22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (4242)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af því máli sem hæstv. sjútvrh. gerði hér athugasemdir við, þ.e. skýrslubeiðni varðandi úrvinnslu sjávarafla, útflutning á ferskfiski og fjárfestingar í sjávarútvegi á þskj. 647, að ég bað hér aftur um orðið.

Þessi beiðni var hér lögð fram fyrir rúmlega mánuði síðan, þann 19. mars s.l., og var samþykkt í sameinuðu þingi. Þó að hún sé í allmörgum liðum og varði mörg atriði og mikilvæg hefði ég talið að einu ráðuneyti væri ekki ofætlan að veita þar a.m.k. nokkra úrlausn á þeim vikum sem síðan eru liðnar. Mér finnst heldur lítið vera gert með óskir héðan frá Alþingi ef ekki er raunverulegur vilji á því hjá framkvæmdavaldinu að leysa úr óskum um upplýsingar, svipað og þarna er beðið um, með eðlilegum hætti.

Ég get vel skilið að það taki tíma að verða við beiðnum af þessu tagi. Það getur tekið meiri tíma en liðinn er frá því að þessi ósk var fram borin og ég hef fullan skilning á því og treysti því að úr því verði bætt. En við höfum sem sagt engin svör fengið við þeirri beiðni um upplýsingar sem þarna var framreidd. Þess vegna ítrekaði ég þetta að hæstv. ráðherra sæi til þess að sameinað þing fengi skýrslu um þetta efni án þess að til sérstakrar nýrrar beiðni kæmi. Ég veit að það hefur ítrekað verið minnt á þessa beiðni af hálfu hæstv. forseta og málið verið rætt núna fyrir þinglokin milli formanna þingflokka. Ég taldi að það væri skilningur á því að úrlausn fengist í upphafi næsta þings fyrst hæstv. ráðherra sá sér ekki fært að veita þarna svör.

Ég ætla svo ekki að fara að ræða þetta efnislega. Ég vil aðeins benda á að hér er verið að spyrja um hin mikilsverðustu mál, upplýsingar sem ættu að liggja fyrir tiltölulega auðveldlega, flestar hverjar, og eru undirstaða þess að geta metið þjóðhagslega hagkvæmni frekari fjárfestinga og varðandi fleiri áherslur sem miklu skipta um stefnuna í sjávarútvegsmálum. Ég tel því að hér sé ekki um að ræða efni sem skipti bara þm. máli og þá sem áhuga hafa á þessum efnum, heldur raunverulega framkvæmdavaldið ekki síður, það þurfi að hafa aðgang að slíkum upplýsingum til þess að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir.

Ég er ekki að gera því skóna að það sé ágreiningur milli mín og hæstv. ráðherra í þessu og ég vænti þess að hann sjái sér fært með aðstoð síns ráðuneytis og opinberra stofnana ýmissa, eins og Þjóðhagsstofnunar o.fl., að fá þær upplýsingar sem þarna er um beðið og reiða þær fram með eðlilegum hætti. Ég er alveg reiðubúinn til að ræða einstök atriði við hæstv. ráðherra frekar á milli þinga ef það mætti verða til að greiða fyrir málinu.