22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4453 í B-deild Alþingistíðinda. (4225)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hlýt enn að leiðrétta. Það kemur mér meira en á óvart að heyra þessi nýju viðhorf hæstv. iðnrh. en það kann að vera að rangar upplýsingar hafi skipt þar sköpum. Áður en þessi till. var samin fór ég að sjálfsögðu upp í Hallgrímskirkju, óskaði eftir að ræða við presta kirkjunnar og formann byggingarnefndar, Hermann Þorsteinsson. Ég held mér sé óhætt að segja að mér hafi verið tekið með kostum og kynjum og allir þessir þrír aðilar sýndu áhuga sinn, þakklæti og jafnvel undrun að Alþingi skyldi sýna þessari miklu byggingu áhuga. Síðan þegar till. hafði verið samin var hún að sjálfsögðu send safnaðarstjórn sem er það sama og byggingarnefnd, formanni hennar, báðum klerkum kirkjunnar og síðast en ekki síst kirkjuþingi. Allir þessir aðilar lýstu áhuga sínum og þakklæti fyrir tillöguna. Þetta var samflutningsmönnum mínum, sem eru hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, Stefán Benediktsson, Haraldur Ólafsson, Svavar Gestsson og Skúli Alexandersson, fullljóst. Það er því alrangt að meðal safnaðarfólks í Hallgrímskirkju sé nokkur minnsta óánægja eða misklíð vegna till. Hafi menn lagt það á sig að lesa grg. með þessari till. til þál., þar sem er í fyrsta lagi rakin byggingarsaga kirkjunnar, þá margkemur þar fram aðdáun á söfnuðinum sem hefur bókstaflega einn og sjálfur reist þetta hús, sem er ótrúlegt. Vissulega ber að þakka, og það er söfnuðinum vel kunnugt, að borgarstjórn Reykjavíkur hefur á síðustu árum aukið fjárstuðning sinn við kirkjuna, svo og Alþingi.

Á aðventukvöldi í kirkjunni fyrir síðustu jól var einmitt þetta gert að umræðuefni og þeim aðilum sem sýnt hafa stuðning við kirkjuna, sem er heilög þrenning, Davíð Oddsson, hæstv. iðnrh. og ég, beðið allrar blessunar fyrir að sýna þessu guðshúsi þann áhuga. Ég held þess vegna að það komi til með að vekja ólitla undrun í Hallgrímssöfnuði ef það spyrst út að hæstv. iðnrh. ætli að setja fótinn fyrir þessa till. Ég er alveg sannfærð um að það orð fer ekki af honum þar. Ég vil þess vegna biðja menn að gæta svolítið að sér áður en þeir fara að taka róttækar ákvarðanir. Það er búið að vinna í þessu máli í samráði við alla aðila. Hefði nú hæstv. heilbr.- og trmrh. viljað kynna sér það mál, því mér skilst að hún hafi ekki setið þingflokksfundi þar sem þetta mál hefur verið rætt í hennar flokki, er ekki mikið verk að taka upp síma og ræða við klerka kirkjunnar og þá aðra aðila sem nálægt þessu hafa komið.

Ég vil einnig minna menn á að á s.l. vetri vaknaði upp áhugi á, ekki kannske síst vegna þessarar fram komnu till., að efna til söfnunar til að kaupa veglegt kirkjuorgel því eins og gefur að skilja þarf stórt hljóðfæri í þessa miklu kirkju. Ég veit ekki hversu margir hv. þm. hafa komið í kirkjuna en ég held að menn ættu e.t.v. að gera það einhvern tímann því að það satt að segja vekur manni undrun hversu ótrúlega stór bygging þetta er. Við hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og ég tókum enn og aftur þátt í að koma þeirri söfnun á laggirnar og nú þegar liggja þar, ég þori að segja á þriðju millj. kr. sem þúsundir Reykvíkinga og reyndar töluvert af fólki utan Reykjavíkur sendi kirkjunni.

Þetta vildi ég einungis upplýsa og jafnframt ítreka enn og aftur að það stendur ekki til að þessi nefnd blandi sér á nokkurn hátt í það verkefni að ljúka byggingu kirkjunnar. - Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma lengur en ég hlýt að upplýsa hverjir eiga að taka sæti í nefndinni sem hæstv. kirkjumálaráðherra mundi skipa. Gert er ráð fyrir að hann skipi einn mann, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar, hæstv. menntmrh. einn, biskup Íslands einn, húsameistari ríkisins einn, byggingarnefnd Hallgrímskirkju einn, Félag ísl. myndlistarmanna einn og kirkjulistarnefnd einn. Ég sé ekki að þarna sé farið aftan að nokkrum þeim aðila sem nálægt kirkjubyggingunni hefur komið og þetta mál hefur verið borið undir alla þessa aðila þannig að það er satt að segja ótrúlegt ef, ég vil segja kviksögur, sem upp rísa á afgreiðslustigi samkomulagsmáls, verða til þess að stöðva þetta mál hér á hinu háa Alþingi. Ég vil gerast svo hátíðleg, enda er um hátíðlegt mál að ræða, að biðja hv. þm. að sýna þá reisn og drengskap að láta ekki svo óáreiðanlegar heimildir hafa áhrif á afgreiðslu máls sem þessa sem ætti ekki að vera pólitískur ásteytingarsteinn á hinu háa Alþingi.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.