22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (4226)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagðist ekki skilja hvers vegna þessi till. væri fram komin. Hv. 1. flm. till., Guðrún Helgadóttir, hefur reynt að upplýsa um tilurð till. Nefnd þingsins hefur haft þetta mál til meðferðar og lagt fram brtt. við upphaflegu till. Ég ætla mér ekki að reyna sérstaklega að hafa áhrif á afstöðu hæstv. ráðherra og læt mér í sjálfu sér í léttu rúmi liggja hvort þeir taka tillit til þess sem nefndarmenn og aðrir reyna að semja um til að greiða fyrir afgreiðslu þingmála á síðustu stundum þingsins. Ég vona hins vegar að menn fari ekki að gera þetta mál að einhverju sérstöku stórmáli á allra síðustu dögum þingsins. Ég vona að hv. alþm. felli till. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur mælt fyrir en samþykki tillögu nefndarinnar.