22.04.1986
Neðri deild: 94. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 1035 hef ég leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. Hún er við b-lið 1. gr. 1. málsl. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

"Dómsmrh. er enn fremur heimilt að veita Háskóla Íslands leyfi til rekstrar skyndihappdrættis með peningavinningum.“

Þessi brtt. felur það í sér að örlítið eru þrengdar þær nýju heimildir sem dómsmrh. fær í sínar hendur til að efna til nýrra happdrætta á vegum Happdrættis Háskóla Íslands og verður þó að ætla að sæmilega sé fyrir séð og án þess að þar sé takmarkað um of.

Frv. fjallar, eins og fram hefur komið, um að framlengja einkaleyfi til að reka happdrætti til ársins 2004, en einnig að efna til nýjunga í starfsemi happdrættisins. Með tilliti til þeirra mörgu happdrætta sem eru í gangi í landinu sýnist ekki tilefni til þess að mínu áliti að fara lengra en mín brtt. gefur tilefni til og veitir hún þó ærnar heimildir.

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara eins og fram hefur komið, en legg þessa brtt. hér fram.