22.04.1986
Neðri deild: 95. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (4125)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil nú inna virðulegan forseta eftir því hvað hann hafi hugsað sér með fundahald. Það stendur nefnilega þannig á með þetta dagskrármál að um það er ekki samkomulag í deildinni eins og forseta væntanlega er ljóst og það gæti því tekið nokkra stund að ræða það eins og einstakir hv. deildarmenn teldu og telja nauðsynlegt.

Ég vil einnig spyrja hv. flm., hæstv. fjmrh., hvort hér sé um að ræða eitthvert sérstakt forgangsmál ríkisstj. sem geri það að verkum að það sé eðlilegt að vinna að málinu með þessum hætti þegar ljóst er að það er ágreiningsmál. Samtímis því sem hér hafa fjölmörg mál verið afgreidd með hraði í gegnum deildina í ágætu samstarfi meiri hl. og minni hl. og allra aðila finnst mér nokkuð óeðlilegt ef eitt einstakt mál er tekið út úr og afgreitt með hætti sem ekki er nú æskilegur þegar verið er að taka til umfjöllunar mál yfirleitt hér í deildinni. Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, nefna það og minna á að ég t.d. spurði hér spurninga og óskaði eftir því jafnvel að fá álit annarra hæstv. ráðherra í ríkisstj. á því hvernig þetta snerti þeirra störf og þeirra fagsvið, en við því komu engin svör og það var ekki höfð uppi nein viðleitni af hálfu hæstv. ráðherra til að greiða þó framgang málsins með þeim hætti við 2. umr. Það er tekið hér engu að síður til 3. umr. þegar alllangt er liðið á nótt. Ég vil því ítreka spurningu mína í fyrsta lagi til forseta hvað hann hugsi sér með fundarhaldið og einnig til hæstv. fjmrh. hvort þetta brennivínsmál sé alveg sérstakt forgangsmál ríkisstj. og þá væntanlega Sjálfstfl. einnig.