22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4349 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og mun ræða það í hverju sá fyrirvari er fólginn. Fyrst vil ég segja að formaður þeirrar nefndar sem samdi frv. sat á fundum félmn. allan tímann og gaf mjög greinargóðar upplýsingar um það starf sem nefndin vann og greiddi úr öllum spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Þar á ég við Hallgrím Snorrason hagstofustjóra. Ég verð að segja að ef hans hefði ekki notið við væri sá sem hér stendur a.m.k. í miklu meiri vafa um ýmis atriði frv.

Það kom líka glöggt fram hjá honum um þetta verk sem nefndin varð að vinna á mjög skömmum tíma að honum væri ljóst að nefndarmenn hefðu ekki getað skoðað málið nógu vel, hefðu ekki haft tíma til þess, þannig að það mundu sjálfsagt koma í ljós einhverjir annmarkar á því eins og á öðrum mannanna verkum og ekki síður.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um vextina. Það er alveg útilokað að þjóðin geti búið við slíka raunvexti sem eru í dag. Mér finnst það alveg vera, get tekið undir að það, út í hött að reikna út frá þeim raunvöxtum sem eru í dag. Ég tel að einmitt þeir vextir, sem hefur verið rætt um og verða a.m.k. þetta ár eða fram að kosningum 3,5%, séu m.a.s. í hærri kantinum sem atvinnulífið og þjóðin getur búið við.

Ég var þeirrar skoðunar við fyrsta lestur þessa frv. að það væri ekki þolandi og útilokað að þeir, sem hafa ekki lífeyrissjóðsréttindi og eru í ýmsum þjónustugreinum og alls konar störfum en hafa ekki sinnt því lagaákvæði að kaupa sér réttindi í lífeyrissjóð, hefðu engan rétt eins og frv. ber með sér. En þegar var farið að ræða þetta nánar fannst mér þetta í sjálfu sér vera eðlilegt. Þessir menn gátu verið búnir að öðlast réttindin og áttu að vera búnir að því. Það má benda á að ef þessir menn vilja kaupa sér réttindi á þessu og næsta ári tekur það ekki lengri tíma að fá full réttindi miðað við það frv. sem liggur fyrir.

Fyrirvari minn var fyrst og fremst um tvö atriði. Lífeyrissjóður bænda er samkvæmt lögum skyldugur til þess að láta 25% af ráðstöfunarfé sínu til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég vil að það komi fram að ég lít svo á að ráðstöfunarfé sjóðsins sé það sem stendur eftir þegar þessari lagaskyldu er fullnægt. Ég mun ekki ræða það mál frekar, a.m.k. ekki nú nema frekara tilefni gefist, en vil að þetta komi fram.

Aðalfyrirvari minn er um þá sem hafa byggt á s.l. árum. Spurningin er hve mörgum árum. Þetta frv. gerir t.d. ráð fyrir í athugasemdum frá 1980. Það er mikil spurning. En það er siðferðisleg skylda þjóðfélagsins að reyna að lagfæra stöðuna sem þeir eru í eftir því sem kostur er.

Ég vil lesa, með leyfi forseta, örstuttan kafla úr nál., en hann hljóðar þannig:

„Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið gerði samkomulagið ráð fyrir því að 300 millj. kr. yrði varið til viðbótar þeim 200 millj. kr. sem fyrir voru til aðgerða til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra er byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar. Það var rætt í nefndinni hvort rétt væri að fella inn í lögin ákvæði þar að lútandi. Frá því var þó horfið þar sem talið var að það ætti ekki að vera verkefni Húsnæðisstofnunar til frambúðar að greiða úr greiðsluvanda þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum vegna húsbygginga.“

Ég leitaði eftir því í nefndinni hvort ekki væri samstaða um að flytja heimildargrein við þetta frv. um að það yrði tekið á þessum málum. Í gildandi lögum hljóðar síðasta málsgr. í 11. gr. þannig: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að ákveða nýja lánaflokka að fengnu samþykki félmrh.“ En ástæðan fyrir því að ég vildi koma með frekari heimildir í þessu efni er sú að þeir sem missa íbúðir sínar vegna skuldaerfiðleika fá fullt lán. Ef einhverjir tveir t.d. hefðu skipti á sínum íbúðum eiga þeir eftir frv. að fá fullkomið lán, 2,1 millj. (HBI: Það er nú ekki rétt.) Það er að vísu rétt, já. Það er líklega tæp 1,5 millj. (HBI: Það er rúm milljón.) Það er meira.

Aftur á móti, þó að mikið hafi verið gert fyrir þetta fólk á undanförnum tíma, er stór hópur sem er í vandræðum og er að missa íbúðirnar. Nokkrir þm. voru boðaðir til presta í Reykjavík á dögunum og það var afskaplega fróðlegt að heyra hvað þeir sögðu um þessi mál. Þeir hvöttu þm., sem þarna voru, mjög til að taka á þessu máli vegna þeirrar örvæntingar sem þeir sögðu að væri hjá mörgu af þessu fólki sem væri að missa íbúðirnar og fjölskyldurnar að sundrast. Þeir lýstu fyrir okkur sinni reynslu í þessum málum.

Það var raunar kannske ekkert nýtt, sem kom fram, fyrir okkur suma sem höfum verið í sambandi við margt af þessu fólki annað en að það staðfesti þá tilfinningu sem við höfum fyrir þessum málum. Eitthvað þyrfti að gera og má segja að fyrir því sé heimild fyrir húsnæðismálastjórn, eins og ég sagði, og hæstv. félmrh. Það er að vísu heimild til þess, en það má ekki dragast að hugað sé að þessum málum.

Ég spurði aðila vinnumarkaðarins hvort þeir teldu að það væri eitthvað brotið það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu um þessi mál þó að það væri tekin inn heimildargrein og yrði tekið á þessum málum. Þeir svöruðu því að það teldu þeir alls ekki. Hins vegar sögðu þeir á öðrum tíma að þeir legðu til að það yrði sem minnst hróflað við þessu frv.

Fyrirvari minn nær fyrst og fremst til þessara tveggja atriða og ég hef trú á að ef það væri ákveðið að taka á þessum málum á þessu og næsta ári, ekki endilega þessu ári heldur einnig á næsta ári, mundi vera hægt að bjarga mörgum frá því að missa sínar eignir í uppboðum. Ég tel að Alþingi sé í sjálfu sér skuldbundið til að rétta hlut þessa fólks og ég treysti því að það náist samkomulag um það, en það má bara ekki bíða eftir því að milliþinganefndin skili sínu áliti.