22.04.1986
Neðri deild: 94. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4358 í B-deild Alþingistíðinda. (4118)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. þykir mér rétt að geta þess að í þessu áliti, sem lögfræðingar félmrn. sendu hv. fjh.- og viðskn. Alþingis um þetta ágreiningsefni, eða réttara sagt ekki ágreiningsefni heldur bara túlkun á þeim lögum sem eru í gildi um þessa húsnæðissparnaðarreikninga, kemur fram að félmrn. telur að annmarki sé á lögunum að því leyti til að þar komi ekki nægilega skýrt fram að hér getur annars vegar verið um að ræða að fólk tryggi sér umráðarétt yfir húsnæði gegn greiðslu ákveðins framlags og hins vegar að það kaupi sér eignarhlut í leiguíbúð.

Þetta telja lögfræðingarnir að þurfi að skýra betur og ég legg þann skilning í þetta að það þurfi að endurskoða þessi lög, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði réttilega áðan. Það eru fleiri lögfræðingar sem telja að skýring lögfræðings fjmrn. sé of þröng og þess vegna er full ástæða til að taka málið til meðferðar. Ég efast ekkert um að fjmrn. og félmrn. eða lögfræðingar þessara ráðuneyta muni koma sér saman um annaðhvort túlkun eða breytingu á þessum lögum ef með þarf og þess vegna styð ég það að þessu sé vísað til ríkisstj.