22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4423 í B-deild Alþingistíðinda. (4172)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í bréfhólfinu mínu fann ég áðan bréf til alþm. frá einum fulltrúa hinnar hrjáðu húsbyggjendakynslóðar áranna 1980-1985. Maðurinn er að ávarpa alþm. í tilefni af því að harmkvælasögu hans er lokið með því að hann missti þakið ofan af höfðinu á fjölskyldunni fyrir nokkrum dögum og hann á fáein orð ósögð við alþm. En í tilefni af þeirri umræðu sem farið hefur fram um vanda húsbyggjenda þykir honum við hæfi að vitna í hin fleygu orð úr Innansveitarkroniku Laxness þar sem hann segir:

„Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlingaskít sem kemur ekki málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Umræðan um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur einkennst af þessari áráttu að beygja sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, varla fjármunarökum, síst af öllu rökum trúarinnar, en stunda orðhengilshátt og verða svo að lokum skelfingu lostnir þegar einhver imprar á kjarna máls.

Hver er þá kjarni málsins? Engan mann þekki ég svo forhertan að hann segi: Leggjum af alla aðstoð víð námsmenn, leggjum niður Lánasjóð ísl. námsmanna, látum lögmál markaðarins ráða. Menn virðast, alla vega flestir, og þar með talinn hæstv. menntmrh., þeirrar skoðunar að námsaðstoðarkerfi þurfum við að hafa. Og þá er spurningin: Hvernig á það að vera? Þetta er eitt af tekjujöfnunarkerfum okkar. Út frá sjónarmiði hinna yngri, sem eru að afla sér menntunar, skiptir það máli hvernig það er. Þeir gera til þess ákveðnar kröfur. Og hinir, sem eiga að standa undir kostnaðinum, gera einnig fyrir sitt leyti einhverjar kröfur. Námsaðstoðin hefur þann tilgang m.a. að reyna að koma í veg fyrir að menn, sem vilja stunda nám og hafa á því áhuga og atorku til, geti gert það og verði ekki útilokaðir frá því af efnahagslegum ástæðum: að enginn þurfi að hverfa frá námi vegna fátæktar.

Í annan stað eru uppi kröfur af hálfu þjóðfélagsins um það að þessi námsaðstoð verði endurgreidd. Ef við lítum á málefni lánasjóðsins eins og þau hafa þróast á undanförnum árum mundi ég setja fram fjögur meginatriði sem við þyrftum að staldra við og skoða.

Hið fyrsta er þetta: Hvert er samhengið milli lána og launa? Er það skynsamlegt kerfi sem er þannig úr garði gert að sú námsmannsfjölskylda sem notið hefur námsaðstoðarinnar verði fyrir verulegri kjaraskerðingu, tekjuáfalli, ef hún lætur af námi en tekur upp starf? Það hygg ég að sé ekki eðlilegt. M.ö.o., ég held að það sé eðlilegt að eitthvert samhengi hljóti að vera milli þeirra launa sem erfiðisvinnufólk í þessu landi fær fyrir iðju sína og svo þeirrar námsaðstoðar sem það sama fólk á að standa undir með sköttum sínum. Og að kerfið eigi ekki að vera af því tagi að ráðstöfunartekjur námsmannsfjölskyldu séu til mikilla muna meiri á þeim tíma sem námið er stundað en hún má gera sér vonir um þegar námi er lokið og taka á upp störf. Menn geta auðvitað sagt í hálfkæringi: Það á að hækka launin. En meðan við horfum á staðreyndirnar eins og þær eru spyr maður bara: Eru forsendur fyrir því að þetta þjóðfélag, miðað við þau laun sem það greiðir, geti haldið uppi námsaðstoð sem virðist vera talsvert mikið ríflegri en auðugustu þjóðir í grennd við okkur veita, þar með taldar allar Norðurlandaþjóðir?

Atriði númer tvö, sem ég vildi staldra við, er þetta: Námsaðstoðin er auðvitað til þess - hún er tímabundin - að aðstoða unga fólkið í náminu meðan það þarf á því að halda og hún er auðvitað viðbótarfé, fyrir utan það aflafé sem námsmenn við venjulegar kringumstæður geta aflað sér á námstíma með sumarvinnu. Og krafa þeirra, sem undir námsaðstoðinni standa, er ákaflega einföld. Hún er sú að þessi námsaðstoð verði endurgreidd á raunvirði þegar námi er lokið og þegar geta námsmannsins eða fjölskyldu hans til þess að endurgreiða það er orðin meiri.

Þriðja atriðið, sem ég vildi staldra við, er það að ég tel það óskynsamlegt í núverandi kerfi að það skuli vera vinnuletjandi. Koma í veg fyrir að námsmaðurinn geti bætt sinn hag með því að leggja það á sig á námstímanum að afla tekna. Þetta styðst við gamlar og grónar hefðir íslenskra námsmanna. Og meðan okkar þjóðfélag er þannig úr garði gert að þess er kostur, það er ekki atvinnuleysi, tel ég það þýðingarmikið að reyna að halda í þessi tengsl námsmanna við atvinnulífið.

Fjórða atriðið, sem ég vildi síðan staldra við, varðar Alþingi, stjórnmálaflokkana, stjórnmálamennina og þá pólitík sem þeir reka. Þar vil ég fyrst og fremst segja það að námsaðstoðina, sem innt er af höndum, á að greiða af sköttum, og fjár í lánasjóð af þessu tagi, sem er tekjujöfnunarsjóður, á ekki undir neinum kringumstæðum að afla með erlendum lánum. Það er bæði siðlaust og frábærlega heimskulegt. Erlent lánsfé er dýrt og ber háa vexti. Þetta er lánsfé, alveg eins og við tölum um húsnæðislánakerfið, þar sem lánað er út til tiltölulega langs tíma, hefur hingað til ekki borið vexti. Og við byggjum ekki upp lánasjóð, sem rís undir nafni, eins og við þurfum að gera ef stjórnmálamennirnir hafa ekki kjark til þess að leggja á þá skatta sem þarf til þess að standa undir þessum sjóði, heldur velta vandanum á undan sér með sláttumennsku, með erlendum lánum, sem þýða það auðvitað að vonlaust er að byggja upp eigin fjárhag sjóðsins, þannig að hann standi undir sjálfum sér eins og hann á að gera þegar fram líða stundir. Það er ákaflega auðvelt að slá sig til riddara í þessu máli með því að taka undir allar kröfur. Það er hins vegar líka ákaflega billegt. Allur þorri námsmanna gerir sér fullkomlega grein fyrir því að á þessu máli eru a.m.k. tvær hliðar. Námsmenn eiga sínar kröfur og sinn rétt. En um leið verður líka að líta á það hvernig á að standa við þessar kröfur og þar skiptir þetta meginmáli. Stjórnmálamenn verða að hafa kjark til þess að segja: Þess fjár sem er til ráðstöfunar í þennan sjóð öflum við með sköttum en ekki með erlendum lánum með ávísun um þyngri skatta síðan.

Þetta finnst mér vera aðalatriðin. Og ég er tilbúinn að segja það bæði hér og við námsmenn, eins og reyndar ég hef gert þegar á fundum, og ég hef ekki orðið var við annað en að námsmenn hafi á því fullan skilning, þegar rætt er við þá í alvöru um það, að þessi sjónarmið séu góð og gild. Svo mega aðrir slá sig til riddara eins og þeir vilja með því að taka undir allar kröfur og segja að það eigi að verða við öllum kröfum og óskum. En þeir hinir sömu menn ættu þá líka að standa niðri við höfn eða á vinnustöðum vinnandi fólks og segja slíkt hið sama.

Herra forseti. Ég tel að það séu gallar á núverandi kerfi og ég tel að það sé eðlilegur hlutur að það sé reynt að sníða þá vankanta af og taka fullt tillit til réttra röksemda og sjónarmiða beggja aðila, þeirra sem eiga að standa undir þessum gjöldum tímabundið og hinna sem eiga að njóta.

Nú er það aldeilis fráleitt, herra forseti, að við getum á þessum tíma farið út í nákvæm útfærsluatriði. Og ég minni á: Hér liggur ekkert frv. fyrir Alþingi. Lögð hefur verið fram skýrsla sem menn fengu í hendur fyrir nokkrum mínútum. Skýrslan er auðvitað framlögð til að friða samvisku hæstv. ráðherra, vegna þess að hann hefur verið stórorður mjög um áform sín. Hann ætlaði að leggja hér fram frv., hann ætlaði að koma þessum hugmyndum í framkvæmd sem hann boðar. Hann hefur ekki getað gert það. Það liggur alveg ljóst fyrir. Við erum ekki að taka afstöðu til lagasetningar. Hann er að boða hugmyndir og ekkert liggur fyrir um það að það sé nokkur samstaða við samstarfsflokkinn um það að þessar hugmyndir verði nokkurn tíma að veruleika. Þess vegna ætla ég ekki á þessu stigi málsins að fara út í nákvæma umræðu um öll þau atriði sem hann hefur tíundað. Ég fyrir mitt leyti geri þó strax eina athugasemd. Hún er þessi: Það er spurningin um vaxtatöku af þessum lánum, þ.e. eftir að námstíma er lokið og til endurgreiðslu kemur. Í skýrslunni stendur einhvers staðar að þetta eigi að bera lægri vexti en markaðsvexti og þá miðast við lægstu vexti á markaðnum. Þeir vextir eru ekki 3,5%. Þeir vextir eru 1%, þ.e. þeir vextir sem eru krafðir af lánum til langs tíma varðandi húsnæðisöflun láglaunafólks.

Ég læt mér nægja, herra forseti, að lokum að árétta þessi sjónarmið. Við eigum að reyna að ná samstöðu um það að námsaðstoðarkerfið sé skipulagt út frá ákveðnum grundvallarsjónarmiðum. Í fyrsta lagi er það þetta: Það verður að vera ákveðið samhengi, sanngirninnar vegna, milli launa og lána. Það dugar t.d. ekki að laun séu ekki verðtryggð en lán séu það á sama tíma. Í annan stað: Það er sanngirniskrafa, sem námsmenn fyllilega skilja eins og aðrir í þessu þjóðfélagi, að lánin skuli endurgreiða á raunvirði. Námslánakerfið á ekki að vera vinnuletjandi. Og þeir sem sitja á hinu háa Alþingi eiga að gera þá kröfu til sjálfra sín að þeir eigi að leggja á skatta fyrir þessu kerfi, en hætta þeim ósóma að eyðileggja þennan sjóð upp á framtíðina með því að slá erlend lán, sem engin leið er að ávöxtunarkröfur þessa sjóðs rísi undir.

Að lokum eitt: Að því er varðar reglugerðarsetningu ráðherra í byrjun árs verð ég að taka undir gagnrýni sem fram hefur komið. Hann lýsti því mjög afdráttarlaust yfir að hann mundi ekki á miðju skólaári gera neinar þær breytingar sem breyttu högum námsmanna á miðju námsári. Þessu lýsti hann yfir við umfjöllun málsins í nefnd hér í stigaherbergi. Við þetta hefur ekki verið staðið. Að vísu er breytingin á reglugerðinni hin seinni, að því er varðar námsmennina erlendis, til bóta. En af því að ráðherra ber sig illa undan því að málstaður hans hafi verið affluttur, og víst hefur það verið gert víða, verðum við einnig að rifja þetta upp og gera kröfur til þess að hann standi við þau orð sín. Það er sanngirniskrafa að námsmenn, sem tóku ákvörðun um sitt nám á s.l. sumri, standi ekki frammi fyrir því á miðjum vetri að forsendum fyrir þeirri aðstoð, sem þeir gengu út frá, verði breytt. Þannig að kannske voru þegar af þeirri ástæðu engar forsendur fyrir því að ráðherrann gæti út frá sanngirnissjónarmiðum lagt fram frv. eða látið lagabreytingar taka gildi á miðjum vetri.

Að lokum, herra forseti. Það hefur mikið verið talað um þær hugmyndir, sem bæði eru reifaðar í þessari skýrslu og hafa verið settar fram áður, að námsaðstoðarkerfið geti verið með tvennum hætti, þ.e. námslán með fullri endurgreiðslu og svo hins vegar styrkir að hluta til. Ég fyrir mitt leyti vísa til reynslu minnar á mínum námsárum af námsaðstoðarkerfinu sem ég kynntist, aðallega í Bretlandi og reyndar hjá þróunarþjóðum hins breska heimsveldis. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd að við tökum upp námsstyrkjakerfi með. Ég get vel sætt mig við þær hugmyndir sem þarna eru reifaðar um það að það verði annars vegar styrkir vegna ferðalaga námsmanna sem þurfa að fara langa leið, ef sá ferðakostnaður er hár að og frá námsstað. Mér hugnast einnig sú tillaga vel að afburðamenn í námi séu verðlaunaðir með styrkjum, með hvatningu. Bæði þeir sem leggja á sig langt og strangt, erfitt sérhæft nám í háskóla og eins afburðamenn sem eru að búa sig undir háskólanám í framhaldsskólum. Ég sé ekkert rangt við það út frá sjónarmiðum jafnaðar. Þetta er nánast eins og menningarlegt uppeldisatriði í mínum huga, að þetta sé skynsamlegt.