22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4440 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið við upphaf þessar umræðu, en ég skal reyna að svara því sem til mín var beint.

Fyrst er það fsp. um Útgerðarfélag Vesturlands vegna sölu á Óskari Magnússyni. Byggðastofnun lánaði hluthöfum í Krossvík hf. á Akranesi til að kaupa Höfðavík AK 200 af Fiskveiðasjóði 10 millj. kr. Byggðastofnun samþykkti einnig lán til að koma í veg fyrir að togarinn Jökull SH frá Ólafsvík yrði seldur úr byggðarlaginu. Lán til Hraðfrystihúss Ólafsvíkur var samþykkt upp á 6 millj. í þessu tilefni og heimild síðar á árinu upp á 4,5 millj. Samtals voru þarna lánaðar 10,5 millj. kr. Einnig var gefin heimild til að semja um vanskil Hraðfrystihúss Ólafsvíkur og Fiski- og síldarverksmiðjunnar Ólafsvík til þess að tækist að halda skipinu heima.

Í sambandi við Tálkna hf., vegna sölu á Sölva Bjarnasyni, samþykkti Byggðastofnun lán til Útgerðarfélags Bílddælinga og Fiskvinnslunnar hf. á Bíldudal, alls 28 millj. kr., til kaupa á Sölva Bjarnasyni af Fiskveiðasjóði og lánaði einnig til Suðurfjarðahrepps til hlutafjárkaupa í Útgerðarfélagi Bílddælinga 2 millj. kr., samtals 30 millj. Byggðastofnun tapaði þarna líka verulegu fé sem varð að afskrifa vegna þessa skips.

Það var einnig spurt um Kolbeinsey. Þar lánaði Byggðastofnun Húsavíkurbæ 4,5 millj. kr. plús 500 þús., Fiskiðjusamlagi Húsavíkur 13 millj. og 500 þús. plús 1 millj. og 500 þús., samtals 20 millj. kr. Þetta var lánað til þessara fyrirtækja til að gera þeim kleift að kaupa togarann Kolbeinsey. Þarna tapaði Byggðastofnun einnig nokkru vegna afskrifta af þessu skipi.

Þá vík ég að málinu sjálfu sem varðar Byggðastofnun og afskipti okkar af þessu sérstæða máli. Fyrir lágu fjórar umsóknir í Byggðastofnun frá þessum aðilum, frá Sæbliki hf. lánsbeiðni upp á 3 millj. kr. og Presthólahreppi upp á 3 millj. kr., samtals 6 millj. kr. lánsbeiðni frá Sæbliki hf. á Kópaskeri og Presthólahreppi. Frá Svalbarðsstrandarhreppi kom lánsbeiðni upp á 2,5 millj. kr. og upp á 3 millj. kr. bráðabirgðalán eða til 18 mánaða. Samtals fóru þessir aðilar fram á að fá lánað úr Byggðasjóði til að kaupa þetta skip 11 millj. og 500 þús. kr.

Því miður er tíminn búinn og illt við það að búa að maður skuli ekki hafa tækifæri til að svara því sem um er spurt, en mín skoðun er sú að það hefði verið góður kostur að lána þetta fé og ég hef trú á því að þeim aðilum sem þarna voru með umsóknir hefði verið fyllilega trúandi fyrir því að reka þetta skip.

Ég spyr þá menn sem tala kannske hæst núna um þessi mál og gagnrýna þann vilja sem við höfðum, minni hluti stofnunarinnar, til að lána þetta fjármagn hvort þeir muni ekki eftir umræðunum um Hólmadrang. Það væri kannske fróðlegt nú að endurtaka þáttinn með Kristjáni Ragnarssyni og framkvæmdastjóra Hólmadrangs og bera saman umræðurnar sem fóru fram þá og hvað hefur gerst síðan.