21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

248. mál, póstlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf raunar ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. Stefán Valgeirsson vék hér að. Eins og fram hefur komið skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara. Ég er þeirrar skoðunar að það beri frekar að þrengja hjá Póstgíróstofunni en að útvíkka hennar verksvið. Ég tel t.d. að það nái vart nokkurri átt að orlofsdeild Póstgíróstofunnar geti valsað með orlofsfé þeirra landsmanna, sem þangað borga inn, að eigin vild og hefur um lengstan tíma borgað lægstu ávöxtunarvexti sem um getur í kerfinu. Ég tel að slíkt þurfi sérstakrar endurskoðunar að svona sé með málin farið. Minn fyrirvari byggist því frekar á því að þrengja verksvið Póstgíróstofunnar en að útvíkka það eins og sú till., sem samþykkt var í Ed., gerir ráð fyrir og var í tillögum nefndarinnar sem samdi frv. á sínum tíma eins og grg. gerir ráð fyrir.

Hins vegar tel ég að hefði þetta verið gert með eðlilegum hætti hefði það getað komið til skoðunar að gera þetta á stöðum sem ekki njóta bankaþjónustu. En að gera þetta í því formi sem hér er gert ráð fyrir, að nánast bæta við bankakerfið í landinu, sem ég er andvígur að sé gert, finnst mér ekki ná nokkurri átt.

En af því að farið er að tala um póstgíró hefði ég gjarnan viljað að hæstv. félmrh. væri hér viðstaddur nú, því að hluta til kemur þetta undir hans embætti, og hefði gjarnan viljað leita eftir því við hæstv. forseta hvort hæstv. félmrh. væri ekki í húsinu þannig að við næðum tali af honum hér í deildinni. Ég skal vera mjög stuttorður ef hægt er að ná til hæstv. ráðherra helst í skyndi. (Forseti: Það verður gerður reki að því að ná í hæstv. félmrh.) Það sem ég vildi spyrja hæstv. félmrh. um er það hvaða ávöxtun verði á orlofsfé frá orlofsdeild Póstgíróstofunnar á yfirstandandi orlofsári. Það er, að ég hygg, kominn sá tími sem slík ákvörðun þarf að liggja fyrir, hver ávöxtunin er, og ég tel að það sé á eðlilegum stað að skýra frá því hér á hæstv. Alþingi hver ávöxtun á þessu mikla fé, sem Póstgíróstofan hefur vegna orlofsgreiðslnanna, sé.

Ég skal ekki teygja þetta öllu lengur. En ég vildi gjarnan að hæstv. félmrh. svaraði þeirri spurningu hver ávöxtunartala orlofsfjárins er fyrir yfirstandandi orlofsár. Ég sé að hæstv. félmrh. gengur nú í salinn. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh., af því að ég tel að það eigi við hér á hv. Alþingi: Hver er ávöxtunartala á orlofsgreiðslur þess fólks, sem greiðir inn til orlofsdeildar póstgíró, á yfirstandandi orlofsári? Ég hygg að það sé kominn sá tími sem slíkar ákvarðanir hafi verið teknar. Þær eru teknar af hæstv. félmrh. Þess vegna beini ég þessari fsp. til hæstv. ráðherra.