22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (4243)

330. mál, endurnýjun fiskiskipastólsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þegar þessi beiðni um skýrslu var hér fram lögð var ég því miður fjarverandi. Að vísu barst hún að sjálfsögðu strax til míns ráðuneytis en hér er um mjög ítarlega fsp. að ræða og það er miklum erfiðleikum bundið að svara ýmsu sem þar er spurt um. Ég nefni sem dæmi í 7. lið: „Hvernig er háttað nýtingu fiskvinnslustöðva í einstökum sjávarplássum og yfir landið í heild flokkað eftir verkunaraðferðum?" Og 8. liður: „Ef nýting vinnslustöðva sbr. 7. tölul. er ábótavant, hverjar eru orsakir þess?" Hráefnisskortur, skortur á vinnuafli o.s.frv. Það er nánast ekki hægt að svara slíkum spurningum nema með mjög ítarlegri athugun alls staðar um land.

Ég vil því biðja hv. þm. að taka þessa beiðni til endurskoðunar og flytja hana aftur í upphafi næsta þings, enda hef ég skilið það svo og ég vænti þess að það sé réttur skilningur minn á þingsköpum, að öll þau mál, sem ekki eru afgreidd með einhverjum hætti á þingi, falla niður og verður að upphefja á nýjan leik í upphafi næsta þings. Það er a.m.k. sá skilningur sem ég hef ávallt haft á þingsköpum.

Þar að auki verð ég að endurtaka þann skilning minn að ég hef skilið þingsköp þannig að beiðni um skýrslu ætti að fjalla um afmarkað opinbert málefni, eins og ég sagði áðan, en ekki almenna stefnu eins og hér er á vissan hátt verið að biðja um. Slíkt hlýtur að koma fram af hálfu ríkisstj. í stefnuræðu forsrh. og umræðum um hana.

Hér er vissulega um atriði að ræða sem er þarft að taka til skoðunar. En ég tek undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að að sjálfsögðu ber að sjá til þess að hægt sé að gefa þinginu allar þær upplýsingar sem það þarf að fá. En þá verður einnig að búa þannig að framkvæmdavaldinu að það geti sinnt því ásamt öðrum stjórnunarstörfum sem eru ekki svo lítil. Það er ekkert lítið fyrir 15 manna ráðuneyti eins og sjútvrn. að stýra þeim málum sem á það er lagt, þar á meðal stjórnun allra fiskveiða við Ísland. Þar er því ekki margt fólk til húsa til að takast á við þau verkefni sem liggja til úrlausnar á hverjum einasta degi.