22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4451 í B-deild Alþingistíðinda. (4219)

49. mál, könnun á launum og lífskjörum

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til athugunar till. til þál. um könnun á launum og lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum. Till. þessi er flutt af hv. 2. þm. Reykn. og 12. þm. Reykv. Nefndin hefur fjallað um þessa till. og leitað álits manna um efni hennar. Það er talið að framkvæmd till. þurfi ekki að kosta mikið fé. Allir nefndarmenn hafa orðið sammála um að leggja til að hún verði samþykkt með þessari breytingu, þ.e. að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á því hvort og að hvaða leyti laun og lífskjör eru lakari á Íslandi en í nálægum löndum og hverjar séu orsakir þess. Við framkvæmd könnunarinnar verði haft samráð við rannsóknastofnanir Háskóla Íslands.

Niðurstöður könnunarinnar skulu lagðar fyrir Alþingi á næsta reglulegu þingi.“

Þá hefur nefndin einnig rætt um till. til þál. um úttekt á aðstæðum barna að 12 ára aldri. Sú till. er 8. mál þingsins og flutt af hv. 1. landsk. þm. og fleirum. Telur nefndin rétt að það mál komi einnig til athugunar við slíka könnun ef samþykkt verður. Allir nefndarmenn hafa staðfest þessa niðurstöðu með undirskrift sinni.