22.04.1986
Neðri deild: 95. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (4128)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna þeirra spurninga sem hv. síðasti ræðumaður beindi til mín get ég upplýst að sú nefnd, sem var skipuð fyrir nokkrum árum til að fjalla um varnir gegn áfengis og fíkniefnavanda, gerir ráð fyrir að skila áliti í næsta mánuði. Hins vegar hefur hún þegar skilað ýmsum bráðabirgðatillögum og þeim reyndar allítarlegum. Ég hef farið yfir þær. Þær fjalla fyrst og fremst um takmarkanir á sölu og neyslu áfengis, styttingu á þeim tíma sem leyft yrði að veita áfengi á veitingastöðum o.s.frv., en á engan máta um framleiðslu áfengis nema þá með þeim bruggtækjum sem tíðkast nokkuð, að því er mér skilst, hjá einstaklingum.

Það frv. sem hér er um að ræða fjallar um framleiðslu á áfengi til útflutnings fyrst og fremst og veitir enga heimild til sölu á áfengi innanlands. Og ég fæ ekki séð að það rýmki á nokkurn máta söluheimildir á áfengi innanlands, enda tel ég ákaflega mikilvægt að svo verði um hnútana búið að það geti alls ekki orðið. Ég held því að ég megi fullyrða að ef það er gert, sem ég treysti vissulega hæstv. fjmrh., hver sem hann er, á hverjum tíma til að gera og hann hlýtur að gera, þá eigi slík framleiðsla sem hér um ræðir á engan máta að ganga gegn tillögum áfengisvarnanefndarinnar eða hvað við viljum kalla hana.

Ég vil svo taka það fram að ég ber fulla virðingu fyrir viðleitni hv. þm. og annarra til að draga úr áfengisneyslunni. Það þarf vissulega að gera það, leggja á það áherslu, en mér sýnist ekki þetta frv. koma því máli sérstaklega við.