22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4434 í B-deild Alþingistíðinda. (4194)

Skýrsla menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna

Páll Pétursson:

Herra forseti. Örfá orð um þessa skýrslu. Feginn hefði ég viljað sjá þessa skýrslu fyrr en nú síðdegis en hæstv. ráðh. hefur í mörgu að snúast. Ég hefði gjarnan viljað hafa tækifæri til þess að ræða um þessa skýrslu í þingflokki mínum. Í skýrslunni er sums staðar nokkuð sterkt til orða tekið, enda er ráðherrann garpur og skemmtilegur maður og kveður fast að orði. Þar er látið að hlutum liggja og jafnvel fullyrt ýmislegt sem ég held að sé stundum of mikið.

Það er rétt, sem fram kemur á fyrstu síðu þessarar skýrslu, að Framsfl. mun að sjálfsögðu ræða við fulltrúa Sjálfstfl., bæði um þetta mál og önnur meðan við erum í samstarfi. En ég vil láta það koma fram hér nú að framsóknarmenn hafa ekki tekið undir ýmsar af þeim hugmyndum ráðherrans sem settar eru fram í skýrslunni. Og m.a.s. hefur komið fram innan Framsfl. og af hálfu hans veruleg andstaða við sumar þeirra. Þessi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem við búum nú við, eru að stofni til sett af menntmrh. úr Framsfl., Vilhjálmi Hjálmarssyni. Þau voru endurbætt af öðrum menntmrh. frá Framsfl., Ingvari Gíslasyni, hæstv. forseta Nd. Við berum þess vegna talsvert mikla ábyrgð á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og erum ekkert sérstaklega óánægðir með þau. Við lokum ekkert á það að einhverjar breytingar geti átt sér stað á lögunum. Þetta eru allgóð lög og það þarf ekki neinar byltingar á þeim.

Ég held að það eigi ekkert að vera að refsa mönnum fyrir að vinna og ég gæti hugsað mér hækkun á frítekjumarkinu. Það er rétt sem segir í þessari skýrslu um gildi vinnunnar, uppeldisgildi vinnunnar, og það er mikilvægt fyrir alla námsmenn að fá tækifæri til að kynnast atvinnulífinu. Við höfum hins vegar ekki léð máls á vaxtagreiðslum. Við höfum neitað þeim.

Það er margt fleira í þessari skýrslu sem við höfum ekki léð máls á. Þetta eru gamlir og hvimleiðir gestir sem við héldum að væru farnir. Það er eitt atriði í þessari skýrslu sem okkur hefur ekki verið sýnt áður eða a.m.k. hef ég ekki séð áður. Það er sú hugmynd að ASÍ og VSÍ fari að stjórna Lánasjóði ísl. námsmanna. Þetta finnst mér vera fráleit hugmynd. Ég vil veg ASÍ og VSÍ sem mestan en ég legg ekkert á þá að fara að stjórna Lánasjóði ísl. námsmanna.

Ég held líka að það sé fráleit hugmynd, sem ég reyndar hef ekki rekist á hér í þessari skýrslu en fram hefur komið í þessari umræðu, að fara að flokka nám í hagnýtt nám og óhagnýtt. Það er ákaflega erfitt að meta það og íslensk menning er ekki endilega byggð á hagnýtu námi og tilveruréttur og grundvöllur þessarar þjóðar og það veit menntmrh. náttúrlega manna best.

Ég vil ekki taka afstöðu til innheimtu- og lántökugjalda. Mér sýnist í fljótu bragði að þau kunni að orka tvímælis. Það er nauðsynlegt að einfalda starfsemi sjóðsins og takmarka fólkshald við hann og það er ekkert nema gott um það að segja. Ég tel jafnframt að vel geti komið til greina það fyrirkomulag sem hæstv. menntmrh. stingur upp á varðandi fyrsta árs nema. Það er ekki óskynsamlegt að gefa þeim kost á tveggja ára skuldabréfaláni sem breytist í venjulegt námslán ef námsmaður skilar eins misseris námsárangri á fyrstu 12 mánuðunum. Ég hef hins vegar fyrirvara um vaxtakjör, a.m.k. meðan vextir í þjóðfélaginu eru allt of háir eins og þeir eru enn þá. Ég er til viðtals um það að stytta endurgreiðslutímann úr 40 í 30 ár. Mér finnst 30 ár ekkert vera neitt mjög ósanngjarn tími til þess að greiða upp námslán sín og þá gætu námsmennirnir farið að leggja fyrir til ellinnar þegar það væri að baki. Það er náttúrlega fullmikið að fara að rífa af þeim ellistyrkinn til þess að borga námslánin. Það þyrfti að reyna að klára námslánin fyrst.

Mér finnst líka mögulegt, og það hefur held ég ekki komið fram í þessari umræðu, vel hugsanlegt að gera harðari endurgreiðslukröfur til þeirra viðskiptamanna lánasjóðsins sem setjast að erlendis. Sé t.d. námsmaður ekki kominn heim eftir 15-20 ár frá því að hann hóf að taka lán úr sjóðnum, þá finnst mér vel geta komið til greina að krefja hann um endurgreiðslu stífar heldur en ef hann hefði komið heim. Peningar, sem til námsaðstoðar er varið, eru fjárfesting sem kemur þjóðfélaginu að gagni, svo framarlega sem námsmaðurinn vinnur þjóð sinni að námi loknu. Annars er þetta glötuð fjárfesting og þá er ekkert við því að segja þó að hún sé endurgreidd hratt og vel, þegar það liggur ljóst fyrir að námsmaður ætlar að setjast að erlendis.

Ég hef ekki trú á því sem sagt, herra forseti, að fulltrúar stjórnarflokkanna komi sér saman um frv. sem væri í líkingu við það sem getið er um í þessari skýrslu. Við munum hins vegar tala við fulltrúa menntmrh. í þeirri von að fulltrúar Sjálfstfl. lagi sig að sjónarmiðum okkar framsóknarmanna. Lánasjóður ísl. námsmanna er fjárfrekur og við þurfum peninga til margs annars svo það er ekki hægt að láta alla peninga þangað. Fjárhagur LÍN væri reyndar þolanlegur ef hann hefði ekki þurft að búa við erlend lán. Það eru erlendu lánin sem sett hafa þennan sjóð um koll. En fjárþörf hans verður náttúrlega að mæta eftir því sem hægt er á hverjum tíma.

Við framsóknarmenn munum standa vörð um jafnrétti til náms þannig að engum eigi að vera lokuð leið til náms af fátæktar sökum. Það er jafnréttismál, það er landsbyggðarmál og það er aðalsmerki á þjóðfélaginu að börnum láglaunafólks sé ekki síður en öðrum tryggður réttur til náms ef hæfileikar og vilji er fyrir hendi. Nám er vinna, og vinna í þágu samfélagsins öðrum þræði. Það er ekki neitt við það að athuga þó að samfélagið beri einhverjar byrðar þess vegna. Lögmál markaðarins geta ekki gilt að fullu um Lánasjóð ísl. námsmanna fremur en margt annað í okkar þjóðfélagi.

Ég vona síðan að við framsóknarmenn komum til með að eiga góða samvinnu við hæstv. menntmrh. sem er skörungur mikill og hinn mesti garpur og vill vel þó að hann hafi hér að sumu leyti tekið upp sjónarmið sem við teljum ekki ásættanleg.