22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

247. mál, sölu- og markaðsmál

Frsm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um þáltill. varðandi skipulagningu náms og vinnu í sölu- og markaðsmálum.

Nefndin hefur fjallað um till. og leitað álits manna um efni hennar. Í þeim umsögnum sem hafa borist er mælt með samþykkt till. Nefndarmenn hafa orðið sammála um að leggja til að till. verði samþykkt með svofelldri breytingu, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því með samstarfi menntmrn., viðskrn., utanrrn. og aðila vinnumarkaðarins að samræma og skipuleggja nám og starfsþjálfun á sviði sölu- og markaðsmála innanlands og utan, jafnhliða sérstökum aðgerðum til að afla þekkingar á mörkuðum. Markmiðið verði að koma á fót í skólakerfinu og viðskiptalífinu víðtæku námi í sölumennsku, markaðsöflun, kynningu, auglýsingatækni og samningagerð.

Niðurstöður þessa starfs skulu lagðar fyrir Alþingi á næsta reglulegu þingi.“