11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að allir þm. vissu að þegar lagt er fram þingmál, hvort sem það er frv. eða þáltill., eru það efnisatriðin sem koma til atkvæðagreiðslu en ekki grg. Með því að greiða atkvæði með tilteknu þingmáli eru menn að samþykkja efnisatriði málsins en ekki grg. sem málinu fylgir. Það er m.a.s. mjög alvanalegt að flm. taki það fram að þó að þeir séu sammála tillgr. skrifi þeir endilega ekki undir allt sem í grg. standi.

Auðvitað er það heimskuleg afsökun að vera að nota einhvern útúrsnúning á grg. sem ástæðu fyrir því að vilja ekki samþykkja tiltekna efnislega tillögu. Það er slíkt rugl að það tekur því varla að fara að svara því að hengja hatt sinn á það að neita eða vilja ekki standa að afgreiðslu skattfrádráttar fyrir fiskverkafólk á þeim grundvelli að í grg. standi einhverjar setningar sem viðkomandi hv. þm. sé ekki sammála. Ég hef aldrei heyrt svona röksemdafærslur fyrr. Ég vildi gjarnan að hv. þm. reyndi að afla sér einhverra frekari upplýsinga um hvernig menn greiða atkvæði í þinginu áður en hún ber svona lagað á borð. Auðvitað fer atkvæðagreiðsla í þinginu og afstaða manna til mála eftir efnisatriðum málsins, eftir þeim tillögugreinum sem fram eru lagðar, annaðhvort í frumvarpsformi eða í þingsályktunartillögu, en það er ekki verið að leggja hér til samþykktar eða synjunar einhverjar greinargerðir. Þó að hv. þm. sé allsendis ósammála þeim rökstuðningi sem hafður er í grg. fyrir þessu frv. er það engin átylla til að vera andvígur efnisatriði málsins.

Ég hef satt að segja aldrei heyrt annað eins rugl og hér var farið með áðan. Hér er búið að ræða þetta mál í tvo daga. Hvar í ósköpunum hefur það komið fram, það er ekki einu sinni hægt að lesa það út úr grg. með góðum vilja, að rökstuðningurinn fyrir þessu máli sé sá að aðrar stéttir í þjóðfélaginu svíki undan skatti og þess vegna eigi að heimila fiskverkafólki skattafrádrátt? Þetta er hreint rugl. Í grg. með frv. er bent á það sem staðreynd, ekki sem rökstuðning með þessu máli, heldur bara bent á það sem staðreynd, sem allir vita, að tekjuskattakerfið er orðið þannig að skatturinn er ekki lengur tæki til tekjujöfnunar, heldur tæki til mismununar. Það mismunar fólki. Það er bent á þetta sem staðreynd í grg. Hv. þm. sagði hér áðan sjálfur að það megi ekki taka einstakar setningar upp og slíta þær úr samhengi við allt annað en það er einmitt það sem hún hefur gert. Hún tekur þarna eina setningu út úr. Hún hefur sennilega ekki lesið lengra því að þrátt fyrir tveggja daga umræður eða meiri um þetta mál er hv. þm. ekki enn þá búinn að átta sig á því hver er forsendan fyrir því að málið er flutt. Það er alveg sjálfsagt að reyna að gera henni grein fyrir því í mjög stuttu máli. Hún á kannske auðveldara með að skilja það þannig fram sett.

Í fyrsta lagi er það alveg ljóst að launabilið í þjóðfélaginu hefur stöðugt verið að vaxa og með ýmsum aðgerðum og aðgerðaleysi hefur skapast hér þjóðfélag tveggja þjóða sem eiga næstum því ekkert sameiginlegt nema tungumálið.

Í öðru lagi hafa þeir sem sjóinn stunda orðið fyrir sérstökum viðbótarkjaraskerðingum umfram aðra, m.a. vegna kvótakerfis og annarrar stjórnunar í sjávarútvegi. Þetta hefur komið niður á fiskimönnum og af þeirri ástæðu var m.a. samþykkt í fyrra á Alþingi að hækka fiskimannafrádráttinn úr 10% í 12,5%. Ég varð ekki var við það í svarræðu hv. þm. hér áðan að hún hefði nokkuð við þann málflutning minn að athuga, að ekki hefði hún þá komið auga á þá röksemd gegn slíkri afgreiðslu fyrir sjómennina að þar væri verið að kenna fólki að svíkja undan skatti. Þetta er bara rugl.

Í þriðja lagi er vandinn orðinn sá hjá fiskvinnslustöðvunum að þar skortir fólk. Þar er ekki fólk til starfa. Alþingi verður auðvitað að horfast í augu við það vandamál, ekki vegna þess að þetta sé eitthvert sérstakt vandamál fyrirtækjanna sem þarna eiga hlut að máli eða fiskverkafólksins, heldur vegna þess að þetta er vandamál þjóðfélagsheildarinnar. Þegar fólk fæst ekki til þess að vinna í undirstöðuatvinnugreinunum, sem öll önnur atvinnustarfsemi byggist á, þá er það vandamál Alþingis en ekkert prívatmál þessara aðila. Það hefur þótt vandamál á Alþingi þegar t.d. fóstrur hafa farið í verkfall eða þegar kjör fóstra hafa ekki þótt nægilega góð. Vissulega skal ég ekki gera lítið úr því. Það er ástæða til að ræða það líka og að Alþingi hafi einhverja skoðun á því. En hér ætlar allt af göflunum að ganga þegar á að fara að reyna að leiðrétta kjör þess fólks sem vinnur við fisk. Hér eiga sér stað umræður dag eftir dag eins og þetta væri meiri háttar pólitísk ákvörðun sem væri verið að taka. Og umræðan gengur út á það að reyna með einhverjum hætti að tefja framgang þessa máls, með alls konar útúrsnúningum og rugli.

Niðurstaðan er svo sú af þessum röksemdum að það er ósköp eðlilegt að Alþingi íhugi hvort það eigi ekki að leysa málið eða hvort það vilji ekki eiga þátt í lausn málsins á sama grundvelli og gert var á sjötta áratugnum þegar upp var tekin su regla í skattalög að heimila sjómönnum 8% skattafrádrátt við nákvæmlega sömu aðstæður og hér eru, þær aðstæður að vegna kjaralegs áfalls var ekki lengur hægt að fá menn á fiskiskipin heldur varð að treysta á útlendinga eða láta skipin liggja í landi vegna mannaskorts. Þetta er ákaflega einföld röksemd og ákaflega einföld röksemdafærsla sem ég held að hver einasti maður geti skilið sem er læs. En þeir sem eru á móti því að svona afgreiðsla sé gerð geta auðvitað haft uppi alls konar forheimskandi upphrópanir eins og þær að það sé verið að færa rök að því í þessu máli að veita fiskimönnum og fiskverkunarfólki svona frádrátt til þess að kenna þeim að stela undan skatti. Auðvitað er þetta hreint rugl. Að nota svona lagað sem afsökun fyrir því að mæla gegn frv. af þessu tagi er alveg út í hött og raunverulega, herra forseti, til skammar þeim sem grípa til slíks málflutnings.

Ég skal hins vegar fúslega taka það á mig og biðjast afsökunar á því að hafa orðað þær ágætu konur, sem hafa tekið til máls um þetta mál, við háskólaborgara. Þær eru það ekki allar. Ég skal fúslega biðjast afsökunar á því. En hinu, herra forseti, gerði ég alveg fastlega ráð fyrir, þangað til núna rétt áðan, að þær hefðu allar skilið þær röksemdir sem fyrir frv. liggja og það er ég sannfærður um að þær hafa allar gert nema e.t.v. sá hv. þm. sem lauk máli sínu hér áðan.

Ég vil líka biðjast afsökunar á því að þegar ég hlustaði fyrst á ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, þar sem hún lýsti því yfir að Kvennalistakonur væru andvígar þessari leið, þá gerði ég ráð fyrir því að hún ætti við það að þær mundu greiða atkvæði gegn frv., þær væru andvígar málinu og mundu greiða atkvæði gegn því. Í seinni ræðu hv. þm. kom hins vegar fram að þær eru andvígar málinu en munu ekki greiða atkvæði gegn því. Ég mundi nú helst vilja óska eftir því að þær endurskoðuðu afstöðu sína og gerðust andvígar málinu en greiddu atkvæði með því. Það væri svona öllu mýkri afstaða og skynsamlegri eins og að málum er staðið.

Að lokum þetta, herra forseti. Þegar sambærilegt mál var afgreitt fyrst á Alþingi á sínum tíma þá mælti fyrir nál. í Ed. Eggert G. Þorsteinsson sem þá sat á Alþingi sem fulltrúi Alþfl. Um þá afgreiðslu sem þar fór fram og laut að því að veita sjómönnum nokkurn skattafslátt sem lið í lausn á þeim kjaravanda og atvinnuvanda sem við þeim blasti sagði hann svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vil engu um það spá hvort hér er nægjanlega langt gengið um þessi sjálfsögðu hlunnindi nú til lausnar þessum vanda, en fagnaðarefni ætti það að vera öllum réttsýnum mönnum að með samþykkt þessa frv. hefur Alþingi viðurkennt þessi nauðsynlegu framleiðslustörf og stigið enn eitt spor í þá átt að viðurkenna fólkið sem þessi störf leysir af hendi.“

Þessi lokaorð hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar eiga við í dag um þetta mál eins og þau áttu við fyrir rúmum 20 árum um það mál sem þá var til umræðu.