22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4393 í B-deild Alþingistíðinda. (4147)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim fjölmörgu þm. sem til máls hafa tekið við síðari umræðu þessarar þáltill. og stutt efni hennar með einum eða öðrum hætti. Meðferð allshn. á þessari till. hefur orðið mörgum þm. tilefni harðorðrar gagnrýni og vil ég einnig þakka þær undirtektir við mál mitt þar um.

Hér er nú nokkuð liðið á kvöld og að sönnu lítill tími til ítarlegra umræðna, en ég kemst samt ekki hjá því að rekja nokkuð gang þessa máls og skýra hina ýmsu snúninga sem á því eru, því að hér hafa fallið bæði mörg orð og stór sem nauðsynlegt er að láta ekki athugasemdalaust fram hjá sér fara.

Eins og ég sagði við upphaf 2. umr. um þessa þáltill. var upprunaleg afgreiðsla allshn. á till. til skammar og ljóst að nefndarstörf voru ekki slík að hægt væri að státa af, enda nefndin síðan búin að taka málið til sín aftur til umfjöllunar í tvígang eftir að það kom til síðari umræðu hér í Sþ. Það má með sanni segja að þessi síðari umræða hafi einkennst af því að menn hafi verið að vinna nefndarstörfin í ræðustól og betur hefði verið ef hv. allshn. hefði í upphafi sinnt því hlutverki sínu að fjalla sómasamlega um málið eins og henni var rétt og skylt. Síðan hafa þeir atburðir gerst eftir þriðju tilraun til umfjöllunar um till.allshn. hefur nú dregið fyrri till. sína um málsmeðferð til baka, þ.e. að vísa till. frá, og skilað framhaldsnál. þar sem lagt er til að till. verði samþykkt í breyttu formi.

Ég fagna þessum sinnaskiptum allshn. hvað málsmeðferðina varðar þótt ekki geti ég fagnað brtt. sjálfri því hún gengur að mínu viti allt of skammt. Ég mun koma síðar að brtt. og því sem stendur í nál. allshn. en ég ætla að byrja á því að rekja mig stuttlega eftir gangi þessa máls, svara og skýra eftir föngum, þótt ljóst sé að ýmsar athugasemdir muni liggja óbættar hjá garði.

Strax í upphafi þessarar síðari umræðu komu fram spurningar um framkvæmd till. Kvennalistans, m.a. hjá hv. þm. Ellerti Schram og má e.t.v. eðlilegt teljast þar sem fullir sex mánuðir eru liðnir síðan ég mælti fyrir till. En þá kom fram ítarlegar en gerir í grg. hvernig framkvæmd hennar skuli háttað. Í raun er framkvæmdin harla einföld og ég vil nota þetta tækifæri til að vísa á bug öllum fullyrðingum, sem hér hafa ítrekað komið fram, um að till. sé upphaflega illa unnin eða illa grunduð. Það er ekki rétt enda hafa engin rök verið flutt fyrir þessum fullyrðingum og ég geri ekki mikið með þær.

Framkvæmd till. er einföld í raun. Hún gerir ráð fyrir að heimilisstörf séu metin til starfsreynslu hjá hinu opinbera án tillits til eðlis þess starfs sem unnið er hjá hinu opinbera. Sem þýðir einfaldlega að ákveðinn árafjöldi við heimilisstörf gefur sömu kjör og sami árafjöldi í því starfi sem viðkomandi ræður sig til hjá því opinbera. Hins vegar er gert ráð fyrir að heimilisstörf séu ekki metin sem starfsreynsla nema viðkomandi hafi haft heimilisstörf að aðalstarfi, og þá er miðað við sömu reglu og notuð er í Háskóla Íslands við að greina í sundur þá stundakennara sem hafa stundakennslu að aðalstarfi og þá sem hafa hana að aukastarfi, sem þýðir hvað heimilisstörfin varðar að heimilisstörf teljast aðalstarf á meðan sá eða sú, sem þeim gegnir, sinnir ekki hálfu starfi eða meira úti á vinnumarkaðnum á meðan.

Það er því ekki rétt sem kom fram hjá formanni og upphaflegum frsm. allshn.till. feli í sér starfsaldurshækkanir í takt við lífaldur starfsmanns. Starfsmaður þarf að hafa haft heimilisstörfin að aðalstarfi til þess að fá þau metin sem starfsaldur samkvæmt till. og því getur lífaldurinn einn ekki verið ákvarðandi. Mér er reyndar til efs að hv. formaður og fyrrv. frsm. allshn. í þessu máli, hafi eytt miklum tíma í að kynna sér grg. till. eða framsöguna fyrir henni, ef marka má umfjöllun hans um efni hennar þegar hann mælti fyrir frávísunartillögu allshn. Hins vegar bætti hann um betur og hóf að vinna nefndarstörfin þegar hann sté í ræðustól í annað sinn í þessari umræðu og í það skiptið hafði hann með sér í ræðustól umsagnir um till. sem hann taldi sýna að ágreiningsatriði um framkvæmd hennar væru fjölmörg, svo ég vitni beint til orða hv. þm.

Af þeim þremur umsögnum sem hv. þm. las upp hér í ræðustól kom engin skoðun fram á málinu í þeirri fyrstu, sem var frá Alþýðusambandi Íslands. Í annarri umsögninni, frá Verkamannasambandi Íslands, kom fram sú skoðun að till. ætti að ná til alls vinnandi fólks en ekki eingöngu til opinberra starfsmanna. Og í þeirri þriðju, frá Vinnuveitendasambandi Íslands, kom fram að Alþingi ætti ekki að vera að skipta sér af kjaratengdum málum sem þessum. Í þeirri umsögn sjáum við reyndar hvaðan meiri hl. nefndarinnar hafði þá upphaflegu skoðun sína að vísa bæri málinu frá. Og ljóst má vera að boðorðin úr Garðastrætinu ríða greinilega ekki við einteyming hér á þessu þingi.

Hitt er hins vegar bágt að sjá hvernig þessar umsagnir sýna að ágreiningsatriði eru um framkvæmd þessarar till., eins og formaður allshn. vildi vera láta, en fleiri umsagnir las hann ekki hér upp fyrir þingheim. Hins vegar brá svo við að eftir að hafa vísað því á bug, og það gerðu reyndar fleiri nefndarmenn í allshn. sem þá töluðu, að Alþingi hefði skoðun á þessu máli, tók hv. formaður allshn. til við það að hafa víðtæka skoðun á málinu.

Það er ekki tilefni til þess nú að orðlengja frekar um það utan þess að hann hafði skoðun á því að till. næði eingöngu til opinberra starfsmanna, sem hann taldi fráleitt og ekki réttlátt, þótt hann væri einnig þeirrar skoðunar skv. nál. að Alþingi ætti ekki að skipta sér af hinum svokölluðu frjálsu samningum á vinnumarkaðnum. Þetta er þversögn. Sama þversögn kom fram í máli hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar þegar hann mælti fyrir brtt. sinni við tillgr. Um leið og hann taldi að Alþingi ætti ekki að gefa aðilum hins frjálsa vinnumarkaðar fyrirmæli um kjaratengd atriði nema í nauðir ræki taldi hann tillgr. samt of þrönga og að nauðsyn bæri til að hún næði einnig til hins frjálsa vinnumarkaðar en ekki bara til opinberra starfsmanna.

Ástæða þess að tillgr. nær eingöngu til opinberra starfsmanna er sú að við Kvennalistakonur virðum frelsi aðila hins almenna vinnumarkaðar til að semja sjálfir um kaup og kjör. Um opinbera starfsmenn gegnir öðru máli. Viðsemjandi þeirra er hæstv. fjmrh. sem fær umboð sitt frá Alþingi og því eðlilegt að Alþingi hafi skoðun á hvernig kjörum og samningum við ríkisstarfsmenn skuli háttað. Þetta er ástæða þess að till. nær aðeins til opinberra starfsmanna. Ástæðan er ekki sú, eins og hér hefur verið látið í veðri vaka, að sú réttarbót, sem till. tekur til, eigi ekki erindi til alls launafólks, því að það á hún svo sannarlega.

Þegar ég mælti fyrir till. lét ég þess og rækilega getið að það væri von mín að samþykkt hennar kæmi öllu launafólki til góða því að á grundvelli hennar gætu samtök launafólks á hinum svonefnda frjálsa vinnumarkaði samið um sömu réttar- og kjarabót sér til handa. Ég vísa því því alfarið á bug að okkur Kvennalistakonum hafi ekki gengið það sama til hvað varðar opinbera starfsmenn og launafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Þá er frá því að segja að síðan síðari umræða um þessa þáltill. fór af stað fyrir hartnær sex vikum síðan hafa komið fram fjórar brtt. við upphaflegu tillgr. Eru þær allar nokkurs konar tilbrigði við það stef sem kveðið var með upphaflegu tillgr. Fjöldi þessara brtt. - ein þeirra er meira að segja orðin að fullburða þáltill. - læddi þeim grun að mér að upphaflega till. væri svo góð að nú vildu allir „Lilju kveðið hafa“, eins og þar stendur, og eiga heiðurinn í þessu máli. Sá grunur styrktist og varð að nokkurri vissu þegar ekki reyndist unnt á milli 1. og 2. lotu í þessari umræðu að ná samstöðu með flm. þeirra till., sem þá höfðu komið fram og ekki höfðu verið dregnar til baka, um eina sameiginlega till., ekki síst þar sem munurinn á umræddum till. er blæbrigðamunur en ekki eðlismunur. Það var greinilega orðið mönnum keppikefli að fá sína útgáfu af tillgr. samþykkta frekar en búa þannig að málefninu að allir mættu sáttir við una.

Ég vil aðeins víkja að þessum brtt. og þá fyrst þeirri sem nú er orðin að þál. en hana flytja hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Salome Þorkelsdóttir. Þessi till. er svo grútmáttlaus að í henni kemur ekki einu sinni fram sú viljayfirlýsing að heimilisstörf skuli metin til starfsreynslu. Hún hljóðar upp á að kanna skuli málið og slíkar könnunartillögur þekkjum við orðið hér á virðulegu Alþingi og gerum ekki mikið með því að þær eru iðulega aðferð og einungis aðferð til að svæfa málin. Þessi till. er því með öllu óaðgengileg og ég hef ekki um hana fleiri orð.

Af öðrum brtt., sem fram hafa komið við tillgr., er sú till. næst upphaflegu till. sem borin er fram af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og þremur öðrum þm. Framsfl. Sú till. er efnislega nánast samhljóða upphaflegu till. að einu atriði undanskildu sem ég kem að núna rétt á eftir. Eins og upphaflega till. gerir þessi framhaldstillaga hv. þm. Stefáns Valgeirssonar o.fl. ráð fyrir því að Alþingi lýsi yfir vilja sínum í þessu efni, þ.e. að Alþingi álykti að meta skuli heimilisstörf til starfsreynslu. Í öðru lagi gerir hún ráð fyrir því að þetta verði ekki gert athugunarlaust, enda var það aldrei ætlunin í upphaflegu till. Í þriðja lagi gerir hún ráð fyrir að starfsreynsla við heimilisstörf sé metin til hvaða starfa sem er hjá hinu opinbera. Í fjórða lagi gerir hún ráð fyrir að þeir sem ekki þegar hafa þessi réttindi njóti þeirra örugglega verði till. samþykkt.

Þessi till. er því nokkurn veginn sammála upphaflegu tillgr. Það eina sem á milli skilur og einhverju skiptir er að upphaflega till. gerir ráð fyrir að heimilisstörf séu metin til starfsreynslu eingöngu þegar um aðalstarf er að ræða, þ.e. aðalstarf við heimilisstörf. En till. Stefáns Valgeirssonar gerir ekki ráð fyrir neinum slíkum mörkum. Till., eins og hún var upphaflega hugsuð, er auðveldari og skýrari í framkvæmd. En ég geri þetta atriði ekki að ágreiningsefni því að það má vissulega til sanns vegar færa að réttlátara sé að launa öllum heimilisstörfin, sama hversu mikið er jafnframt unnið utan heimilis.

Hins vegar hef ég það við till. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar o.fl. að athuga að þar er sett fram skilgreining á heimilisstörfum sem engan veginn getur talist fullnægjandi. Ég tel ákaflega óæskilegt að Alþingi samþykki og sendi frá sér jafngallaða skilgreiningu á þeim mikilvægu störfum sem hér um ræðir. Heimilisstörf felast ekki eingöngu í barnauppeldi og umönnunarstörfum, eins og fram er tekið í till. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, heimilisstörf eru miklu víðtækari og dugar mér sennilega ekki matartíminn til að fjalla um það, þannig að ég læt mér nægja að benda á að til heimilisstarfa teljast líka matargerð, ræstingar, þvottar, innkaup, fjármálastjórnun, skipulag á margs konar störfum og þar fram eftir götum. Hér er því um viðamikil og fjölbreytt störf að ræða og mikil ábyrgðarstörf að auki.

Til að leiðrétta þennan ágalla á þeirri till. sem ég hef hér verið að ræða um lagði ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Helga Seljan fram brtt. á þskj. 657, þannig gerða að enginn vafi léki á að átt er við heimilisstörf öll en ekki aðeins hluta þeirra í tillgr. Þessi till. er til komin vegna þess að merkingarmunur milli hennar og upphaflegu till. er ekki mikill, eins og ég hef hér sagt, og vegna þess að þar sem ekki reyndist unnt að ná samstöðu um eina sameiginlega till. með þeim sem brtt. höfðu flutt var ekki um annað að ræða málefnisins vegna en að reyna að laga þá till., sem vitað var að ætti möguleika á að verða samþykkt, þannig að hún væri brúkhæf. Þess vegna er till. á þskj. 657 fram komin.

Nú hefur hins vegar 4. brtt. bæst í tillöguhópinn, till. allshn. Þótt hv. allshn. hafi farið mikið fram frá því síðast að hún ályktaði í málinu gengur þessi till. hennar því miður allt of skammt. Till. felur í sér að starfsreynsla við heimilisstörf skuli aðeins metin til starfsaldurs þegar um hliðstæð störf er að ræða, ekki í öll störf eins og till. okkar Kvennalistakvenna kveður á um. Þetta tel ég ákaflega ósanngjarnt mat þar sem ljóst má vera, a.m.k. öllum þeim sem heimilisstörf hafa stundað, að þau fela miklu meira í sér en leikni í uppvaski eða ryksugun. Heimilisstörf fela í sér margvíslega reynslu sem nýtist í hvaða starfi sem er og engu síður en almenn reynsla fengin á vinnumarkaðnum. Af fjölbreyttum þáttum heimilisstarfa get ég nefnt frumkvæði, sjálfstæði, ábyrgð og meðferð fjármuna, en þetta eru jafnframt þeir þættir sem hæst eru metnir til launa í launuðum störfum.

Það má halda hér langar ræður um fjölbreytileika og mikilvægi heimilisstarfa. Ég ætla að spara hv. þm. það nú þar sem komið er fram á matartíma og vitna til þess að það hefur reyndar þegar verið gert við 2. umr. málsins og minnist ég þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. hélt ræðu um þetta atriði.

Það er í raun og veru út í hött að meta heimilisstörf til starfsreynslu eingöngu þegar um er að ræða störf sem eru á yfirborðinu svipuð, t.d. diskaþvott eða ryksugun, eins og gert er ráð fyrir í till. allshn. Þeir sem heimilisstörf hafa stundað hafa miklu víðtækari og margvíslegri reynslu en svo að þetta sé réttlátt starfsmat. Á það vil ég líka benda að hjá ríkinu er starfsreynsla í hvaða starfi sem er metin gild í hvaða öðru starfi sem er hjá ríkinu. T.d. er starfsreynsla við póstburð metin til starfsreynslu til kennslu, svo dæmi sé tekið. Hvað hið opinbera varðar er þetta mat á heimilisstörfum til hliðstæðra starfa því einfaldlega fáránlegt enda lagt til í upphaflegu till. að sama skuli gilda um heimilisstörf að þessu leyti og önnur störf sem unnin eru hjá hinu opinbera. Ég fæ a.m.k. ekki séð hvers vegna póstur er endilega betri kennari en húsmóðir, en má vera að allshn. hafi séð það, enda má til sanns vegar færa að hv. allshn. hafi ýmislegt furðulegt og sumt markvert séð í þessu máli.

Þarna er ég sem sagt búin að nefna tvær ástæður fyrir því að ósanngjarnt er að meta heimilisstörf aðeins til starfsreynslu þegar um hliðstæð störf er að ræða, þ.e. hliðstæð á yfirborðinu eins og hv. allshn. vill. Sem sagt, ég tel að það sé annars vegar um vanmat á heimilisstörfum að ræða og hins vegar að það sé ekki nema sanngjarnt að sama gildi um heimilisstörf og önnur störf, a.m.k. hjá hinu opinbera, sem sagt að starfsaldur sé metinn að fullu án tillits til eðlis starfsins.

En ástæður þess að ávallt skuli meta heimilisstörf að fullu eru fleiri en þessar tvær. Þriðja ástæðan er sú að þar með væri verið að viðurkenna að þessi störf, sem löggjafinn hefur lítið viljað kannast við fram að þessu, eru viðurkennd sem hver önnur vinna og metin fullgild á við hvaða störf sem er önnur. Slík viðurkenning skiptir máli þar sem í hlut eiga konur sem í flestum tilfellum eru meðal þeirra réttindaminnstu í þjóðfélaginu, t.d. hvað varðar lífeyrissjóðsréttindi, veikindaréttindi, fæðingarorlofsréttindi og þar fram eftir götum. Slíkt mat væri því viðurkenning sem skiptir máli.

Í fjórða lagi er hér um það að ræða að konum sé ekki refsað fyrir að sinna börnum og búi einhvern hluta ævinnar eins og nú er þar sem slíkur tími reiknast ekki að fullu til starfsævi þeirra sem í hlut eiga. M.ö.o., starfsævi kvenna úti á vinnumarkaðnum er venjulega styttri en karla vegna þess að þær eru oft einhvern tíma heima við og sinna þá heimilisstörfum. Þetta er ein af mörgum ástæðunum fyrir lágum launum kvenna.

Með till., eins og við Kvennalistakonur fluttum hana, er verið að leggja til að konur fái notið starfsævi sinnar að fullu í launum, sama hvort hluti hennar hefur verið innan veggja heimilisins eða ekki og sama hvaða störfum þær snúa sér að úti á vinnumarkaðnum.

Í þessu ljósi verður röksemdafærsla allshn. í framhaldsnefndarálitinu, um konurnar á tölvunni, fráleit þar sem í okkar till., till. Kvennalistans, er eingöngu um það að ræða að báðar fái notið óskertrar starfsævi, þar sé jafnað þeirra á milli, og væntanlega er hvorug þeirra ráðin til starfans á tölvunni nema þær kunni á hana fyrir fram.

Þetta er fjórða ástæðan fyrir því að till. allshn. um tilhögun starfsmatsins er að okkar viti ófullnægjandi og þessi síðasta ástæða afsannar, vona ég, endanlega þá staðhæfingu sem fram kemur í lok nál. allshn. og hljómar svo, með leyfi forseta:

„Af framansögðu má ljóst vera að það mál, sem hér um ræðir, er ekki einfalt og að till. er að óbreyttu ekki til þess fallin að leysa vanda húsmæðra sem vilja fara til starfa úti á vinnumarkaðinum.“

Till., sem þarna er vísað til, er till. okkar Kvennalistakvenna. Þessu er einmitt öfugt farið. Till. í sínu upphaflega formi var einmitt til þess fallin að leysa vanda þeirra húsmæðra sem vilja taka til starfa á vinnumarkaðnum eftir að hafa starfað eitthvert árabil heima fyrir. Till. allshn. gerir það hins vegar ekki. Hún er að sönnu stórt framfaraskref fyrir allshn. sjálfa en fyrir húsmæður gerir hún lítið annað en að staðfesta óbreytt ástand á vinnumarkaðnum.

Ég vona að hv. þm. sé þetta ljóst þegar kemur að atkvæðagreiðslu um till. Ég endurtek, till. allshn. staðfestir einungis „status quo“, ef svo má segja, í framkvæmd. Það eina, sem telja má til nýmæla í till. allshn., er að þar er léð máls á því að láta athuga með hvaða hætti megi meta starfsreynslu við heimilisstörf þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að ræða, eins og þar segir. Þetta er það sem til framfara horfir í tillgr. allshn. og það er vægast sagt þunnur þrettándi að það eina, sem þar er bitastætt, er athugunaratriði, að láta athuga.

Að öllu samanlögðu teljum við Kvennalistakonur lokaniðurstöðu allshn. ófullnægjandi og fyrir okkur er ekki um neitt annað að ræða en að sitja hjá við afgreiðslu hennar.

Ég vil, herra forseti, rétt í lokin minnast á tvö atriði sem hv. frsm. allshn., hv. 7. þm. Reykv., kom inn á í þessari 3. eða 4. umræðulotu. Það er villa í grg. með till., það er rétt. Það stafar af því að þessi till. var flutt á síðasta þingi einnig og þessi setning, sem þarna um ræðir, er eftirlegukind frá þeim tíma.

Hv. þm. kom einnig inn á það að ringulreiðin, sem nú ríkir í þessum málum, sé hrikaleg. Það má til sanns vegar færa, hún er það. Það er allur háttur hafður á með mat að þessu leyti, að svo miklu leyti sem það er yfirleitt fyrir hendi, það er líka mjög misjafnt.

Ég vil láta það verða mín lokaorð hér að till. okkar Kvennalistakvenna er einmitt tilkomin m.a. til að vinna i bug á þessari ringulreið og ákveða í eitt skipti fyrir öll ; hvernig þessu mati skuli vera háttað þannig að sem flestir landsins þegnar sitji við sama borð að þessu efni til.

Umr. (atkvgr.) frestað.