22.04.1986
Sameinað þing: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (4150)

439. mál, úrbætur í málefnum ullariðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Vissulega er rétt að erfiðleikarnir í ullariðnaði eru að miklu leyti utanaðkomandi og dreg ég ekkert úr því. Ég heyri líka að það hefur ekki verið björt spá sem lögð hefur verið fyrir hæstv. ráðh. um hag þessa iðnaðar á þessu ári. Ég fagna því hins vegar að hæstv. ráðh. hefur gert ákveðnar tillögur til úrbóta í þessu máli og taldi fram koma í svari hans mjög ótvíræðan skilning á því að efla þessa atvinnugrein og gera henni á ný kleift að sinna sínum mikilvægu verkefnum og veita svo mörgum atvinnu sem raun ber vitni. Ég vænti þess því að samræmt skipulagt átak komi hér til í framhaldi af þessum tillögum ráðherrans því að hér er mikið í húfi fyrir marga og sannarlega víða eftir því beðið að úr muni rætast og ullariðnaður okkar á ný blómstra til hagsbóta fyrir vinnandi fólk fyrst og síðast í bæ og byggð því hér fara hagsmunir bænda og verkafólks saman eins og svo víða, en ekki síður almennt fyrir okkar þjóðarbúskap. Það er ljóst að hér er mikið verk óunnið, hér þarf mikið átak til að koma. Ég treysti hæstv. ráðh., í ljósi þeirra svara sem hann gaf áðan, til að hann leggi þar allt það lið sem hann getur svo sem hann virðist greinilega vera að vinna að.