22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (4213)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Ég vil upplýsa hv. Alþingi um að byggingarnefnd Hallgrímskirkju er sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Með henni hefur unnið húsameistari ríkisins.

Í sóknarnefnd Hallgrímskirkju eru fjórar manneskjur, Helgi Eyjólfsson, Unnur Pálsdóttir, Helgi Ólafsson og Sigurbergur Árnason. Þetta fólk hefur lýst eindregnum vilja sínum til þess að þessi till. nái fram að ganga.

Hér skal einnig upplýst að umsagnir voru sendar m.a. byggingarnefnd Hallgrímskirkju. Formlega var hún aldrei tekin fyrir á fundi og þess vegna barst ekki umsögn, en formaður byggingarnefndar hefur komið á fund félmn.

Nefndinni hafa borist umsagnir frá öllum þeim aðilum sem aðild munu eiga að umræddri nefnd sem hér er lagt til að koma á legg. Hér er mjög jákvæð umsögn frá húsameistara ríkisins sem er framkvæmdaaðilinn við byggingu kirkjunnar. Ég held ég eyði ekki tíma þingsins á þessum allra síðustu dögum í að lesa þessar umsagnir, en það er óhætt að segja það ýkjulaust að þær eru jákvæðar.

Kirkjulistarnefnd segir hér t.d. í lok umsagnar: „Kirkjulistarnefnd styður því eindregið tillöguna.“ Bandalag ísl. listamanna styður till. eindregið og fagnar því að þetta mál skuli koma fyrir Alþingi. Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins tekur í sama streng og segir, með leyfi forseta:

„Að lokum vill stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins taka fram að hún er öldungis sammála flm. þáltill. um að listskreyting á Hallgrímskirkju í Reykjavík sé mikilsvert verkefni, listskreyting sem brýnt er að verði veglega og fagurlega af hendi leyst.“

Síðast en ekki síst hefur borist bréf frá biskupnum yfir Íslandi sem segir hér, með leyfi forseta, á einum stað: „Eins og nærri má geta er ég heils hugar fylgjandi því að till. þessi nái fram að ganga.“

Að lokum, herra forseti, til að fyrirbyggja allan misskilning: Þessi nefnd á á engan hátt að taka við byggingu kirkjunnar. Það munu sóknarnefndin og húsameistari áfram sjá um. Þetta er sérstakt afmarkað verkefni sem tekur við þegar kirkjubyggingunni er lokið sem verður nú í haust. Til stendur að vígja þetta mikla hús í október á þessu ári.

Þetta vildi ég einungis að kæmi fram svo menn væru ekki að tala um að byggingarnefnd væri andvíg þessari till.