22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4343 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég stend að áliti meiri hl. félmn. með fyrirvara og gæti stytt mál mitt með því að vísa til margs af því sem fram kemur í nál. sem er ítarlegt og tekur á flestum þáttum þessa máls. En ástæðan til þess að ég skrifa undir þetta með fyrirvara er fyrst og fremst sú að ég tel að frv., eins og það liggur hér fyrir, sé ekki í því samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins sem ég hefði kosið.

Í því samkomulagi var gert ráð fyrir því að vextir af húsnæðislánum yrðu lögbundnir, ekki hærri en 3,5%. Ríkisstjórnin breytti þessu eina ákvæði í frv. og gaf yfirlýsingu um að hún mundi fyrir sitt leyti miða við að vextir yrðu á hennar starfstíma ekki hærri en 3,5% en neitaði að taka það inn í frv. Ég tel að það sé slæmt að ríkisstj. skuli með þessum hætti víkja frá þessu grundvallaratriði í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Og minn fyrirvari lýtur ekki síst að því að þegar menn í öðru orðinu segjast vera að framkvæma þetta samkomulag og einskorða sig við það, eins og við orðum það hér í nál., þá neita menn í hinu að taka upp þetta atriði sem þó er geysilega stórt þegar þessi mál eru metin í heild.

Ég ætla, herra forseti, að víkja þessu næst að þeim athugasemdum sem fram koma um þetta mál á bls. 5, 6 og 7 í nál. meiri hlutans, en á bls. 3 segir svo, með leyfi forseta:

„Frv. þetta er efnislega einskorðað við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til. Öðrum þáttum, sem varða húsnæðismálin, var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndarinnar.“

Eins og kunnugt er var það niðurstaðan af viðræðum stjórnar og stjórnarandstöðu á þinginu í fyrra að skipuð yrði milliþinganefnd í húsnæðismálum sem átti þá að starfa milli þinganna og gera tillögur fyrir næsta löggjafarþing um breytingar á húsnæðislánakerfinu og um framtíðarkerfi í húsnæðismálum. Atvik höguðu því svo að verkalýðshreyfingin taldi óhjákvæmilegt að taka húsnæðismálin upp sem meginatriði, algjört meginatriði í síðustu kjarasamningum og m.a. af þeirri ástæðu frestaðist starf milliþinganefndarinnar um skeið þangað til samkomulag aðila vinnumarkaðarins lá fyrir. Um tíma voru uppi hugmyndir um það í stjórnarliðinu að þessi milliþinganefnd yrði látin hætta störfum um leið og þetta samkomulag hafði verði gert. Það tókst fyrir áýting stjórnarandstöðu hér á hv. Alþingi að tryggja það að þessi milliþinganefnd starfaði með ríkisstjórnarnefndinni og nefnd aðila vinnumarkaðarins að þessum málum og nú hefur niðurstaðan orðið allsherjarsamkomulag, a.m.k. fjögurra þingflokka ef ekki fimm, um að milliþinganefndin skuli starfa áfram að tilteknum verkefnum sem eru talin hér upp í nál.

Ég tel að það samkomulag í húsnæðismálum sem varð á þessum vetri sé í rauninni með stærstu tíðindum sem orðið hafa í samningum verkalýðshreyfingarinnar í þessu landi á undanförnum áratugum undir stjórn af því tagi sem nú situr í landinu, hægri stjórn. Ég vil jafna þessu samkomulagi til samninganna um framkvæmdanefnd byggingaráætlunar á sínum tíma og samkomulagsins um Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1955. Ég tel að hér sé um að ræða stórtíðindi í húsnæðismálum en vissulega felst í þessu samkomulagi áfangi en ekki endapunktur vegna þess að um leið og þetta samkomulag er sett í framkvæmd kallar það á að ýmsar aðrar ráðstafanir verði gerðar varðandi húsnæðiskerfið í heild til þess að aðlaga það að þessum breytingum sem hér er verið að gera á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í nál. eru talin upp tíu atriði sem við teljum að milliþinganefndin eigi að fjalla um og skila tillögum um núna fyrir haustið því að því er slegið alveg föstu að nefndin á að gera tillögur í tæka tíð fyrir þingið núna í haust. Þessi atriði eru talin upp á bls. 3 í þessu nál. og ég ætla að fara nokkrum orðum um þessi tíu atriði.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að kannaðar verði reglur um veð og veðhæfni íbúða. Hér er um að ræða stórvandamál vegna þess að á seinni árum, þegar skuldir hjá íbúðareigendum hafa hlaðist upp, er ljóst að veð miðað við fasteignamat er oft orðið mjög veikburða á móts við þær skuldir sem fólk hefur neyðst til þess að stofna til. Þess vegna er óhjákvæmilegt að reglur um veð og veðhæfni íbúða verði endurskoðaðar. Og ég vil reyndar segja að ég held að það sé óhjákvæmilegt að þær stofnanir sem hafa með matsmál að gera hér á landi, hvort sem það er brunabótamat eða fasteignamat, samræmi reglur sínar og alla starfsemi.

Í annan stað, herra forseti, er hér tekið á máli sem hefur verið bitbein stjórnarflokkanna núna um nokkurra ára skeið, en það eru svokölluð húsnæðissamvinnufélög. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að milliþinganefndinni er nú falið með allsherjarsamkomulagi flokkanna í þinginu að taka á þessu máli um húsnæðissamvinnufélögin og gera tillögur um þau mál hér inn í þingið fyrir haustið þannig að menn þurfi ekki lengur eftir það að velkjast í vafa um það hver staða húsnæðissamvinnufélaganna þarf að vera. Það er alveg ljóst að þau fyrirheit sem gefin hafa verið forustumönnum húsnæðissamvinnufélaganna hafa orðið til þess að þeir hafa stofnað til skuldbindinga sem eru þessi fólki í dag ákaflega þungbærar. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að taka þess vegna á máli af þessu tagi og láta fólk ekki velkjast endalaust í vafa um hvaða stöðu húsnæðissamvinnufélögin eiga að hafa hér í framtíðarhúsnæðiskerfi landsmanna.

Ég vil einnig benda á það, herra forseti, að í þessu ákvæði nál. er milliþinganefndinni falið að fjalla um það sem kallað hefur verið kaupleiguíbúðir. Hv. þm. Alþfl. hafa flutt um það till. hér á hv. Alþingi og m.a. brtt. við frv. þetta. Ég tel sjálfsagðan hlut að þetta mál verði kannað mjög rækilega. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, að það þurfi að fara yfir allt félagslega íbúðarbyggingakerfið í landinu. Í þeim efnum eigum við að skoða öll mál með opnum huga. Líka þær tillögur sem uppi eru af hálfu Alþfl. um kaupleiguíbúðir. Ég tel að í þeim sé margt athyglisvert og það þarfnist skoðunar. Ég tel hins vegar að það sé óskynsamlegt af Alþýðuflokksmönnum hér í hv. deild að tefla á þá hættu, sem er yfirvofandi, að þessi ágæta hugmynd yrði felld af stjórnarliðinu hér í hv. Nd. Með því móti er verið að draga úr þunga þess að milliþinganefndin nái að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti. Ég held að í húsnæðismálum eins og öðrum málum hljótum við fyrst að spyrja um mál, málefnið sjálft. Hvernig getum við þokað því áleiðis? Og ég held að sú opnun sem er í nál. meiri hlutans sé hugmyndinni um kaupleiguíbúðir gagnlegri heldur en það að tefla málinu á þá hættubrún að það verði fellt hér í hv. deild.

Ég get auðvitað ekki farið fram á það við einn eða neinn að hann dragi sínar till. til baka og það dettur mér ekki í hug. En ég hlýt að taka það fram að ég hefði miklu frekar viljað sjá að þingið hefði allt, og þar með taldir auðvitað Alþýðuflokksmenn, sem hafa flutt um þetta till., að þingið hefði allt sameinast um að vísa þessu verkefni yfir á milliþinganefndina. Þar með vorum við að ákveða að á þessu verkefni yrði tekið með mjög alvarlegum og eindregnum hætti.

Í þriðja lagi leggur meiri hl. félmn. til að milliþinganefndin skoði sérstaklega fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar. Þetta er stórt mál þó að ég sé ekki fyrir mitt leyti sammála þeirri uppsetningu um vaxtamun sem fram kom hjá hv. ræðumanni Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held að útilokað sé að framreikna það vaxtastig sem nú er um að ræða í landinu á hinum hæstu raunvöxtum, þ.e. 9% eða hvað það nú er. Ég held reyndar að það standist ekkert þjóðfélag slíka vexti stundinni lengur og vextir hljóti, þó ekki væri nema af þeim ástæðum, að lækka verulega. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að öll vaxtataka umfram eins og 2% sé óeðlileg í nokkru hagkerfi, 2% raunvexti. Ég tel að hún sé óeðlileg í nokkru hagkerfi. En hitt kemur svo til í þessu efni að lífeyrissjóðirnir munu mjög eflast að eignum á komandi árum. Talið er að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, sem á þessu ári er talið vera í kringum 5 milljarðar kr., verði árið 1990 8,5 til 9 milljarðar kr. Ég hef leyft mér að segja í góðra manna hópi við vini mína úr lífeyrissjóðunum að þeir megi þá verða fegnir að koma því fé út sem lífeyrissjóðirnir verða þá með milli handanna, m.a. inn í þá öruggu ávöxtun sem húsnæðiskerfið býður upp á. Ég tel m.ö.o. að þetta stóraukna ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á komandi árum muni hafa í för með sér lækkandi vexti hér á landi, algerlega óhjákvæmilega, og þess vegna sé það í rauninni fráleitt að reikna með að þetta vaxtagap, sem nú er um að ræða, verði viðvarandi hér um margra ára skeið. Engu að síður er nauðsynlegt að skoða þetta mál til hlítar, m.a. fjármögnun ríkissjóðs á húsnæðislánakerfinu.

Við stöndum frammi fyrir þeirri hraklegu staðreynd að í grg. með þessu frv. er gert ráð fyrir því að framlög ríkissjóðs á næsta ári þurfi ekki að verða nema 1000 millj. kr. á verðlagi þessa árs, þó svo að ríkissjóður leggi inn í þetta kerfi á þessu ári 1,3 milljarða kr. Það eru sem sagt vangaveltur um það í frv. og grg. þess að lækka framlag ríkissjóðs á næsta ári. Það er með öllu fráleitt að hefja þannig störf við framkvæmd hins nýja húsnæðislánakerfis. Og það er þess vegna sem meiri hl. félmn. hefur tekið ákvörðun um það að milliþinganefndin eigi að fara yfir fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

Í fjórða lagi er lagt til að milliþinganefndin fari yfir áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðarbyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt. Ég rökstuddi það mál nokkuð í minni ræðu við 1. umr. í þessari hv. deild þannig að ég hef út af fyrir sig ekki þar miklu við að bæta. En ég hygg að öllum eigi að vera það ljóst að það verður að aðlaga og endurbæta verkamannabústaðakerfið með tilliti til þeirrar niðurstöðu varðandi Byggingarsjóð ríkisins sem hér er verið að gera till. um.

Í fimmta lagi er lagt til að milliþinganefndin ræði sérstaklega verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja eða aldraða. Í þeim efnum er nauðsynlegt að hún fari yfir alla þætti málsins, ekki bara stöðu Húsnæðisstofnunarinnar heldur líka Framkvæmdasjóðs aldraðra, og í nál. meiri hlutans fjöllum við rækilega um þetta sérstaka atriði.

Í sjötta lagi leggjum við til að milliþinganefndin fjalli um stöðu og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar. Ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar hefur verið starfandi nú um nokkurra missera skeið. Við fluttum um það till. hér, stjórnarandstaðan, fyrir tveimur árum að stofnuð yrði ráðgjafarþjónusta hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Sú tillaga var nú auðvitað felld, enda ákvað ríkisstj. svo tveim, þrem mánuðum seinna að framkvæma tillöguna. Við teljum að það sé eðlilegt að komið sé upp ráðgjöf við íbúðarkaupendur og húsbyggjendur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ráðgjöf til fólks sem er að fara af stað. En ekki aðeins ráðgjöf um það hvernig menn eiga að bjarga sér þegar allt er komið í hnút. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að hér sé um mjög mikilvægt verkefni fyrir milliþinganefndina að ræða og ég tel óhjákvæmilegt að undirstrika það sérstaklega hér.

Í sjöunda lagi segir hér: Milliþinganefndin á að fjalla um ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til. Þetta er algerlega óhjákvæmilegt verkefni. Hér er um að ræða fólk, sem hefur orðið fyrir svo hrikalegum hlutum í framhaldi af þeirri efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið frá 1983, að það verður að koma enn frekar til móts við það. Ég rifjaði það upp hér úr þessum ræðustól fyrir fáeinum dögum hvernig misgengið varð til. Ég ætla ekki að endurtaka það nú. En hvernig svo sem við skýrum misgengið þá er augljóst mál að þarna verður að koma með myndarlegum hætti til móts við þessa einstaklinga. Alþingi ber þarna ábyrgð. Alþingi hefur skyldur og ber að taka á málum samkvæmt því.

Í áttunda lagi leggjum við til að stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar. Það hefur ekki verið reiknað út hversu mörg mannár fara í það að reikna út stærðarmörk í þessu sambandi, en mér er tjáð að vísir menn séu að fjalla um þessi mál víðs vegar í kerfinu og það séu býsna mörg mannár sem fara í það að greiða úr þeirri flækju. Þess vegna leggjum við áherslu á að þetta verði athugað. Ég tel að þær till. sem uppi eru um þetta efni frá Alþfl., um að minnka þessa viðmiðunaríbúð, séu góðra gjalda verðar. Ég tel hins vegar skynsamlegra á þessu stigi málsins að milliþinganefndin fjalli um þetta mál og skoði það betur frekar en að hrapa að því að samþykkja brtt. sem er í rauninni ekkert betri en sú till. sem þarna er inni nú þegar.

Í níunda lagi er lagt til að milliþinganefndin fjalli sérstaklega um það hvernig á að framkvæma ákvæði 11. gr. sem virðast geta orðið flókin og erfið í framkvæmd. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið hv. 2. landsk. þm. að það er vafasamt að setja inn í lög til lengri tíma ákvæði sem binda lánsrétt við hjúskaparstöðu. Ég hygg að menn komist mjög fljótlega að því að þessi ákvæði séu illframkvæmanleg og þess vegna setjum við þetta ákvæði inn að milliþinganefndin fylgist með þessu og geri þá brtt. á þessum ákvæðum fyrir haustið ef illa virðist ætla að ganga að framkvæma þau.

Loks er hér í tíunda lagi ákvæði sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur gert grein fyrir og ég hef engu þar við að bæta.

Ég vil í framhaldi af þessu, herra forseti, undirstrika að í framhaldi af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins hefur þetta komið fram á Alþingi:

1. Félmrh. hefur upplýst að gerðir hafi verið samningar við bankana um lengingu lána í a.m.k. 10 ár; flestir bankarnir hafi þegar undirgengist þetta, aðrir séu u.þ.b. að fallast á þetta fyrirkomulag; og að yfirlýsing í þessum efnum muni verða gefin út næstu daga.

2. Fyrir liggur að það er að hefjast könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði. Það er í framhaldi af yfirlýsingu aðila vinnumarkaðarins hér fyrir nokkrum vikum.

3. Fyrir liggur að það er ætlunin að auka við fé Byggingarsjóðs verkamanna á síðari hluta þessa árs um 200 millj. kr. Það kom fram hér í upplýsingum frá hæstv. félmrh. fyrir nokkrum dögum.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að víkja hér örlítið að einni sérstakri grein í þessu frv. sem ég hef tekið eftir að hefur valdið vissum misskilningi. En það er 11. gr. frv. Þar segir: „Fjárhæð láns má nema allt að 70% endurbótakostnaðar.“ Hér er verið að tala um svokölluð orkusparnaðarlán. Í gildandi lögum er þetta ákvæði 80% en það segir þó ekki alla söguna vegna þess að í gildandi lögum segir að þessi upphæð megi þó aldrei fara fram úr tilteknu hámarki sem á þessu ári er 580 þús. kr. fyrir fimm manna fjölskyldu. Þó að hlutfallið sé lækkað hér í 11. gr. hefði breytingin engu að síður í för með sér að þessi lán gætu orðið 1 millj. 470 þús. kr. Þannig að hér er í rauninni verið að hækka þessi lán stórlega frá því sem nú er.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði til fundar sem haldinn var með forráðamönnum lífeyrissjóðanna fyrir nokkrum dögum og ég vil sérstaklega fjalla um. Hún vitnaði til þess að Pétur Blöndal, formaður Landssambands lífeyrissjóða, hefði verið mjög neikvæður gagnvart þessu lífeyrissjóðasamkomulagi. Það er rétt og ekki of djúpt í árinni tekið hjá hv. þm. Hins vegar er ljóst að þrátt fyrir orð formannsins liggur það fyrir að meginhluti lífeyrissjóðanna innan Landssambands lífeyrissjóða mun standa að þessu samkomulagi, þar á meðal hefur því verið lýst yfir af talsmönnum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Og það var athyglisvert sem fram kom hjá talsmanni Vinnuveitendasambands Íslands á þessum sama fundi, Þórarni Þórarinssyni. Hann lýsti því yfir að auðvitað myndi Vinnuveitendasambandið sem samningsaðili stuðla að því að þetta 55% ákvæði næðist. Og þannig háttar til að Vinnuveitendasamband Íslands tilnefnir atvinnurekendahlutann í stjórn langflestra lífeyrissjóða í landinu. Það er þess vegna ágiskun mín, sem aðrir hafa tekið undir, að þegar liggi fyrir yfirlýsingar frá talsmönnum 9/10 hluta ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna, og ef verulegir brestir kæmu í þetta samkomulag af þeirra hálfu þá væri það ekkert annað en svik og ekkert minna en svik.

Meiri hl. félmn. hefur lagt fram till. um það að Vinnuveitendasamband Íslands verði aðili að húsnæðismálastjórn með einum fulltrúa þannig að hún verði tíu manna, þar komi einn frá Vinnuveitendasambandinu en þar eru fyrir tveir frá Alþýðusambandinu. Ég tel að til þess að tryggja undanbragðalausa framkvæmd lífeyrissjóðasamkomulagsins þá sé eftir atvikum rétt að fallast á þessa tillögu. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að ganga svo ríkt eftir því að menn standi við sín fyrirheit varðandi lífeyrissjóðina að það sé réttlætanlegt við þessar aðstæður að láta það yfir sig ganga að Vinnuveitendasambandið fái þarna einn fulltrúa.

Við meðferð málsins, herra forseti, fengum við ýmsar upplýsingar m.a. frá Stefáni Ingólfssyni hjá Fasteignamati ríkisins og fleiri aðilum og ég tel ástæðu til þess hér að þakka þær. Einnig mjög glöggar upplýsingar frá formanni þeirrar nefndar sem undirbjó frv., Hallgrími Snorrasyni hagstofustjóra. Þá vil ég láta þess getið að mér hefur borist í hendur grein eftir einn af fulltrúum Sjálfstfl. í milliþinganefndinni um húsnæðismálin. Þetta er blaðagrein sem fulltrúinn hyggst birta í blöðum næstu daga. Ég vil láta þess getið að ég hafi séð þessa grein þegar þessi mál eru afgreidd. Ég tel að margt í henni þurfi skoðunar við og í heild vil ég segja: Við eigum auðvitað að ganga í þetta verk með opnum huga. Við erum hér að framkvæma samkomulag um fjármögnun lífeyrissjóðanna og húsnæðismálakerfisins í stórauknum mæli. Við viðurkennum að við höfum haft knappan tíma til að fara yfir þessi mál og vitum þess vegna að eitt og annað getur komið upp á síðari stigum sem við þurfum að skoða. Við skulum ekki reyna að telja nokkrum manni trú um það í þjóðfélaginu að við séum að ganga frá einhverjum endanlega fullkomnum hlut. Svo er ekki. Hér er um að ræða áfanga en ekki lokapunkt að neinu leyti.

Ég, fyrir mitt leyti, herra forseti, ég tek það fram að lokum, hefði helst viljað sjá að við hefðum náð heildarsamkomulagi hér í hv. deild þannig að mönnum hefði ekki verið stillt upp við vegg varðandi það hvort þeir þurfa að fara að samþykkja eða synja einstökum brtt. Ég held að það sé hinum góðu hugmyndum, sem eru í brtt., ekki til góðs ef svo illa færi að þær yrðu felldar hér í deildinni. Þess vegna endurtek ég fyrri áskoranir mínar úr þessari ræðu til tillögumanna um að þeir skoði þessa hluti mjög vandlega.