11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

55. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga, 55. máli þingsins um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu, sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og Kjartani Jóhannssyni.

Efni þessa frv. er að komið verði á samræmdri og skipulagðri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og að skapa öllum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar.

Frv. þetta var einnig til umfjöllunar á síðasta Alþingi. Örlög þess þá voru að því var vísað til ríkisstj. Meiri hl. hv. félmn. deildarinnar hafði mælt með slíkri afgreiðslu með þeim rökum að á vegum ríkisstj. hefði verið unnið að þeim málum sem frv. fjallaði um og gert var ráð fyrir að skýrsla um endurmenntunarmál yrði lögð fyrir á yfirstandandi þingi. Minni hl. nefndarinnar mælti með samþykkt frv. með nokkrum brtt.

Nú þegar málið er endurflutt eru tillögur minni hl. teknar upp í frv. en með þeim er tekið tillit til sumra þeirra sjónarmiða sem fram komu í umsögn ýmissa aðila á síðasta þingi um málið.

Ég tel, herra forseti, rétt þar sem við erum að fjalla um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu, og vegna þess nál. meiri hl. hv. félmn., sem lagt var fyrir á síðasta þingi, að beina orðum mínum til hæstv. menntmrh. og óska eftir því að hann verði viðstaddur þessa umræðu. (Forseti: Það skal athugað hvort menntmrh. er í húsinu.)

Hæstv. menntmrh. gengur í salinn. Við erum hér að fjalla um frv. til laga um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Ég var að lýsa því hér að á síðasta þingi var þessu frv. vísað til ríkisstj. með þeim rökum meiri hl. hv. félmn., sem fjallaði um málið, að í ríkisstj. væri unnið að þeim málum sem frv. fjallaði um og gert væri ráð fyrir því að skýrsla um endurmenntunarmál yrði lögð fyrir nú á þessu þingi. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh.:

Hvað líður framlagningu þessarar skýrslu um endurmenntunarmál? Hvenær má hv. Alþingi eiga von á því að slík skýrsla verði lögð fram?

Þar sem rök meiri hl. á síðasta þingi voru í fyrsta lagi að unnið væri að þessu máli á vegum ríkisstj. og í annan stað að skýrsla um endurmenntunarmál yrði lögð fram á þessu þingi, þá vil ég, með leyfi forseta, rifja upp nokkur orð úr ræðu minni á síðasta Alþingi við 2. umr. málsins, þegar fyrir lá nál. meiri hl. og rökstuðningur um að vísa málinu til ríkisstj. En þá kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Sá rökstuðningur, sem er að finna í nál. meiri hl. fyrir að vísa málinu til ríkisstj., finnst mér ansi léttvægur. Vitnað er til þess í nál. að á vegum ríkisstj. hafi verið og sé unnið að þessu máli. Vænti ég þá þess að meiri hl. eigi við þær stjórnskipuðu nefndir sem starfað hafa í þessum málum, önnur á vegum menntmrn. og hin á vegum félmrn.

Í annan stað er til þess vitnað í nál. meiri hl. að gert sé ráð fyrir að skýrsla um endurmenntunarmál verði lögð fram á næsta þingi.

Ég vil fyrst segja það varðandi þær tvær stjórnskipuðu nefndir sem starfað hafa á vegum þessara tveggja ráðuneyta að það er mitt mat að lítils sé að vænta varðandi endurmenntunarmálin í niðurstöðum þessara nefnda þegar þær liggja fyrir. Á fund félmn. mættu báðir formenn þessara nefnda, en Ingvar Ásmundsson, skólastjóri Iðnskólans er formaður þeirrar nefndar sem starfar á vegum félmrn. og sérstaklega skal athuga hvernig vinnumarkaðurinn getur aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu. Í þeirri áfangaskýrslu, sem fram kom í júní 1984, er lítið að finna varðandi endurmenntunarmálin utan þess sem almennum orðum er talað um nauðsyn endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Ég spurði formann þessarar nefndar, Ingvar Ásmundsson skólastjóra, sérstaklega eftir því þegar hann kom á fund félmn. hvort þess væri að vænta að fram kæmu tillögur frá þessari nefnd, sem starfað hefur á vegum félmrn., um endurmenntunarmál. Ingvar Ásmundsson tjáði félmn. að þessi nefnd mundi fljótlega skila af sér, en orðrétt sagði hann að hann ætti ekki von á því að dýpra yrði faríð í endurmenntunarmálin en væri í áfangaskýrslunni. Það væri því hans skoðun að ekki væri ástæða til að bíða með afgreiðslu þessa frv. þar til niðurstaða og skýrsla nefndarinnar lægi fyrir.

Að því er varðar þá nefnd sem starfar á vegum menntmrn. til að kanna tengsl atvinnulífs og skóla, þá mætti á fund félmn. Halldór Guðjónsson, kennslustjóri Háskóla Íslands, sem er formaður þeirrar nefndar. Svipaða sögu var að segja af störfum þessarar nefndar. Halldór Guðjónsson bjóst ekki við því að neinar tillögur yrðu í niðurstöðum eða skýrslum þeirrar nefndar að því er varðar endurmenntunarmál vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Það eina sem fram kom hjá Halldóri Guðjónssyni var að e.t.v. yrði að finna eina eða tvær setningar um endurmenntunarmál vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu og nefndi hann mikilvægi þess að horfa á endurmenntunarmál út frá sjónarhóli atvinnulífs og atvinnurekstrarins.

Það er nú allt og sumt sem ég tel að vænta sé frá þessum nefndum og ekki komi þær fram með neinar tillögur eða beinar úrlausnir á því hvernig taka eigi á þessum endurmenntunarmálum.

Það er gott og vel að hæstv. menntmrh. eða félmrh. gefi Alþingi skýrslur á næsta þingi um endurmenntunarmálin. En ég tel að við höfum ekki efni á því að bíða eftir neinum skýrslum, ekki síst í ljósi þess að lítilla tillagna er að vænta frá þeim stjórnskipuðu nefndum sem starfað hafa í lengri tíma að þessu máli. Mín skoðun er reyndar sú að sú skýrsla, sem hér er sett fram um endurmenntunarmál og fram á að koma á næsta þingi eins og fram kemur í áliti meiri hl., sé nokkurs konar hálmstrá sem meiri hlutinn hefur fundið upp í samráði við ráðherra til að komast skammlaust frá afgreiðslu þessa máls og þurfa ekki að fella frv. hér í atkvgr.“

Nú liggur fyrir niðurstaða og skýrsla þess starfshóps, sem hér hefur m.a. verið vitnað til og starfað hefur á vegum félmrn., sem sérstaklega átti að athuga hvernig vinnumarkaðurinn getur aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu. Ég held, herra forseti, að óhætt sé að segja að sú skýrsla staðfesti það, sem ég sagði um þessi mál á síðasta þingi þegar vísa átti málinu til ríkisstj., að ekkert nýtt kemur fram í þessari skýrslu umfram það sem fyrir lá á þeim tíma þegar meiri hl. félmn. ákvað að leggja til að málinu yrði vísað til ríkisstj., m.a. af því að stjórnskipaðar nefndir væru að störfum um þessi mál.

Ég verð að segja það sem mína skoðun, herra forseti, eftir að hafa farið yfir þessa skýrslu starfshópsins, sem starfað hefur um tveggja ára skeið og m.a. hafði það verkefni að gera tillögur um hvernig vinnumarkaðurinn gæti aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi væri stefnt í hættu, að mér finnst lítið markvert koma út úr starfi þessarar nefndar. Þar er í raun og veru engar tillögur að finna um stefnumörkun í þessu mikilvæga og brýna máli og í það heila tekið er í skýrslunni fyrst og fremst í almennum orðum tekið undir nauðsyn þess að Íslendingar nýti sér tækniþróun til aukinnar framleiðni og hagvaxtar og til þess þurfi að efla menntun og rannsóknir og treysta fjárhagsstöðu atvinnuveganna.

Í skýrslunni er síðan í tíu liðum bent á atriði, sem hafa ber í huga vegna tækniþróunar, sem ég vil, með leyfi forseta, lesa hér:

„1. Árangur af nýrri tækni er mjög kominn undir skilningi og jákvæðri afstöðu þeirra sem hún kann að hafa áhrif á. Óvissa og þekkingarskortur leiðir af sér tortryggni og hræðslu en hvoru tveggja vinnur gegn góðum árangri. Því er upplýsingamiðlun forsenda árangurs. Reynsla sýnir að því fyrr sem hafist er handa um fræðslu starfsmanna um væntanlegar tæknibreytingar, eðli þeirra og áhrif, þeim mun betri árangurs er að vænta. Því er mikilvægt að stjórnendur kynni starfsmönnum svo fljótt sem verða má fyrirhugaðar breytingar.

2. Til þess að skapa jákvæð viðhorf til nýrrar tækni þurfa allir þegnar þjóðfélagsins að njóta góðs af.

3. Í hverju fyrirtæki þarf að skapa traust milli aðila og jákvæðan starfsanda. Æskilegt er að fyrirtæki setji sér langtímamarkmið sem kynnt eru öllum starfsmönnum. Kjör starfsmanna, aðbúnaður og atvinnuöryggi ráðast af árangri fyrirtækisins. Virkja þarf starfsfólk sem best og leita eftir hugmyndum þess um úrbætur í rekstrinum. Til þessa má m.a. hvetja með því að verðlauna góðar hugmyndir.

4. Samfara tæknivæðingu þarf að fylgjast grannt með atvinnustigi og hvetja í tíma til atvinnuuppbyggingar. Ávinning framleiðniaukningar ber að nýta í þessum tilgangi.

5. Til að sporna við tímabundnum vandamálum þarf að stuðla að sem mestum sveigjanleika í atvinnulífinu og sjá til þess að ýmiss konar hömlur leiði ekki til stöðnunar.

6. Aðlögun vinnumarkaðarins að nýrri tækni kemur misjafnlega niður á starfsgreinum og störfum. Þess vegna þarf að tryggja starfsmönnum eftirmenntun og þjálfun sem geri þeim kleift að laga sig að tæknibreytingum. Slíkum stuðningi þarf að fylgja skilningur á aðlögunarvanda eldri starfsmanna.

7. Sérstök ástæða er til að hyggja að stöðu kvenna. Þær gegna í ríkari mæli en karlar einhæfum störfum sem líklegra er að leggist af eða breytist. Til að bæta stöðu kvenna þarf að stuðla að því að atvinnuþátttaka þeirra verði fjölþættari og hvetja konur til að haga menntun sinni í samræmi við það.

8. Mikilvægt er að möguleikar nýrrar tækni verði nýttir til þess að gera vinnutíma sveigjanlegri, þannig að foreldrar eigi þess kost að skipta með sér tekjuöflun og umönnun barna, eftir því sem best hentar hverju sinni.

9. Rétt er að vekja athygli á því forskoti á vinnumarkaði sem karlmenn fá við brotthvarf kvenna af markaðinum vegna meðgöngu og barnauppeldis á árum sem karlmenn fá tíðum mikilvæga þjálfun á vinnustað. Þessu vandamáli má m.a. mæta með því að tryggja örugga uppeldisaðstöðu barna og jafna þátttöku foreldra í því starfi.

10. Loks er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að ungu fólki með litla menntun kunni að reynast erfitt að komast á vinnumarkaðinn. Því þarf að fylgjast með fjölda og stöðu þessa hóps.“

Ég tel, herra forseti, að hér sé í raun ekkert nýtt lagt fram umfram það sem þegar var vitað í þessu máli. Það sem vantar er fyrst og fremst stefnumörkun og tillögur um aðgerðir. Vil ég í framhaldi af því beina fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvaða tillögur hann hefur uppi í þessu máli og hvernig hann muni haga vinnu í sambandi við þetta mál í framhaldi af niðurstöðu af skýrslu þessa starfshóps.

Á ýmsum stöðum í skýrslunni er ítrekuð nauðsyn menntunar og endurmenntunar vegna tæknivæðingar og um það segir m.a.:

„Sérstök ástæða er til þess að huga að fjárfestingu í ýmsum undirstöðuþáttum atvinnulífsins. Má þar m.a. nefna menntun, samskiptakerfi og rannsóknir.“

Enn fremur segir: „Bæði opinberir aðilar og einkaaðilar verja nú verulegum fjármunum í menntun og þjálfun. Báðir þurfa að gera miklu betur. Til þess að laga sig að tæknimenningunni þarf menntakerfið að taka nýja stefnu.“

Og síðan segir: „Í raun þarf að endurskipuleggja allt menntakerfi þjóðarinnar með hliðsjón af þeim öru tæknibreytingum sem nú ganga yfir heiminn. Menntaleiðirnar verði markvissari og miðaðar í ríkari mæli við framtíðarþarfir atvinnuveganna.“

Og í kafla um menntun, þjálfun og rannsóknir segir m.a., með leyfi forseta:

„Öflugt og árangursríkt menntakerfi er forsenda þess að tækninýjungar verði hagnýttar eins og kostur er. Efla þarf hvers konar eftirmenntun, með það meginmarkmið að auka starfshæfni hvers nemanda. Tryggja þarf öllum starfsmönnum, sem kunna að missa atvinnu sína vegna tæknibreytinga, starfsmenntun við hæfi þeirra.“

Í stuttu máli sagt um þessa skýrslu er tekið undir nauðsyn tækniþróunar og endurmenntunar án þess að starfshópurinn leggi fram neinar ákveðnar tillögur um hvernig eða með hvaða hætti það skuli gert og það tel ég vera mikinn galla á störfum þessarar nefndar. Verð ég að segja að það er lítil uppskera af tveggja ára starfi sjö manna nefndar að komast að þeirri niðurstöðu, sem flestir vita, að nauðsynlegt er fyrir atvinnuvegina að aðlagast nýrri tækni og að menntun og starfsþjálfun starfsmanna sé brýn og nauðsynleg til að það geti orðið og nauðsynlegt sé að tryggja atvinnuöryggi launafólks vegna tæknivæðingar.

Ég fagna því að þessi skýrsla starfshópsins undirstrikar þó á margan hátt nauðsyn þess að komið verði á samræmdri og skipulagðri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og nauðsynlegt sé að skapa öllum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar. En það er einmitt tilgangur þessa frv. sem ég mæli fyrir og meiri hl. félmn. lagði til á síðasta þingi að yrði vísað til ríkisstj.

Kjarni málsins er sá að það er ekki lengur hægt að bíða með að taka á þessu máli og skipa bara starfshópa til að athuga og kanna málið. Það sem vantar í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, er framkvæmdin, að stjórnvöld hafi dug í sér til að taka á þessu máli og Alþingi marki þá stefnu sem nauðsynleg er. Um er að ræða mál sem ekki einasta getur skipt sköpum um atvinnuöryggi fjölda launþega í landinu, heldur og haft áhrif á atvinnuuppbygginguna, aukna framleiðni og hagvöxt og í reynd skipt sköpum um hve hratt við tökum tækninýjungar í þjónustu okkar.

Þegar alþm. gera upp hug sinn um það mál sem ég hér mæli fyrir er brýnt að þeir geri sér ljóst að undirstaða tæknivæðingar í atvinnulífinu er að við höfum á að skipa starfsfólki sem vald hefur á tækninýjungunum og sem hefur verið gert kleift með eftir- og endurmenntun að takast á við breytta atvinnuhætti samfara tækninýjungum.

Flm. þessa frv. leggja til ákveðna leið og skipulagningu á því brýna máli sem er endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Í því sambandi skal undirstrikað að við flm. þessa frv. erum opin fyrir öllum breytingum á frv. sem samræmast því markmiði sem að er stefnt, þ.e. að koma á samræmdri og skipulagðri endurmenntun hér á landi vegna tækniþróunar í atvinnulífinu. Við leggjum á það megináherslu að Alþingi ýti þessu máli ekki til hliðar, heldur verði á því tekið þannig að Alþingi móti stefnuna nú þegar í þessu máli því það er deginum ljósara að það getur orðið dýrkeypt fyrir þjóðina ef löggjafarþingið hefur ekki skilning á því hve brýnt er orðið að marka skýra og markvissa stefnu sem tryggi atvinnuöryggi starfsfólks, en menntun þess og aðlögun að nýrri tækni er forsenda þess að við tökum tækninýjungar með eðlilegum hætti í þjónustu okkar.

Ef menn sjá einhverjum ofsjónum yfir því fjármagni sem nauðsynlegt er að verja í endurmenntun starfsfólks þá mun framtíðin örugglega staðfesta það að í þessu efni getur orðið dýrt að spara.

Á síðasta Alþingi ræddi ég mjög ítarlega um þetta frv. bæði í framsögu fyrir málinu og við 2. umr. þess, þar sem ég sýndi fram á og rökstuddi nauðsyn þess að samþykkja löggjöf í þessu efni. Ég tel því ekki, herra forseti, nauðsyn á að ég hafi nú langa framsögu um þetta frv., en vísa til umræðna um þetta mál á síðasta þingi og ítarlegrar grg. sem frv. fylgir. Ég vil þó hér í lokin, herra forseti, gera grein fyrir einstökum greinum frv.

Ég hef þegar gert grein fyrir 1. gr., um markmið frv. Með endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu er átt við þann þekkingarauka sem nauðsynlegt er að starfsmenn í fyrirtækjum fái til þess að fyrirtækið geti nýtt sér þá möguleika sem fólgnir eru í nýrri tækni. Þekkingarauka þennan er hægt að byggja upp á marga vegu, svo sem með því að senda starfsmenn á námskeið innanlands eða erlendis, fá ráðgjafa eða starfsþjálfa til að kenna starfsmönnum á vinnustað eða með því að gefa starfsmönnum kost á skipulögðu starfsnámi.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um sjö manna endurmenntunarráð en verkefni þess er síðan skilgreint í 3. gr.

Með skipan ráðsins er leitast við að tryggja aðild stærstu heildarsamtaka á vinnumarkaðnum auk þess sem tryggð er aðild menntakerfisins að ákvörðunum um alla framkvæmd endurmenntunar sem tengist tæknivæðingu í atvinnulífinu.

Þar sem endurmenntunarmálum hefur verið skipað með lögum á Norðurlöndum er algengt að þau mál heyri undir atvinnumálaráðuneyti. Sjálfstætt atvinnumálaráðuneyti er ekki fyrir hendi hér og því er lagt til að yfirstjórn þessara mála sé í höndum félmrh. sem fer með vinnumarkaðsmál, sbr. reglugerð nr. 96/1969, um Stjórnarráð Íslands, en fram kemur í 4. gr. hennar að félmrn. fari með mál sem varða vinnu, þar á meðal stéttarfélög launþega og atvinnurekenda, svo og skráningu atvinnulausra, vinnumiðlun, atvinnujöfnun og hagræðingu á vinnumarkaði.

Í 3. gr. er fjallað um hlutverk endurmenntunarráðs. Í þessari grein kemur fram skilgreining á hlutverki endurmenntunarráðs en a-, b- og e-liðir byggjast á því meginmarkmiði sem fram kemur í 1. gr. frv., þ.e. að komið verði á samræmingu og skipulagi á endurmenntun sem tengist tæknivæðingu í afvinnulífinu og að forgangsverkefni á því sviði taki markvisst mið af því að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna sem í hættu er vegna tæknivæðingar í einstökum greinum atvinnulífsins.

Nauðsynlegt er einnig að það verkefni falli í hlut endurmenntunarráðs að gera árlega kostnaðaráætlun enda ráðið sá aðili sem gleggsta yfirsýn hefur um þörfina hverju sinni.

Ljóst er að eitt vandmeðfarnasta verkefni ráðsins er úthlutun styrkja úr endurmenntunarsjóði enda ræðst af henni röðun forgangsverkefna á sviði endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Nauðsynlegt er því að tryggja úrskurðarvald ráðherra í þessum lögum komi til ágreinings í endurmenntunarráði.

Samkvæmt ákvæðum 4. gr. er hlutverk endurmenntunarsjóðs þríþætt.

Í fyrsta lagi að veita styrki til starfsmanna sem sækja endurmenntunarnámskeið eða starfsþjálfunarnámskeið sem viðurkennd eru af endurmenntunarráði. Eðlilegt þykir, og auðvelt í allri framkvæmd, að miða upphæð styrkveitingar við atvinnuleysisbætur eins og þær eru á hverjum tíma. Benda má einnig á að t.a.m. í Danmörku eru atvinnuleysisbætur notaðar til viðmiðunar þegar greiddir eru styrkir vegna endurmenntunar starfsmanna.

Ljóst er þó að sú upphæð er ekki nægjanlegur hvati til að starfsfólk sæki sér endurmenntun því að í allflestum tilfellum verður um nokkurn eða töluverðan tekjumissi að ræða. Hagur launþega og atvinnurekenda er augljós ef átak verður gert á sviði endurmenntunar starfsfólks vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu; því er eðlilegt að kanna grundvöll þess að atvinnurekendur greiði starfsmönnum mismun á launum þeirra og atvinnuleysisbótum á meðan á starfsþjálfun stendur, svo og að aðilar vinnumarkaðarins greiði hluta af námskeiðsgjöldum. Styrkir úr endurmenntunarsjóði eru forsenda þess að endurmenntunarráð geti stuðlað að því að framboð og eftirspurn eftir endurmenntun séu nægjanleg og því mikilvægt að víðtæk samstaða náist um alla framkvæmd málsins og að samningar takist við aðila vinnumarkaðarins um hlutdeild í kostnaði við endurmenntun starfsfólks.

Í þessari grein er kveðið á um að nánari ákvæði um skilyrði fyrir styrkveitingum og hlutdeild aðila vinnumarkaðarins í fjármögnun skuli sett í reglugerð, að uppfylltu ákvæði til bráðabirgða, en eðlilegt verður að telja að endurmenntunarráð hafi möguleika til að setja það skilyrði fyrir styrkjum og framlögum til endurmenntunar að mótframlag komi frá atvinnurekanda eða sjóðum atvinnurekenda og launþega.

Í öðru lagi er lagt til að endurmenntunarsjóði verði heimilt að greiða að fullu námskeiðsgjöld fyrir þá sem ekki hafa verið á vinnumarkaðinum um lengri eða skemmri tíma. Ekki síst er þetta ákvæði sett fram til að stuðla að endurmenntun þeirra sem koma á vinnumarkaðinn að nýju eftir stutta eða langa fjarveru.

Í þriðja lagi eru síðan ákvæði um að styrki megi veita til námsgagnagerðar, námskeiðshalds og starfsþjálfunar á sviðum sem viðurkennd eru af endurmenntunarráði.

Nauðsynlegt er einnig að frekari ákvæði verði sett í reglugerð að því er varðar viðmiðunarákvæði um forgangsröðun verkefna.

Má þar nefna:

í fyrsta lagi gildi verkefnisins fyrir starfsmenn,

í öðru lagi gildi verkefnisins fyrir atvinnulífið og einstök fyrirtæki,

í þriðja lagi hvort verkefnið hefur gildi fyrir fleiri en eina atvinnugrein.

Í 5. gr. er kveðið á um framlag ríkissjóðs til endurmenntunar vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu og gert ráð fyrir að á fjárlögum ár hvert verði sjóðnum lagt til fé sem samsvarar a.m.k. 50% af framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Miðað við frv. til fjárlaga sem nú hefur verið lagt fram yrði um að ræða 80 millj. kr., en það er jafnhá upphæð og nemur framlagi atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Í ákvæði til bráðabirgða er síðan kveðið á um að félmrh. hefji þegar í stað viðræður við aðila vinnumarkaðarins þar sem leitað verði eftir samvinnu um þátttöku í kostnaði við endurmenntun starfsfólks vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Með lögum þessum er hlutur aðila vinnumarkaðarins tryggður varðandi allar ákvarðanir um skipulag endurmenntunar. Ljóst er að hlutdeild þessara aðila í kostnaði þeim sem af endurmenntun leiðir mun tvímælalaust flýta fyrir endurmenntun starfsfólks í flestum atvinnugreinum og því að markmiðum laganna verði náð. Vart þarf að tíunda að það er jafnt til hagsbóta fyrir atvinnurekendur sem og launþega. Skilyrði fyrir styrkveitingum, sem sett verða í reglugerð skv. 4. gr. frv., hljóta síðan að taka mið af þeim niðurstöðum sem fást úr viðræðum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu um þetta mál og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn.