22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (4157)

25. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem flutt er af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Pétri Sigurðssyni, Guðrúnu Helgadóttur og Kjartani Jóhannssyni, gerir ráð fyrir að ríkisstj. hlutist til um áætlunargerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild skv. ákvæðum 4. gr. laga um málefni aldraðra og verði lögð til grundvallar úttekt á fjárhagslegri og félagslegri stöðu aldraðra sem nái til eftirtalinna þátta: Er sá fyrsti húsnæðis- og vistunarmál, annar félagsleg staða, þriðji framfærslukostnaður og fjárhagsleg afkoma og fjórði atvinna með tilliti til hlutastarfa. Sú samstarfsefnd sem hæstv. ráðh. talaði um áðan kom á fund nefndarinnar. Það skal reyndar tekið fram að fulltrúar hennar komu á fund þegar málið lá fyrir á síðasta þingi. Nefndin upplýsti að einungis væri verið að vinna að einum þætti málsins, könnun á húsnæðis- og vistunaraðstöðu aldraðra. Ég lít því svo á, og það gerði nefndin í heild, að full ástæða sé til að hvetja til að slík áætlunargerð fari fram og þá á víðari grundvelli en nú er verið að gera. Ég styð því þessa till. eindregið og segi já.