22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (4171)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun leitast við að halda mig innan tímamarka eins og forseti skýrði þau með tilliti til aðstæðna hér og þó að hæstv. forseti vilji ekki berja í bjölluna, ef mér skyldi verða það á að fara einhverjar mínútur fram yfir, sting ég upp á því að hann hummi eða ræski sig á bak við mig og þá mun ég taka það til greina.

Herra forseti. Ég er alveg sannfærður um það, m.a. eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. menntmrh. áðan og lesið í fljótheitum skýrslu hans, að það er bókstaflega engu upp á hæstv. menntmrh. logið, eða hallað til um afstöðu hans í málinu, eins og hann kýs að orða það sjálfur. Ég sé ekki betur en hér gangi aftur í þessari skýrslu allar þær hugmyndir verstar sem maður hefur haft ávæning af að væru á döfinni í endurskoðunarstarfi hæstv. menntmrh.

Hann gat auðvitað ekki setið á sér að koma með sínar hefðbundnu lummur, hæstv. menntmrh., um það hversu námsmenn væru í raun og veru miklir letihaugar og útsmognir í því að draga sér lán á vildarkjörum alls staðar þar sem þeir fengju þess kost. A.m.k. gat ég ekki skilið orð hans öðruvísi en það væri eitt meiri háttar vandamál að glíma við hvað þetta lið sækti í þetta og hvað þetta væri nú óskaplegt. Svo væru þeir hættir að nenna að vinna og væru að afsiðast smátt og smátt vegna þess hve lánasjóðurinn væri voðaleg stofnun. Hann ætlar sem sagt að breyta þessu og taka að sér uppeldið, hæstv. menntmrh.

Það kemur kannske ekki að sök þó að við höfum ekki haft þessa skýrslu hans mjög lengi undir höndum því að við könnumst dálítið við krógann. Það er til hægðarauka, herra forseti, að skipta umfjölluninni hér í tvennt, þ.e. annars vegar staða lánasjóðsins og skerðingarákvæði reglugerðanna og fjármögnun sjóðsins á yfirstandandi ári og hins vegar frumvarpshugmyndir hæstv. ráðh. Ég mun snúa mér að því að ræða þetta hvort í framhaldi af öðru, en fyrst vil ég þó segja að ég mótmæli síendurteknum fullyrðingum hæstv. menntmrh. um að þessi lánasjóður hafi eitthvað skorið sig úr öðrum stofnunum í landinu með það hvað þar hafi verið hábölvað að eiga viðskipti.

Ég hef haldið því fram, og ég bið menn að sýna mér fram á annað, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirrar gagnrýni sem frá námsmönnum hefur komið á lánasjóðinn á undanförnum árum hafi verið af einni ástæðu og einni ástæðu aðeins, sem sagt þeirri að þeir telja sig ekki hafa fengið þá fyrirgreiðslu í sjóðnum í formi aðstoðar sem þeir töldu sig eiga rétt á. Og hvað segir það okkur, hæstv. menntmrh., annað en að stofnunin sem slík hefur haldið svo vel í féð sem þú hefur haft áhyggjur af að væri verið að sólunda út úr sjóðnum. Það kemur því úr hörðustu átt ef hæstv. menntmrh. ræðst sérstaklega á stofnunina af þessum sökum. Auðvitað er það til viðbótar að lánasjóðurinn hefur undirmannaður um árabil verið að glíma við sívaxandi starfsemi og breytingar og þverskallast hefur verið við öllum óskum hans um að fá að ráða sér starfsfólk til að sinna starfseminni á eðlilegan hátt. En þar er ekki við lánasjóðinn að sakast, herra forseti. Mér finnst þess vegna gagnrýni hæstv. menntmrh., a.m.k. hvað þetta varðar, harla ómakleg.

Ég hef, herra forseti, verið bæði viðskiptavinur sjóðsins sem lántakandi og síðan umboðsmaður fyrir fjölmarga skólabræður mína og skólasystkini, sem verið hafa í námi bæði erlendis og innanlands, og ég þykist því þekkja það sæmilega af hvaða toga eru spunnin þau umkvörtunarefni sem algengust eru þegar Lánasjóð ísl. námsmanna ber á góma. Það er yfirleitt, svo að ég taki bara eitt dæmi ef það mætti verða til þess að hæstv. menntmrh. skildi nú einu sinni hvað ég er að fara, t.d. í þeim tilfellum að lánasjóðurinn haldi inni láni og afgreiði það ekki vegna þess að einhver fskj. kann að vanta frá námsmanninum varðandi tekjur eða varðandi aðrar aðstæður. Þá er stofnunin og hefur verið tiltölulega fastheldin á lánin og reiðir þau ekki fram fyrr en allar upplýsingar, sem hún setur til skilyrðis fyrir láninu, liggja fyrir. Er það þetta sem hæstv. menntmrh. er að gagnrýna? Er það óánægja með þessi vinnubrögð sem er honum efst í huga, hæstv. ráðherranum, sem talar síðan í hinni setningunni um óráðsíu og sukk og hvað þessi stofnun hafi verið laus á fé? Svona málflutningur gengur auðvitað ekki upp, herra forseti, og það er með endemum að hæstv. menntmrh. skuli aftur og aftur gera sig beran að slíku hér.

Ég vil þá snúa mér að skýrslunni sem hér hefur litið dagsins ljós, dags. 22. apríl, og fletta henni, enda naumast tími til að vinna öðruvísi upp úr henni. Þá vil ég fyrst segja að á forsíðunni er mjög skemmtilega fjallað um kærleiksheimilið, stjórnina, og samskipti við „samstarfsflokkinn“. Það er getið um að af því hafi stafað nokkurt óhagræði „að svo vildi til að samstarfsflokkur okkar í ríkisstj., Framsfl.," með leyfi þínu forseti, „átti ekki fulltrúa í þeirri nefnd“, þ.e. þeirri nefnd sem fyrrv. hæstv. menntmrh. skipaði einmitt til að endurskoða lög um námslán og námsstyrki, og af þessu varð nokkur bagi, telur hæstv. núv. menntmrh. En nú hefur verið bætt úr þessu og „stjórnarflokkarnir hafa“, segir hæstv. menntmrh., „gert með sér samkomulag um að nefna tvo menn hvor í samstarfsnefnd um málið sem samræmi sjónarmiðin fyrir þing á hausti komanda“.

Ég vil gera, herra forseti, þessa samstarfsnefnd aðeins að umtalsefni og spyrja hæstv. forsrh., ef hann væri nú einhvers staðar nálægur, eða þá einhvern annan mann úr Framsfl. sem þyrði upp í ræðustólinn í umræðunum á eftir: Ætlar Framsfl. að tilnefna fulltrúa í þessa nefnd hæstv. menntmrh.? Og ég spyr af því tilefni að ég hef stundum heyrt raddir úr þeim röðum um að æskilegt væri að standa að þessu máli með öðrum hætti en þeim að loka það inni í einhverri undirnefnd stjórnarflokkanna eða jafnvel bara annars stjórnarflokksins. Er Framsfl. tilbúinn að beita sér fyrir því að stjórnarandstaðan, að námsmannahreyfingarnar og aðrir aðilar sem þarna eiga fullt erindi fái þarna fulla aðild að og verði í þessari vinnu í sumar til að reyna að standa að þessu einu sinni með skaplegum hætti? Ég minni á þau ummæli sem hæstv. fyrrv. menntmrh. Ingvar Gíslason lét falla í umræðu um lánasjóðinn hér fyrr í vetur þar sem hann lýst þeirri málsmeðferð sem hæstv. núv. menntmrh. hefur haft sem algerlega óeðlilegri í þessu tilfelli og minnti á hvernig staðið var að endurskoðun löggjafarinnar fyrir árið 1982.

Síðan kemur enn neðar á forsíðunni, herra forseti, alveg ágæt setning og hún er svona, með leyfi þínu, og það er hæstv. menntmrh. þjóðarinnar sem talar:

„Ég tek það fram að ég álít að flokkana skilji ekki mjög mikið að um afstöðu í máli þessu, enda hefur hæstv. forsrh. gefið mér heimild til að stjórna breyttum starfsháttum LIN með reglugerðum svo langt sem þær kunna að ná.“

M.ö.o. hefur hæstv. forsrh. gefið hæstv. menntmrh. ótakmarkaða heimild til að stjórna lánasjóðnum eins og fara gerir með reglugerðum svo langt sem þær ná. Ef hæstv. menntmrh. gefur út á morgun reglugerð um að hafa engin námslán og enga námsstyrki, gildir þá þessi heimild hæstv. forsrh. í því tilfelli? Er það þannig að hæstv. forsrh. hafi alveg afsalað málaflokknum úr höndum sínum og Framsfl. í hendur hæstv. menntmrh., og ber enn fremur að skilja þetta sem afdráttarlaust samþykki Framsfl. við útgáfu reglugerðanna 3. jan. og 2. apríl s.l.? Það er óhjákvæmilegt að fá það hér fram. (FrS: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu, segir nú hv. 2. þm. Reykv. og tekur að sér að svara fyrir „samstarfsflokkinn“ eins og þeir gera stundum í Sjálfstfl.

Þá vil ég nefna fullyrðingar á bls. 2 í skýrslunni um endurheimtur námslána. Þar er að mínu viti mjög gróflega einfaldað málið. Þar segir t.d. að talað hafi verið um, þegar lögin voru sett 1982, að námslánin ættu að skila sér til baka í endurgreiðslum, allt að 95%. Þessa tölu hef ég ekki séð fyrr sem viðurkennda tölu í þeim efnum. Ég held að menn hafi þvert á móti verið mjög nálægt hinu rétta, þ.e. talað um 87-88% endurgreiðslur og nýjustu athuganir sýna að þetta hlutfall sé vel yfir 85%. Ég mótmæli tölum hæstv. menntmrh. og tel að þær séu rangar.

Ég mótmæli einnig því sem segir síðar í 1. mgr. á bls. 2, með leyfi þínu, forseti:

„Í stuttu máli má segja að einstæð kjör námslána," takið eftir, „einstæð kjör námslána, léleg endurheimta þeirra og ófyrirséð fjölgun námsmanna“ - menn höfðu sem sagt ekki hugmynd um að námsmönnum væri að fjölga - „hafi valdið því að málefni lánasjóðsins hafa farið úr böndum. Mjög mikil ásókn er í rífleg lán sem enga vexti bera og lánþegar vita að verulegur hluti lánanna verður auk þess afskrifaður vegna endurgreiðslureglna.“ Verulegur hluti lánanna! Hér er aldeilis ósæmilega að orði komist. Þetta stenst ekki, herra forseti. Það liggja fyrir alveg nýir útreikningar á því hverju endurgreiðslureglurnar frá 1982 skila og þetta stenst ekki. Þetta er röng fullyrðing, sem hér er sett fram, og málin gróflega einfölduð. Þvert á móti liggur fyrir að þetta endurgreiðslukerfi skilar u.þ.b. því sem því var ætlað í upphafi.

Til að taka nú undir eitt atriði vil ég nefna að ég tel það í sjálfu sér alveg eðlilegt, eins og fjallað er um á bls. 2, að setja skýrari mörk laga og reglugerða hvað þetta varðar.

Síðan kemur ákvörðun um tillit til tekna. Þar gengur enn aftur gamall draugur úr herbúðum sjálfstæðismanna, að fella með öllu niður tekjutillitið við úthlutun námslána og væntanlega einnig við endurgreiðslur, við komum að því síðar, og þetta hefðbundna að það sé svo kostnaðarsamt og svo erfitt o.s.frv. og óréttlátt og guð má vita hvað, þrátt fyrir að það liggi fyrir að tekjutillitið sparar um 150 millj. kr. miðað við núgildandi veltu sjóðsins bara vegna þeirra námsmanna sem eru í viðskiptum við sjóðinn. Hæstv. menntmrh. ætti að hugsa sig um og minnast þess að mjög líklega sækir fjöldi námsmanna ekki um vegna tekjutillitsins eins og það er í dag, vitandi að tekjutillitið útilokar þá frá námslánum. Verði þessi breyting viðhöfð getur hver einasti námsmaður sótt um án tillits til þess hvaða tekjur hann hefur. Þó arabískur olíufursti kæmi hingað upp gæti hann sjálfsagt sótt um námslán ef hann hefði að öðru leyti tilskilin réttindi. Þetta gengur algerlega í berhögg við alla hugsun og allan anda laganna um að jafna aðstöðu manna til náms. Þetta er auk þess ákaflega heimskulegt með tilliti til fjárhagsstöðu lánasjóðsins.

Fullyrðingar ráðherrans um að tekjutillitið sé svo erfitt og flókið í framkvæmd og kosti svo mikið starfslið eru úreltar vegna þess að tölvuvæðing lánasjóðsins og sú hagræðing sem þar er að skila sér betur og betur gerir þessa fullyrðingu að verulegu leyti úrelta. Hæstv. menntmrh. ætti að átta sig á því sem ráðherra þeirra mála að til er nokkuð sem heita tölvur og þær eru að gerbreyta ýmsu í slíkum efnum.

Svo komum við aðeins að vöxtunum og fjárhæðum einstakra námslána. Þar er kannske sá hlutur á ferðinni, herra forseti, sem allra alvarlegastur er og felst í því að réttur námsmanna í lögunum, ef af þessu yrði, yrði tekinn út úr málinu eins og hann leggur sig og ákvæði til að mynda 3. og 7. gr. laganna eins og þau eru í dag, um rétt námsmanna til eðlilegrar framfærslu, hyrfu með öllu út úr þessu kerfi. Í staðinn kæmi það að eingöngu því yrði úthlutað og á þann hátt sem framlög leyfðu hverju sinni. M.ö.o., því fé sem skammtað yrði ár frá ári yrði bara svona dreift yfir liðið, bara jafnað út. Sú grundvallarhugsun sem liggur að baki lögunum eins og þau eru núna, um að mönnum beri réttur á eðlilegri framfærslu fyrir sjálfa sig og fjölskyldu sína, yrði þurrkuð út, strikuð út með einu pennastriki. Þetta er auðvitað gífurleg breyting ef af þessu yrði. Og það er alveg nauðsynlegt að mönnum verði vel ljóst að þessi er hugsun hæstv. menntmrh.

Ég vil nefna til samanburðar húsnæðiskerfið og það samkomulag sem hefur nýlega tekist þar og hið gagnstæða er lögleitt, þ.e. að menn eigi rétt á tiltekinni lánsupphæð til að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta eru tiltölulega hliðstæðir hlutir, herra forseti, og tengjast hvorir tveggja daglegum þörfum manna, þ.e. húsnæði og svo annað hitt sem þeir þurfa sér til framfærslu. En það er ekki mikið samræmið í þessum hugmyndum sem hér eru á ferðinni og þeim lögum sem við höfum nýlega samþykkt um húsnæðismál.

Um stjórn lánasjóðsins vil ég spyrja hæstv. menntmrh. - það er á bls. 4 - hvort aðild fulltrúa námsmannahreyfinganna yrði skv. hugmyndum hans óbreytt frá því sem nú er. Það er ekki hægt að lesa það út úr 4. gr. eins og hún er sett upp. Það er eingöngu fjallað um aðild Alþýðusambands og Vinnuveitendasambands og fleiri aðila en ekki minnst á fulltrúa námsmanna. Ég vona sannarlega að það þýði ekki að þeir eigi að falla með öllu út úr stjórn lánasjóðsins en spyr að gefnu tilefni til að mynda hvort Bandalag ísl. sérskólanema til viðbótar við stúdentaráð og SÍNE eigi áfram að eiga aðild að lánasjóðnum.

Síðan kemur 1% lántökugjald sem hæstv. menntmrh. telur eðlilegt að bæta ofan á vextina og allt það og það er hægt að fjalla um það í sömu andrá og vextina.

Um fyrsta árs nema hefur hæstv. menntmrh. haft nokkur orð og lagði það út sem alveg sérstaka beitu að menn ættu nú bara að vera menn til þess að drífa í að samþykkja þetta vegna þess að það væri svo gífurlega þýðingarmikið hagsmunamál fyrir fyrsta árs nema að fá þessi nýju lán sem hann væri með hugmyndir um.

Og hvernig lítur þetta nú út? Jú, í fyrsta lagi auðvitað þannig að það voru ráðherrar Sjálfstfl. sem afnámu það fyrirkomulag í þessu efni sem hafði gefist ágætlega og var vel viðunandi að mínu mati fyrir námsmenn. Og í öðru lagi lítur þetta þannig út að það sem hæstv. menntmrh. er að tala um er, með leyfi þínu, forseti og ég les upp úr skýrslunni - : „Nú er lagt til að þeir sem hefja lánshæft nám eigi rétt á sérstöku skuldabréfaláni, til tveggja ára, sem er bundið lánskjaravísitölu og ber hæstu lögleyfðu vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabankans á hverjum tíma.“ Það eru þessi vildarkjör sjálfsagt á námslánum sem hæstv. menntmrh. er að tala um. Ber hæstu lögleyfðu vexti Seðlabankans á hverjum tíma. Mér finnst alveg óþarfi að vera að binda þetta við það. Á ekki bara að segja sem svo: Ber meðalvexti á okurlánamarkaðinum? Það kemur alveg eins til greina.

Síðan eru reglurnar þær að standist námsmaður ekki kröfur fellur þetta í gjalddaga og ber að endurgreiðast á 12 mánuðum með þessum kjörum sem raun ber vitni. Og hvað þýðir þetta á mæltu máli í reynd? Það þýðir það að námsmaður, sem hefur kannske tekið að láni framfærslu heils námsárs og fellur svo á prófum, þarf að endurgreiða það allt á næsta ári. Og þetta er maður sem hefur verið í skóla og hefur ekki haft tekjur o.s.frv. Hann fer væntanlega út á vinnumarkaðinn til að reyna að ná þessu inn. Hvernig verður aðstaða þessa ágæta manns til að reyna að hefja nám að nýju? Menn ættu að hugleiða það aðeins. Ég held að þetta sé ekkert sérstaklega girnileg beita, hæstv. menntmrh. og ég er ekki viss um að námsmenn flykkist til fylgis við þig út á þessa hugmynd þína. Svo klykkir hann út með því að segja: „Hér er um að tefla mikilvægt réttindamál að mínum dómi og erfitt að sætta sig við að skammsýni ráði að ekki kemst til framkvæmda.“ Ja, heyr og heyr. En framkvæmdin er alla vega í skötulíki hjá hæstv. menntmrh. á þessu mikla hagsmunamáli.

Svo kem ég að 3,5% ársvöxtunum sem hæstv. menntmrh. finnst hóflegt og um það ætla ég eingöngu að hafa þau orð að bera saman töflu sem ég fékk í hendur í vetur um það hvernig svona meðalnámslán upp á 500 þús. kr., skulum við segja, endurgreiðist samkvæmt gildandi kerfi og svo hinu nýja. Og þá er það þannig með gildandi lánakjörum, lánakjörunum frá 1982, að lán, sem námsmaður mundi hefja afborganir af á árinu 1987 og borga þá 22 500 kr. á því ári, greiðist upp að fullu á árinu 2006 og hefur þá námsmaðurinn greitt 500 þús. kr. vegna þess að lánið er vaxtalaust. Ef námsmaður tekur hins vegar lán að þessari upphæð samkvæmt þessum nýju hugmyndum - og þá erum við reyndar að tala um 3% vexti, ekki 3,5%, og hann skuldar 530 þús. kr. - lýkur hann við að greiða lánið árið 2015 og hefur þá greitt 818 þús. kr. og á þessu er ekki lítill munur. Þarna hefur þessi námsmaður greitt á fjórða hundrað þús. kr. á fáeinum árum umfram það sem núgildandi lánskjör gera ráð fyrir. Þetta held ég að dugi til að færa mönnum heim sanninn um það hvað 3%, svo að ekki sé talað um þaðan af hærri vexti, þýða gífurlega breytingu í þessum efnum.

Síðan víkur ráðherrann aðeins að því að vextirnir séu náttúrlega alveg nauðsynlegir vegna þess að lánasjóðnum sé afar nauðsynlegt að verða sem fyrst fjárhagslega sjálfstæður. Lítum aðeins á þetta. Hvaða áhrif hafa þessar breytingar eins og þær eru fyrirhugaðar með því ákvæði að vextirnir færist aftur fyrir höfuðstólinn og borgist á eftir sjálfum höfuðstólnum? Þær hafa þau áhrif að það munar tiltölulega litlu, næstum engu, fyrir fjárhag sjóðsins hvernig lán endurgreiðist frá og með árinu 1987 til ársins 2006. Það er ekki fyrr en að því loknu að það fer að skila lánasjóðnum einhverju sem að marki nemur í auknum eða hærri endurgreiðslum. Menn leysa því ekki fjárhagsvanda lánasjóðsins á morgun og hinn daginn og ekki fyrir næsta áratug, heldur einhvern tíma þegar kemur fram á næstu öld, með því að breyta reglunum með þessum hætti. Þar af leiðandi er núverandi tímabundinn fjárhagsvandi sjóðsins ekki röksemd fyrir því að fara fram með þessum hætti vegna þess að þar er um að ræða aðgerð sem kæmi ekki til með að skila neinu fyrr en miklu, miklu síðar.

Lánskjörin að öðru leyti eru auðvitað þau að það á að stytta afborgunartímann úr 40 árum ofan í 30 ár og það hefur enn áhrif til að þyngja greiðslubyrðina. Það væri fróðlegt, ef hæstv. fjmrh. hefði verið hér, að inna hann eftir því hvernig hann, sem hefur staðið í því að semja, gera kjarasamninga, t.d. við opinbera starfsmenn, líti á það mál, ef svona breytingar ættu sér stað. Myndu menn ekki ætla að þetta hlyti að koma inn í þá kjarabaráttu þeirra stétta sem að verulegu leyti bera slík námslán í framtíðinni eða væri annað hugsanlegt? Auðvitað hlyti þetta að hafa slík afgerandi áhrif á lífsafkomu þessara hópa að óhjákvæmilegt væri að það kæmi fram í þeirra kjarabaráttu.

Síðan sleppi ég því að fjalla um styrkjakerfið. Það geymi ég mér til betri tíma.

Í skýrslunni er einnig birt tafla yfir skerðinguna eins og hún kemur til með að vera nú miðað við grunnframfærslu námsársins í heild. Þar kemur fram að á Íslandi munar á fimmtánda þús. kr. sem getur þýtt það fyrir námsmann, sem hefur átt von á t.d. 25 þús. kr. úthlutun á vormánuðunum, að hann fari niður í 10 þús. kr. Og það getur munað um minna en það, hæstv. menntmrh., fyrir félítið fólk.

Herra forseti. Til að reyna að svíkja ekki allt of gróflega það sem ég sagði um ræðutíma minn ætla ég að fara að stytta mál mitt. Ég ætla aðeins að víkja að hinum kostulegu lokaorðum hæstv. menntmrh. eins og þau birtast á baksíðu skýrslunnar. Þær eru skemmtilegar útsíðurnar hjá hæstv. menntmrh. Hann kann sennilega það fyrir sér í blaðamennsku að það er um að gera að hafa rúsínurnar á útsíðunum. Hann fjallaði ofurlítið um samstarfsflokkinn á forsíðunni. Á baksíðunni segir, með leyfi þínu, forseti:

„Ég vil svo að lokum láta í ljós þá von mína að við hér á hinu háa Alþingi berum gæfu til að finna farsæla lausn á þessu máli og látum þá nauðsyn ganga fyrir pólitískri skákmennsku í atkvæðatafli. Við ætlum að styðja og styrkja íslensk ungmenni til náms af því sem það er áreiðanlega arðgæfasta fjárráðstöfun sem hugsast getur. En það er öllum fyrir bestu að agi og regla sé á öllum fjármálareiðum. Fyrir því mun ég beita mér af fullri hörku og er þess fullviss að við munum ná höndum saman við námsfólk um skipan mála sem öllum verður fyrir bestu.“

Og þá fer maður að leiða hugann að því hvaða aðgerðir hæstv. menntmrh. frá undanförnum dögum og mánuðum það hafi verið sem sérstaklega hafa verið gerðar til að ná höndum saman við námsmenn úr því að það er honum slíkt keppikefli. Er það t.d. afstaða hans að skipa ekki réttkjörinn fulltrúa stúdenta í stjórn lánasjóðsins? Eða er það útgáfa reglugerðarinnar frá 3. jan.? Var það sérstök útrétt sáttahönd til námsmanna í framhaldi af fyrri loforðum um að svíkjast ekki aftan að bakinu á þeim sem var til þess sérstaklega ætluð að ná höndum saman og ná sáttum við námsfólk?

Ég held að hæstv. menntmrh. þurfi ekki fleiri vitna við en þeirra sem ég gat í framsöguræðu fyrir þáltill. minni og fleiri um þau mótmæli námsmannahreyfinganna bæði innanlands og erlendis sem dunið hafa yfir á síðustu dögum og vikum að framganga hæstv. menntmrh. hefur ekki verið námsmönnum þannig að skapi að þeir séu alveg í þann veginn að læsa hann hönd í hönd í einhverju griðabandalagi.

Það sem er alvarlegast í þessum hugmyndum, herra forseti, er auðvitað sú grundvallarbreyting sem lögð er til á, mér liggur við að segja hugsuninni bak við Lánasjóð ísl. námsmanna. Og sennilega er það þannig að hæstv. menntmrh. hefur aldrei skilið, enda lítill jafnaðarmaður og lítill félagshyggjumaður trúlegast, hvaða hugsun liggur að baki því námslánakerfi sem við nú búum við og þá verður bara að búa við það.

Hann leggur sem sagt til að taka með öllu út úr því kerfi allt sem heitið getur réttur námsmannsins og það skal vera fjárveitingavaldið og fjármálavaldið eitt sem ræður því hvort námsmenn svelta eða fitna, hvort þeir fá meiri eða minni eða engin námslán. M.ö.o., sú staðreynd að námsmenn eru lifandi manneskjur rétt eins og annað fólk og þurfa að borða og kaupa föt á börnin sín og helst að reka bíldruslu og jafnvel að geta farið einstökum sinnum í bíó kemur hæstv. menntmrh. ekki við. Það er greinilega ekki hans mál hvort námsmenn geta lifað eins og eðlilegir þegnar í þjóðfélaginu. Það á ekki að ganga út frá því þegar þessar breytingar hæstv. menntmrh. ná fram að ganga eða ef þær gerðu það og allt sem heitið gæti félagsleg hugsun yrði rústað út úr þessu kerfi.

Ég hef stundum verið að leita að orðum og kannske lokaorðum, herra forseti, eins og hæstv. menntmrh. valdi á bakhlið skýrslu sinnar, um þessa framgöngu og málafylgju hæstv. menntmrh. Mér dettur í hug orð sem er kannske ekki mjög fallegt á íslensku, orðið „frjálshyggjubarbarismi“ til að reyna að hnoða því saman í eitt samfellt orð sem mér finnst helst felast í þessum hugmyndum. Einhvers konar hnefaréttarfrjálshyggjubarbarismi. Og svo er auðvitað ákveðin forréttindahyggja í þessari skýrslu. Það er svo langt frá öllu sem getur heitið jafnaðarmennska að í því felst beinlínis forréttindahyggja. Sú hugsun að það sé bara ágætt og gott og eðlilegt að ákveðnar fámennar stéttir í landinu hafi mikil forréttindi umfram annan almenning. Auðvitað mundi það leiða af svona breytingum, hæstv. menntmrh., það er óhjákvæmilegt. Með þessum orðum, auk þess sem ég mótmæli enn og einu sinni angurgapahætti hæstv. menntmrh. í sambandi við öll vinnubrögð, læt ég máli mínu lokið, herra forseti.