22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4466 í B-deild Alþingistíðinda. (4236)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég svara hér beiðni um skýrslu til sjútvrh. um aldur, stærð, uppbyggingu og endurnýjun fiskiskipastólsins frá Skúla Alexanderssyni o.fl. Beiðni þessi er í nokkrum liðum.

Í fyrsta lagi er spurt um aldur íslenska fiskiskipastólsins eftir stærð og gerð o.s.frv. Því er svarað eftir bestu getu af Fiskifélagi Íslands, tæknideild, í alllangri skýrslu sem ég vænti að gefi góða mynd af ástandi íslenska fiskiskipaflotans.

Þar kemur vissulega fram að íslenski fiskiskipaflotinn er orðinn allgamall. Hins vegar gefur árafjöldinn ekki rétta mynd í þessu sambandi vegna þess að mikið af skipunum hefur verið endurnýjað og ný tæki keypt í skipin. Eru mörg þeirra í reynd afkastameiri í dag en þau voru þegar skipin voru ný, jafnvel þótt þau séu orðin kannske 10, 15, 20 ára. Tækninni hefur fleygt ótrúlega hratt fram og þessi skip hafa getað tekið hana í notkun þrátt fyrir að þau séu orðin nokkuð gömul.

Það er oft talað um að vegna þessa háa aldurs verði að endurnýja íslenska fiskiskipaflotann mjög hratt. Að mínu mati væri það vissulega mjög æskilegt. Hér er hins vegar um fjárhagslegt atriði að ræða. Endurnýjun fiskiskipaflotans getur því aðeins átt sér stað að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir rekstri hans.

Einnig er spurt um breytingar á fiskiskipum, flutning á skipum milli útgerðarstaða og úreldingu og einnig hver flutningur á aflamarki var milli útgerðarstaða sem tengist framannefndum þáttum. Í fylgiskjali með þessu svari er reynt að gera grein fyrir því hvaða bátar hafa annars vegar verið keyptir til viðkomandi staða og seldir þaðan. Hins vegar er mjög erfitt að gefa fullnægjandi mynd af því hvaða aflarétt viðkomandi skip hafa vegna þess að þau hafa getað valið á milli mismunandi réttinda. Einnig hafa þau ýmis sérréttindi, eins og síldveiðar, humar o.s.frv. Hér er því aðeins tekinn þorskur og reynt með því að gefa vísbendingu um þær breytingar sem hafa átt sér stað. Þar er alls ekki um fullnægjandi upptalningu að ræða, enda erfitt að miða við ákveðið ár. Aflaréttindin hafa breyst og við flutning á milli staða geta aflaréttindi skipanna einnig breyst, t.d. vegna þess að þau flytjast á milli svæða.

Ég vænti þess að þessi upptalning gefi nokkra vísbendingu, en hitt er svo annað mál að það geta vissulega verið einhverjar minni háttar villur. T.d. var það svo um s.l. áramót að togarar þeir sem Fiskveiðasjóður hafði eignast voru skráðir í eigu hans og ekki á viðkomandi stöðum, en reynt er að geta þeirra atriða m.a., enda skipta þau verulegu máli, og annarra atriða sem skipta verulegu í sambandi við mat á þessu máli.

Í þriðja lagi er spurt um áform stjórnvalda um aðgerðir til uppbyggingar og endurnýjunar skipastólsins á næstu árum og hvaða hlutdeild íslenskum skipasmíðastöðvum er þar ætluð. Það er nú svo að áform stjórnvalda í þessu sambandi eru ekki aðalatriði heldur áform þeirra sem atvinnuveginn stunda. Stjórnvöld hljóta hins vegar að setja reglur um með hvaða hætti endurnýjun getur átt sér stað. Jafnvel þótt það séu áform stjórnvalda að halda stærð skipastólsins í skefjum er einnig ljóst að með langri stöðvun er hætt við því að við drögumst nokkuð aftur úr að því er varðar tækninýjungar á sviði fiskveiða. Þess vegna hlýtur að vera markmið að stöðug endurnýjun geti átt sér stað þannig að hún sé bæði hófleg og jöfn og það sé reynt að komast hjá því að flotinn sé endurnýjaður í stórum stökkum.

Hins vegar er það svo að fiskiskipastóllinn hefur verið of stór, að mínu mati, og er mun erfiðara að framfylgja slíkri stefnu þegar reglur um fiskveiðar ganga að miklu leyti út á það að takmarka veiðar skipanna og stöðva þau í ákveðinn dagafjölda á ári. Slíkt hlýtur að verka hamlandi á æskilegar reglur um endurnýjun flotans.

Þessu fylgir sem fskj. III reglugerð sú sem sjútvrn. hefur nýlega gefið út og jafnframt þessari reglugerð var útbúið bréf í samvinnu Fiskveiðasjóðs Íslands og ráðuneytisins, en endanlega var gengið þannig frá því að það væri bréf Fiskveiðasjóðs Íslands til sjútvrn. Um þetta mál var fjallað alllengi, en niðurstaðan kemur hér fram. Þar eru settar fram ákveðnar reglur um með hvaða hætti nýsmíði getur átt sér stað í stað skipa sem strikuð eru út af skipaskrá. Skal ég ekki rekja það frekar hér. En þetta kemur mjög skýrt fram í fskj. IV. Einnig er í 2. lið í sama fskj. fjallað um endurbætur á fiskiskipum.

Sem fskj. V fylgir tillaga að ríkisstjórnarsamþykkt sem ég lagði fram samhliða þeirri umræðu sem átti sér stað um lánareglur annarra aðila, þ.e. lánareglur langlánanefndar og annarra opinberra sjóða. Þessi tillaga var ekki endanlega afgreidd. Hins vegar er gert ráð fyrir að lánveitingar banka og langlánanefndar séu í samræmi við það sem þar kemur fram og vænti ég þess að viðskiptabankarnir, sérstaklega ríkisviðskiptabankarnir, muni starfa í samræmi við það.

Herra forseti. Ég gæti að sjálfsögðu haft um þetta mál mun lengri ræðu og væri full ástæða til þess, en þar sem hér er verið að reyna að stytta umræður vænti ég þess að ég geti að öðru leyti vísað til þeirrar skýrslu sem hér er flutt. Ef eitthvað er sem ég hef ekki tekið fram hér í upphafi vænti ég þess að geta bætt úr því síðar við þessa umræðu.