22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (4230)

22. mál, listskreyting í Hallgrímskirkju

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það sem ég hef sagt hér um skoðun formanns byggingarnefndar Hallgrímskirkju er satt og rétt og aðeins það sem formaður hv. félmn. hefur sagt nefndinni allri. Og það kalla ég ekki ósannindi eða óáreiðanlegar heimildir. Í framhaldi af því að formaður nefndarinnar kynnti þessa afstöðu formanns byggingarnefndar þá var kallað á formann byggingarnefndar á fund nefndarinnar. Í máli hans kom fram að það hefði verið mjög erfitt fyrir byggingarnefnd og þá aðila að veita umsögn sem í rauninni væri neikvæð. En það hefur verið rætt hér um tilurð till. Upphaflega var þetta spurning um peninga, um verulega peninga og það var það atriði sem menn fögnuðu í þessu máli. Síðan fjöruðu peningarnir út og úr varð till. sem átti að ganga inn á verksvið byggingarnefndar. Og það er líklega þess vegna sem niðurstaðan kemur í málinu, eftir að formaður byggingarnefndar hefur talað við hæstv. kirkjumrh., áður en hann kom á fund hv. formanns félmn. og kynnti honum sömu afstöðu. Það er þessi ófriður sem ég hef lagt áherslu á að kæmi hér fram því mér finnst það skipta miklu máli í þessu stóra máli sem kirkjubygging Hallgrímskirkju er.

Hér hefur einnig verið rætt um að hér eigi einungis að fjalla um listskreytingu. Hvar eru mörkin á listskreytingu? Núv. byggingarnefnd er að vinna verk sem er listskreyting. Hún er að vinna verk sem er gluggaskreyting kirkjunnar og hefur leitað til eins hæfasta listamanns þjóðarinnar á því sviði. Listskreyting er líklega orgelval í kirkjuna. Þannig að margir þættir tengjast þarna órofa byggingunni sjálfri. Og að gera greinarmun á listskreytingu og kirkjubyggingu, það er erfitt að slá slíku fram í stuttu máli eins og hér hefur verið reynt. Byggingarnefnd hefur reynt held ég að vinna þetta í heild. (Forseti hringir.)

Ég vil ljúka máli mínu með því að vekja athygli á því aftur að ég spurði í lok fundarins, þar sem prestarnir voru og formaður byggingarnefndar, hvort það væri rétt skilið að prestarnir sæju tvennt í þessari tillögu, annars vegar góðan hug, hins vegar peningavon. Þeir kváðu það rétt vera. En að meta slíka tillögu til peninga finnst mér hæpið og ég undirstrika það.

Hv. 10. landsk. þm. lauk máli sínu með því að segja að þm. ættu að sýna reisn og drengskap og taka ekki mark á óáreiðanlegum heimildum. Ef það er reisn og drengskapur að keyra yfir skoðun talsmanns byggingarnefndar sem hefur lagt líf sitt í þetta verk þá hefði ég ekki geð í mér til þess.