11.11.1985
Neðri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

59. mál, orka fallvatna

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga, sem er á þskj. 61, um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum nr. 15/1923. Flm. ásamt mér að þessu frv. eru hv. þm. Guðmundur Einarsson. Kristín Halldórsdóttir og Kjartan Jóhannsson.

Frv. þetta hefur tvívegis verið flutt hér í hv. þingdeild. Fyrst mælti ég fyrir því 28. mars 1984 í allítarlegu máli og síðan 24. október sama ár að það var endurflutt. Þá komst málið einnig til nefndar, en hlaut ekki afgreiðslu frá nefnd. Hér mæli ég fyrir þessu máli hið þriðja sinn.

Ég ætla því að hafa fá orð um þetta annars stóra mál, aðeins að rifja það upp að skv. frv. er lagt til að lögfestar verði almennar reglur um eignarrétt að orku fallvatna landsins og nýtingu hennar.

Skv. frv. er kveðið á um að orka fallvatna sé eign ríkisins sem eitt hafi heimild til að nýta hana. Frá þessari meginreglu eru þó gerðar undantekningar, sem snúa að virkjunarréttindum, og koma þær undanþágur fram í 2. gr. frv. Meginatriði í því sambandi er að kveðið er á um að réttur landeigenda haldist til virkjunar allt að 200 kw. Þeir sem hafa þegar nýtt heimildir til virkjunar á fallvatni halda þeim rétti, sem sjálfsagt má telja, og þeir sem hafa hafið framkvæmdir við slíkt verk. Einnig er þeim sem veittar hafa verið virkjunarheimildir gefinn tíu ára aðlögunarfrestur til að nýta sér þær. Það kemur því fram mikill sveigjanleiki í þessu frv. gagnvart þeim sem þegar hafa fengið heimildir til virkjunar.

Í frv. er einnig kveðið á um skilyrði sem nauðsynleg þykja til þess að ráðherra geti veitt leyfi til virkjunar fallvatna, m.a. varðandi uppgræðslu lands vegna gróðurspjalla sem hljótast af virkjunarframkvæmdum og að áður en virkjunarleyfi er veitt verði leitað umsagnar Náttúruverndarráðs.

Þetta mál var upphaflega undirbúið í nefnd sem skipuð var af iðnrh. árið 1979, í aprílmánuði. Nefndin varð ekki sammála. Einn nm. af fimm skilaði minnihlutaáliti. Frv. eins og það kemur hér fram og meginefni grg. er álit fjögurra manna sem sátu í þessari nefnd, en minni hlutinn, Páll Pétursson, hv. 2. þm. Norðurl. v., var á öðru máli og skilaði séráliti. Er álit hans og grg. ásamt lögfræðilegu áliti birt með frv. til að öllu sé til haga haldið um þetta efni.

Við flm. þessa frv. berum hér fram þá stefnu og tökum undir þá stefnu að náttúruauðlind eins og orku landsins beri að lýsa sameign þjóðarinnar og er það raunar stefna sem fram kemur í fleiri þingmálum sem liggja fyrir hv. Nd., m.a. í frv. til laga um jarðhitaréttindi sem ég mælti nýlega fyrir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð í framsögu að þessu sinni. Ég vænti þess sannarlega að hv. þingdeild og sú þingnefnd sem fær þetta mál nú til meðferðar sjái sóma sinn í því, svo ég kveði þó það fast að orði, að taka á þessu máli og tryggja að það komi til hv. þingdeildar til afgreiðslu. Það gildir um þetta sem önnur mál af sama toga, sem liggja fyrir hv. þingdeild og sem væntanlega ganga til nefndar, að það er brýnt að á þeim verði tekið. Þau hafa allt of lengi legið hjá garði hjá löggjafanum.

Ég hef komið því á framfæri við formenn þingflokka að athugað verði að kosin verði sérstök nefnd, svokölluð sérnefnd skv. 15. gr. þingskapa, sem hafi það verkefni að fjalla um og skila áliti um mál eins og þetta, mál sem varða eignar- og umráðarétt auðlinda og landsvæða eða hafsbotns innan íslenskrar lögsögu. Mun það vera þriðja mál hér á dagskrá. En mér er ekki kunnugt um að þingflokkar hafi tekið afstöðu til málsins enn þannig að það er til athugunar. Ég teldi það vera skynsamlega málsmeðferð varðandi þessi þingmál, sem varða nefnd efni, að um þau verði fjallað alveg sérstaklega, og þá meiri von til þess að á þeim verði tekið eins og nauðsyn ber til.

Ég legg því til að þetta mál fari til slíkrar nefndar, en tel raunar nauðsynlegt að málin verði í öllu falli samferða í sambandi við nefndavinnu á vegum hv. þingdeildar.