22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4444 í B-deild Alþingistíðinda. (4206)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. sem var að fara úr pontunni. Var það afl peninganna sem réði þegar Byggðastofnun kom í veg fyrir að togarinn færi frá Ólafsvík? Var það afl peninganna? (SkA: Það er ekki verið að ræða um togarann Má. Það er verið að ræða um allt önnur skip.) Það var ekkert verið að tala um togarann Má. Hann hét ekki Már. (SkA: Það var fyrst og fremst dugnaður Ólafsvíkinga sem því réði.)

Í sambandi við orðaskak Kolbrúnar Jónsdóttur verð ég að segja, og ætta að afgreiða hana á stuttlegan hátt, að ég varð aldrei var við afskipti þess þingmanns af þessum málefnum svo að hún getur trútt um talað. (KolJ: Það er ekki mitt verkefni.) Það er þitt verkefni víst.

Halldór Blöndal var að tala um að það ætti að tryggja þessum stað skip til rækjuveiða. En rétt áðan var hann að tala um að vandinn væri sá að rækjan sem hefði fengist hefði ekki farið til Kópaskers. Mér sýnist maðurinn fara heljarstökk út í óvissuna. Ég segi það.

Það er líka talað um að þetta mál hefði átt að leysa á faglegan hátt í Byggðastofnun. Byggðastofnun fór fram á það vinsamlegast að fá fjögurra eða fimm daga frest til að reyna að leita sátta í þessum málum og fá farsæla lausn. Því miður fengum við ekki þennan frest. (Gripið fram í: Hvað voruð þið látnir hafa langan frest?) Hvað vorum við látnir hafa langan frest? (Gripið fram í: Níu daga.) Níu daga? Við vorum ekki búnir að hafa neina níu daga. Við báðum um þennan frest en fengum hann ekki og ég tel að það sé kannske meginorsökin fyrir því hvernig komið er.

Hins vegar get ég sagt það hér, og það eru mín lokaorð, að ég mun beita mér fyrir því að Byggðastofnun vinni markvisst að því að byggja upp atvinnulíf bæði á Kópaskeri og Svalbarðsströnd og miklu víðar. Ég get sagt það og ég er viss um að það er meiri hluti stjórnar Byggðastofnunar sem vill það þó að við höfum því miður ekki átt samleið í þessu máli.