07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

64. mál, mismunun gagnvart konum hérlendis

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er að sönnu á ferðinni till. til þál. sem hreyfir á stóru máli, á því máli hvernig vinna megi að því að allt misrétti gagnvart konum hér á landi verði einn góðan veðurdag, vonandi sem allra fyrst, úr sögunni.

Ég vil þó leyfa mér að láta í ljós örlitlar efasemdir um það hversu raunhæf sú till. er sem hér er fram borin, en vil taka fram í leiðinni að ég efast ekki um þann góða hug sem liggur að baki flutnings hennar af hálfu 1. flm. sem hér hefur mælt fyrir henni og að fleiri eru tilbúnir að vinna málefnum kvenna en konur einar þótt ég taki einnig undir það með hv. flm. að að sjálfsögðu er það verkefni kvenna sjálfra.

Það sem hér er verið að leggja til er að Alþingi hlutist til um að skipuð verði samráðsnefnd með fulltrúum frá öllum þingflokkum á Alþingi sem gera á úttekt á því hvað þurfi til að koma til þess að öll mismunun gagnvart konum megi teljast úr sögunni hér á landi og í leiðinni líka af hverju hún kann að stafa.

Ég vil benda hv. flm. á að í nýsamþykktum jafnréttislögum er það beinlínis bundið í lögum að jafnréttisráð hafi því hlutverki að gegna, eins og segir í 15. gr., 5. lið laganna sem prentuð eru sem fskj. með þessari till., að „fylgjast með þjóðfélagsþróuninni, sem m.a. varðar þetta lagaefni, og gera tillögur til breytinga til samræmis við tilgang laganna“. Og í 7. lið: „Taka til rannsóknar af sjálfsdáðum stöðu kvenna og karla að því leyti er lög þessi varðar.“

Þarna er jafnréttisráði falið það verkefni að gera úttekt á þeirri mismunun sem er á stöðu karla og kvenna hér á landi. Jafnréttisráð er sjö manna nefnd ég minni á það ef einhver skyldi hafa gleymt því. Það sem hér er því í rauninni verið að leggja til er að sett verði á stofn önnur nefnd til að sinna því verkefni sem með réttu er hægt að ætlast til að jafnréttisráð sinni.

Hitt er svo aftur annað mál hvort jafnréttisráð er fjárhagslega í stakk búið til að sinna þessu verkefni. Sýnast mér fjárreiður jafnréttisráðs vera á þann veg að vera kunni að svo sé ekki. Mér fyndist því í þessu sambandi miklu viturlegra - og legg það til við hv. flm. - að flytja brtt. við fjárlög þess efnis að jafnréttisráði verði gert kleift að ráða starfsmann til að sinna því verkefni að fara í gegnum ákvæði þessa samnings og sjá hvernig þau ríma við þau lög sem fyrir hendi eru í landinu og þær aðstæður sem konur búa við að svo miklu leyti sem slíkt er hægt.

Hitt er svo aftur enn annað mál að sú úttekt, sem hér er verið að leggja til, er afskaplega víðtæk. Í a-lið tillögunnar leggur flm. til að athugað verði „hvað einkum skorti á að Íslendingar uppfylli þau ákvæði sem í samningnum felast“, eins og þar segir, með leyfi forseta.

Eins og hv. flm. kom inn á í ræðu sinni er þetta mjög víðtækur samningur. Hann nær til nærfellt allra sviða þjóðfélagsins og ekki einungis það, heldur til alþjóðamála líka. Ég hef því miður ekki samninginn hér við höndina en ef ég man rétt er í inngangi að samningnum tekið fram að ein forsenda friðar í heiminum sé sú að jöfnuður ríki meðal karla og kvenna.

Ef á að gera viðunandi könnun á því hvað einkum skortir á að Íslendingar uppfylli þau ákvæði sem í samningnum felast, eins og segir í a-lið, þá er sú könnun svo umfangsmikil að hún hlýtur að vera heildarúttekt a.m.k. á íslensku samfélagi. Ég hef ekkert á móti því að slík úttekt sé gerð með þessi sjónarmið í huga eða að fé sé veitt til slíkra sjónarmiða, en ég held að rétt sé að hv. þm. sé þá ljóst að sú könnun, sem hér er gert ráð fyrir að gerð verði, sé frá félagsvísindalegu sjónarmiði óhjákvæmilega þetta umfangsmikil.

Hvað b- og c-lið till. varðar vil ég benda hv. flm. á að þeir liðir eru háðir mati hverju sinni, um þá er ekki hægt að fjalla óháð mati. Oft hafa heyrst skýringar hér á hv. Alþingi um það hvað torveldar konum að ná jöfnuði á við karla á vinnumarkaðinum og hvað það kunni að vera í starfi skóla og annarra uppeldisstofnana sem vinnur gegn jafnri stöðu kvenna og karla. Reyndar væri mjög gott að safna saman á einn stað öllum þeim hugsanlegu skýringartillögum sem fram hafa komið. En að ímynda sér að hægt sé að skýra það þannig að allir megi vel við una án þess að um mat sé að ræða, það tel ég vera fásinnu.

Ef ég má segja fáein orð um d- og e-lið þá er þar lagt til að gerðar verði tillögur um hvaða breytingar, bæði formlegar og aðrar, sé rétt að gera til að ná markmiðum samningsins. Nú er það ekki svo einfalt mál að hægt sé einfaldlega að útbúa lista yfir t.d. lög sem þyrfti að setja eða lög sem þyrfti að breyta til að ná markmiðum samningsins vegna þess að það er hverju sinni pólitískt mál. Það er háð pólitísku mati hverju sinni hvernig við viljum ná markmiðum þessa samnings. Svo að ég taki eitt dæmi eru t.d. skoðanir manna skiptar um það hvernig haga beri fæðingarorlofi hér á landi þótt ekki sé nokkur vafi á því að skipan fæðingarorlofsmála taka til barnsfæðingarhlutverks kvenna, eins og það heitir í samningnum. Það er háð kvennapólitískum skoðunum hverju sinni hvaða lagabreytingar er rétt að gera að mati þeirra sem í hlut eiga. Það er því ekki mál sem nefnd getur lagt óhlutdrægt mat á hvernig sé best háttað.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum á framfæri varðandi þessa till. Eins og ég sagði í upphafi efast ég ekki um að að baki liggi góður hugur og hér er svo sannarlega stórt mál á ferðinni, en ég dreg í efa að þessi till. sé raunhæf.