. Þetta eru dæmi um það sem hefur verið að gerast núna alveg upp á síðkastið í þessum efnum.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að með till. eru einnig fskj. sem sýna könnun jafnréttisnefndar Akureyrar sem unnin var í maímánuði 1984 og veitir innsýn inn í þann vanda, félagslega vanda og vanda á mörgum öðrum sviðum, sem konur eiga við að búa. Í fskj. VI með till. er að finna yfirlit um hlut kvenna á opinberum vettvangi, í sveitarstjórnum, á Alþingi og í áhrifastöðum innan stjórnmálaflokkanna. Allar sýna þessar tölur hversu mjög hallar á konur í félagslegum efnum og hvað snertir hlutdeild þeirra í áhrifastöðum og vísa ég til þess sem þar kemur fram.

Með nýútgefinni bók, sem hafin var sala á 24. okt. s.l., „Konur, hvað nú?", höfum við fengið í hendur mjög vandaða úttekt og góðar upplýsingar um stöðu jafnréttismálanna og þróun þeirra á liðnum kvennaáratug. Þar er að finna í 14 ritgerðum yfirlit yfir stöðu kvenna á þessu tímabili varðandi atvinnumál, félagsmál, þátttöku og hlutdeild í listsköpun og á mörgum öðrum sviðum. Ég vek athygli m.a. á mjög fróðlegri úttekt og vandaðri sem þar er að finna um atvinnu og laun kvenna eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur viðskiptafræðing. Þar er einnig að finna ritgerð um félagslegar aðstæður kvenna eftir Erlu Þórðardóttur félagsráðgjafa þar sem dregið er fram hver staðan er í sambandi við dagvistunarmálin og hversu gífurlega hallar þar á.

Herra forseti. Ég lýk senn máli mínu. Ég vil að endingu draga fram í sambandi við þetta mál, þá úftekt sem hér er lögð til á mismunun gagnvart konum hérlendis, að í þingræðisríkjum Vestur-Evrópu og víðar eru það markaðsöflin, hin kalda gróðahyggja, og rótgróið forræði karla á flestum sviðum sem eru meginhindranir gegn frelsisbaráttu og réttlæti konum til handa. Auðvitað verður þetta misrétti, sem ég hef gert hér að umtalsefni, hvergi leiðrétt nema með virkri baráttu kvenna sjálfra og samstöðu þeirra. Hinu megum við karlar, sem teljum okkur vinstri sinnaða og stuðningsmenn jafnréttis, ekki gleyma að árangur þessarar baráttu er einnig að verulegu leyti kominn undir okkar liðveislu.

Mér er það ljóst og það er ofureðlilegt að konur treysta ekki körlum allt of vel sem liðsmönnum í sinni baráttu. Fyrir því eru sögulegar ástæður og það er vissulega skiljanlegt. En ég tel að bæði kynin og þeir sem af einlægni vilja vinna að leiðréttingu á hlut kvenna þurfi að ná saman í þessari baráttu, vinna saman að leiðréttingum. Við skulum vera þess minnug, herra forseti, að það er ekki síður frá konum en körlum sem stuðnings er að vænta við þau mannlegu gildi sem nú eiga í vök að verjast hér á Íslandi og víða um heimsbyggðina.