22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4472 í B-deild Alþingistíðinda. (4239)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins út af því sem síðast kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni: Sú beiðni um skýrslu, sem hann gerði að umtalsefni nú síðast og ég skrifaði hæstv. forseta bréf út af, hefur verið til athugunar í ráðuneytinu. Það er satt best að segja ekki auðvelt mál að svara þeirri beiðni og ég hef getið þess þar að það sé nánast útilokað í allmörgum atriðum nema með mjög mikilli athugun og rannsókn á nánast hverjum einasta stað í landinu.

Þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi beiðni hefur verið leyfð í Sþ. er þess að gæta að hingað til hafa slíkar beiðnir um skýrslur beinst að ákveðnum opinberum málum eins og um Útvegsbankann, fiskiskipaflotann, Kröflu o.s.frv. Ég held að það hafi aldrei gerst að beðið hafi verið um skýrslu um svo almennt mál eins og þar kemur fram, um nánast öll sjávarútvegsmál, þannig að ég vænti þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson muni yfirfara þessa beiðni að nýju og athuga hvort ekki megi þar einhverju breyta og flytja hana að nýju á næsta þingi. Jafnvel þótt við í sjútvrn. reynum að huga að henni í millitíðinni tel ég að hún sé þess eðlis að það sé nauðsynlegt að flytja hana að nýju.

Ég vona að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skilji mig ekki þannig að ekki sé fullur vilji fyrir því að reyna að upplýsa öll þau atriði sem að gagni megi koma í íslenskum sjávarútvegi. Menn verða hins vegar að gera sér það ljóst að okkar ráðuneyti eru fámenn og fjárveitingar til þeirra takmarkaðar. Það kostar allmikið fé að svara öllum þeim beiðnum sem berast þangað frá þinginu. En að sjálfsögðu verður að sinna þeim. En það getur líka farið út í öfgar.

Út af því sem fram hefur komið um fjárfestingarstefnu í sjávarútvegi er þar um mjög mikilvægt mál að ræða, ekki aðeins að því er varðar sjávarútveginn sjálfan heldur einnig kjörin í landinu. Það er ávallt verið að fara þess á leit við íslenskan sjávarútveg að hann greiði meira til þeirra sem búa í þessu landi og til þess að hann geti gert það verður að fjárfesta með skynsamlegum hætti. Og jafnvel þótt menn hafi áhuga fyrir því að eiga ný og falleg skip kemur alltaf sá vandi hvað eigi að gera við gömlu skipin. Hér áður fyrr var það lítið vandamál því það voru alltaf einhverjir til að kaupa þau. En nú er hins vegar nánast útilokað að selja þau til annarra landa eða finna verkefni fyrir þau þar þó að það sé ekki algjörlega útilokað. M.a. í þeim tilgangi hefur nýlega verið stofnað fyrirtæki sem á að reyna að leita að möguleikum fyrir íslenskan sjávarútveg á erlendum vettvangi. Ég er fullviss um það að í því hefur allt of lítið verið gert og þar eru ýmsir möguleikar sem við höfum ekki notað okkur. En við höfum m.a. ekki notað okkur þá möguleika vegna þess að menn hafa haft trú á því að hér væru ótæmandi auðlindir á okkar hafsvæði og það væri engin ástæða til þess að leita að öðrum tækifærum. Þetta er hættulegt og mönnum hefur ekki verið beint nóg að öðrum hlutum.

Þær breytingar sem hér koma fram, þ.e. að því er varðar flutning á milli staða, birtast m.a. í því að allmikið er af skipum sem flytjast til Norðurlands, nokkuð til Vestfjarða, m.a. vegna þess að rækjuveiðar hafa farið vaxandi og fleiri og fleiri skip hafa sinnt þeim veiðum. Það eru oft og tíðum skip sem stunduðu síldveiðar hér áður fyrr fyrir Norðurlandi, voru flutt til annarra landshluta vegna þess að möguleikar voru ekki fyrir þau þar. Þetta er sú breyting sem aðallega kemur fram á þessum listum þó að þar séu vissulega margar undantekningar.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég skildi ekki alveg það sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði um kraftasókn. Ég man ekki betur en hann hafi sagt það fyrir stuttu síðan að það væru allt of mörg skip bundin við Breiðafjörð og þau eru a.m.k. ekki í neinni kraftasókn meðan þau eru bundin við bryggju. Ég sé því ekki alveg hvernig hv. þm. kemur því heim og saman, sem hann sagði áðan, að vegna þess að menn fá ekki að kaupa ný og dýr skip sé verið að halda uppi allt of mikilli sókn á þeim gömlu. Dettur nokkrum manni í hug að aðilar sem kaupa dýrt og fullkomið skip muni ekki halda því út til veiða af öllum þeim krafti og mætti sem menn geta? Ætla menn að aðilarnir sem eru að kaupa dýr skip hjá Slippstöðinni á Akureyri og uppi á Akranesi muni liggja mikið í landi ef þeir ætla sér að standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið að sér? Þar eru falleg skip og vel búin að fara af stað síðari hluta þessa árs. Þau kosta tæpar 900 millj. kr., þessi fjögur skip eða 850-860 millj. kr.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, ef velja mætti hvað ætti að gera við 850-900 millj. kr. í íslenskum sjávarútvegi í dag, hvar ætti að nýta það fjármagn. Við þurfum ekki fyrst og fremst á því fjármagni að halda í fiskiskipum. Við þurfum hins vegar á öllu þessu fjármagni að halda í íslenskum fiskiðnaði til að ráða fram úr þeim margvíslegu erfiðleikum sem eru þar. Það getur vel farið svo að ýmis fyrirtæki muni þar standa frammi fyrir stöðvun eins og oft áður vegna skorts á fjármagni, vegna skorts á tækni og nýjum vélum. En þegar þannig er staðið að málum að ekki er fjárfest á réttum stöðum - og þetta á að sjálfsögðu ekki bara við sjávarútveginn, þetta á við atvinnustarfsemina í heild - hafa menn oft og tíðum ekki það fjármagn sem til þarf til að hafa hlutina í lagi.

Um þetta mætti vissulega hafa langt mál en tími er takmarkaður. En ég vænti þess að þær upplýsingar sem hafa komið fram geti orðið til þess að einhver frekari umræða verði um málið þannig að upplýsingar þessar komist sem best á framfæri.