22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4441 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þeir erfiðleikar sem fyrst og fremst er við að glíma í atvinnulífi á Kópaskeri og hafa verið undanfarið stafa af því að veiði á innfjarðarrækju á Öxarfirði hefur algerlega brugðist. Sá skipakostur sem fyrir hefur verið á Kópaskeri dugar því ekki til að sækja hráefni til vinnslunnar á djúpmið, eins og væntanlega verður að reyna þegar innanfjarðarveiðin, sem vinnslan hefur byggt afkomu sína á, bregst með öllu. Þess vegna hafa íbúar Kópaskers leitað eftir skipi nú um margra mánaða skeið og gerðu tilboð í þetta raðsmíðaskip til að leysa úr sínu brýna vandamáli, byggðavandamáli og atvinnuvandamáli. Rekstrarvandræði vinnslunnar koma hins vegar ekkert sérstaklega inn í það mál, hv. þm. Halldór Blöndal.

Ég vil koma þeirri skoðun minni á framfæri, herra forseti, að viðbrögð meiri hluta stjórnar Byggðastofnunar orki mjög tvímælis. Það vekur hjá manni efasemdir um hvort sú stofnun heitir lengur réttu nafni ef hún sér það ekki sem sitt hlutverk að aðstoða veik byggðarlög í tilfellum sem þessum, m.a. af þeim ástæðum að fyrir hefur legið um margra mánaða skeið erindi hjá stofnuninni vegna aðstæðna á Kópaskeri og bréf frá forsrh. Íslands, að ég best veit, einnig til sömu stofnunar um að beita sér fyrir úrlausn í þessu máli. Þar af leiðandi, þegar þetta byggðarlag reyndist hafa boðið hæst í þetta skip, fannst mér eðlilegt að þeir leituðu meðal annarra til Byggðastofnunar um að tryggja sér skipið og koma rekstri undir það.

Ég bendi á að skip eru væntanlega jafndýr, ef þau eru keypt á 176 millj. kr., hvort sem þau eru skráð á Kópaskeri eða einhvers staðar annars staðar. Á sameiginlegum rækjumiðum fyrir Norðurlandi ætti rekstrarafkoma skipa að vera tiltölulega svipuð hvar sem þau eiga lögheimili fyrir höfnum Norðurlands. Þar af leiðandi held ég að Kópaskersmenn hefðu jafnvel og aðrir getað rekið þetta skip úr því að það lá fyrir að verðið á því yrði á þessu bili.

Ég vil að lokum mótmæla því að það hefði gert út um möguleika skipsins til að leysa úr hráefnisvandræðum vinnslunnar á Kópaskeri þótt það hefði orðið að frysta að verulegu eða jafnvel öllu leyti sinn afla, ósköp einfaldlega vegna þess að það liggur fyrir að miðað við venjulega aflasamsetningu hefðu um 60% eða svo af þeirri rækju sem veidd hefði verið hvort eð er komið til vinnslu í landi og gerir það miðað við aflasamsetninguna fyrir Norðurlandi. Það eru ekki rök í þessu máli.