11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

55. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef ekki svör við þeim fsp., sem hv. þm. beindi til mín, hvenær væntanleg væri skýrsla um endurmenntunarmálin, en með vísan til þess að að því væri starfað og að slík skýrsla yrði gefin var þessu máli vísað til ríkisstj. á liðnu þingi. Ég mun beita mér fyrir því og sjá svo um að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar fái svör bréflega, skriflega við þessari fsp. framsögumanns málsins.

Ég hef á þessu stigi máls ekkert fleira um þetta að segja. Þetta er ekki nýr kunningi í sölum hins háa Alþingis. Víst eru endurmenntunarmálin eitt það mikilvægasta sem við þurfum að taka til höndum í og lengi var það svo að á vegum fyrrverandi menntmrh. voru fluttir fram lagabálkar um fullorðinsfræðslu og endurmenntun. Ég hygg að það hafi verið í upphafi stjórnar 1971, nýrrar ríkisstjórnar, að skipað var fjölmennt ráð sem skyldi hafa með höndum tillögugerð og samningu frv. um fullorðinsfræðslu og endurmenntun, eins og það var orðað. Ýmsir þeir sem hér skal kveðja til voru tilnefningaraðilar að þeirri nefnd. Þessi nefnd setti saman frv. og ég hygg að það hafi verið flutt árið 1974, en náði ekki fram að ganga, og það muni hafa verið flutt á einum þremur öðrum þingum fram eftir öllum áttunda áratugnum, en náði aldrei fram að ganga.

Ég veiti því auðvitað athygli að hér er gert ráð fyrir að þetta heyri til friðar félmrh. og ég hef fyrir fram enga fordóma eða neikvæða afstöðu til þess. Ég finn til þess að það má mjög gjarnan gefa ýmsum fagráðuneytum meiri áhrif á ýmis kennslu- og menntunarmál en nú er gert. Ég hef áhuga á því til að mynda hvað varðar fiskvinnsluskóla að þar komi til skjalanna frekar áhrif og aðild fagráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytisins, í framtíðinni. Sömuleiðis hef ég áhuga á því vegna iðnfræðslunnar. Því er það að við tillögugerð þar sem þessum málum er komið fyrir undir hatti félmrn. hef ég ekkert að athuga fyrir fram.

Ég sé að hér er lagt til að stofna endurmenntunarsjóð sem skuli sjá fyrir þessum málum. Ég hef fyrir fram ekki trú á að það sé rétta aðferðin, en það er kannske von til að hv. þm. reyni að finna þessu eitthvað fast undir fætur eins og hefur gengið treglega að ná þessum miklu nauðsynjamálum fram til framkvæmda.

En ég endurtek að ég held að okkur sé hin mesta nauðsyn á endurmenntuninni og þá einnig og ekki síður fyrir kennarastétt okkar. Á hinni hraðfleygu stund sem við lifum og breytingatímum er þetta mjög mikilvægt mál og ég vona að í ljósi þeirrar skýrslu, sem ég mun beita mér fyrir að verði gefin svo fljótt sem kostur er um endurmenntunarmálin, getum við gert nýja aðsjón í málinu.