22.04.1986
Efri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (4249)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, sbr. lög nr. 77/ 1985, þskj. 1052, 442. mál Nd.

Eins og hv. alþm. vita voru gerðir nýir kjarasamningar, samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar um nýjar leiðir í kjaramálum, sem marka vissulega tímamót í efnahagsmálum á Íslandi. Horfið var frá hefðbundnum aðferðum sem ávallt hafa mistekist eða oftast. Ákveðin var niðurtalningarleið sem þýðir lækkun verðlags, tilkostnaðar á öllum sviðum, lækkun gjalda, lækkun vöruverðs og þjónustu, lækkun fjármagnskostnaðar, þar með taldir vextir, stöðugt gengi sem gefur vonir um hækkandi kaupmátt. Og áhrifin láta ekki á sér standa. Verðbólgan lækkar og áætlað er að í árslok verði hún jafnvel komin niður í 6%.

Ég tel ástæðu til í byrjun þessa máls að fagna sérstaklega þessum kjarasamningum, ekki síst kaflanum um húsnæðismál sem felur í sér stóraukið framlag lífeyrissjóða til byggingarsjóða ríkisins. Ég hef áður sem félmrh. marglýst því yfir og lagt áherslu á nauðsyn þess að aukið fjármagn frá lífeyrissjóðunum komi til að fjármagna húsnæðiskerfið. Þess vegna fagna ég þessari ákvörðun í samkomulaginu alveg sérstaklega.

Ríkisstj. fylgdist vandlega með þessum hugmyndum aðila vinnumarkaðarins um breytingu á húsnæðismálum og var viðbúin að taka afstöðu í málinu. Í bréfi ríkisstj. til samningsaðila 27. febrúar s.l. gaf ríkisstj. eftirfarandi yfirlýsingu um húsnæðismál:

„Ríkisstjórnin fellst á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram hafa komið í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál og er reiðubúin til þess að athuga þær vandlega í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega útgjöld ríkisins í þessu sambandi. Ríkisstj. er reiðubúin að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um húsnæðismál í samræmi við niðurstöður þessarar nefndar.“

Á grundvelli þessarar yfirlýsingar var skipuð sérstök nefnd sem samdi frv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil sérstaklega fagna því að samstaða tókst á hv. Alþingi milli félmn. beggja deilda sem störfuðu saman að athugun á frv. og vísa ég til nál. á þskj. 1017 og till. félmn. Nd. á þskj. 1018 sem hv. Nd. samþykkti við afgreiðslu málsins.

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á fskj. sem fylgdi þessu nál. sem var tekið saman af Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar er samanburður á lánum skv. gildandi lögum og breytingar skv. þessu frv. á öllum lánaflokkum húsnæðisútlána.

Þær breytingar sem félmn. Nd. eða meiri hl. hennar gerði voru fyrst og fremst lagfæringar á augljósum atriðum sem þurfti að leiðrétta í sambandi við lánsrétt o.fl. og eins að laga stöðu vissra útlánaflokka. Aðalbreytingin var sú að það var bætt við fulltrúa frá atvinnurekendum eða VSÍ í stjórn Húsnæðisstofnunarinnar.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, að fara að tefja Ed. á því að lesa þessar brtt. upp. Þær skýra sig sjálfar og eru sjálfsagt í þskj. sem hv. þm. hafa undir höndum.

Ég lýsti því yfir við 1. umr. málsins í Nd. að frv. þetta væri fyrst og fremst sniðið eftir samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og nefnd ríkisstj., sem samdi frv., hafi einskorðað sig við samkomulagið sem slíkt. Ég lýsti því einnig yfir að milliþinganefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka, sem ég skipaði formlega 1985, ætti að starfa áfram að mótun húsnæðisstefnu til framtíðar skv. erindisbréfinu. En nefndin sem samdi þetta frv. hafði samráð við milliþinganefnd um samkomulagið og þessa frumvarpsgerð.

Eins og áður segir mun þessi milliþinganefnd starfa formlega áfram og henni er ætlað að leggja fram tillögur fyrir næsta þing. Hjá nefndinni liggja margar hugmyndir og tillögur allra stjórnmálaflokkanna og margar fleiri. Í nál. félmn. Nd. er henni ætlað að athuga viss atriði sem hafa komið upp í meðferð þessa máls í félmn. Alþingis. Þess er sérstaklega getið í þessu ítarlega nál. sem ég gat um áðan og báðar félmn. þingsins standa að.

Varðandi aðra þætti samkomulagsins er rétt að taka fram að ráðgjafarstofnun Húsnæðisstofnunar ríkisins vinnur ötullega að því að leysa úr greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar eins og samkomulagið gerði ráð fyrir. Stofnunin hefur til umráða um 500 millj. kr. og hafa þegar verið veitt lán til 400 aðila að upphæð tæplega 100 millj. kr. Þar eru veitt lán allt að 400 þús. kr. til 31 árs. Það var samið við bankakerfið fyrr í vetur um skuldbreytingalán til átta ára og standa nú yfir formlegir samningar um að lengja slíka fyrirgreiðslu í tíu ár eins og samkomulagið gerði ráð fyrir.

Húsnæðisstofnun vinnur að könnun á þörf fyrir byggingu leiguíbúða í landinu öllu sem hægt verður að byggja áætlun á fyrir lánsfjáráætlun og fjárlög 1987.

Þá er ríkisskipaða nefndin að vinna áfram að ákvæði um húsnæðisafslátt eins og er í samkomulaginu og er gert ráð fyrir að fljótlega liggi fyrir tillögur um hugmyndir nefndarinnar og útfærslu á því atriði til að útfæra það nánar því um það þarf lagabreytingu að sjálfsögðu næsta haust.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka langan tíma.

Ég vil draga saman í lokin að sú breyting sem hér er fyrst og fremst gerð í húsnæðiskerfinu á þessu stigi máls er hin gífurlega hækkun á fjármagni vegna aukins framlags lífeyrissjóðanna sem þýðir stórhækkun lána. Húsnæðislánin hækka sérstaklega til þeirra sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Lánin geta orðið fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð: Ný íbúð allt að 2 millj. og 100 þús. kr. og notuð íbúð allt að 1 millj. 470 þús. kr. og lánstíminn er lengdur í 40 ár. Fyrir þá sem eiga íbúð fyrir: Ný íbúð allt að því 1 millj. 470 þús. kr. og notuð íbúð allt að 1 millj. og 29 þús. kr. og lánstíminn 40 ár. Þessar fjárhæðir eru miðaðar við byggingarvísitölu 250.

Lánsréttur miðast við skuldabréfakaup lífeyrissjóða eins og ég sagði áður. Lánsréttur fer eftir því hversu háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu lífeyrissjóður umsækjanda ver til kaupa á skuldabréfum af Húsnæðisstofnun. Skuldabréfakaup fyrir 55% af ráðstöfunarfé veita fullan rétt, en 20% hlutfall veitir minnsta rétt. Miðað er við að umsækjandi hafi greitt í lífeyrissjóð í undangengin tvö ár áður en umsókn er lögð fram. Ég vil geta þess sérstaklega og undirstrika að síðan 1980 hefur öllum launþegum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi verið rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði.

Það hafa komið fram vissar efasemdir og menn hafa áhyggjur af Lífeyrissjóði bænda sem er vissulega rétt. Þessi lífeyrissjóður er skyldur lögum samkvæmt að láta 25% af ráðstöfunarfé sínu sem framlag til Stofnlánadeildar. Ég legg þann skilning í þetta að ef Lífeyrissjóður bænda leggur fram 55% af því sem hann á þá óráðstafað, sem er umfram þá skyldu sem hann hefur gagnvart Stofnlánadeildinni, til Húsnæðisstofnunar fullnægi hann þessu ákvæði og bændur eigi þannig fullan rétt á lánum.

Hins vegar vil ég taka fram að alveg er ljóst að það hljóta að koma upp ýmis vafaatriði í sambandi við meðferð þessa máls vegna mismunandi aðstöðu lífeyrissjóðanna. Það verður þá að vinna úr því sérstaklega. Ég held að sá skilningur sé opinber að það ætlast enginn til þess að mönnum sé mismunað hvað þetta snertir. Það verður að leysa úr því þannig að allir fái aukinn rétt í sambandi við þessa ráðstöfun.

Lánsréttur einstaklinga og hjóna miðast við skuldabréfakaup lífeyrissjóðsins sem fólkið greiðir í. Lánsréttur hjóna eða sambýlisfólks sem bæði eru á vinnumarkaði ræðst af meðaltali skuldabréfakaupa lífeyrissjóða þeirra. Lánsréttur hjóna eða sambýlisfólks þar sem heimilisstarf er aðalstarf annars þeirra ræðst af lánsrétti þess sem er á vinnumarkaðnum.

Ég held, virðulegur forseti, að það sé ástæðulaust að ég fari nánar út í þetta. Ef eitthvað kemur upp á eftir mun ég svara því. En á tímabilinu 1. sept. til 31. des. 1986 ræðst lánsréttur af því hve háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1986 lífeyrissjóður umsækjanda ver til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunarinnar. Sá sem á óafgreidda lánshluta getur því fengið þá afgreidda samkvæmt nýja kerfinu strax eftir 1. september ef lífeyrissjóður umsækjanda fer inn í kerfið á þessu ári, t.d. kaupir fyrir 55 % af ráðstöfunarfé sínu strax á þessu ári. Þeir lánshlutar sem eru óafgreiddir fyrir 1. jan. 1987 verða allir afgreiddir eftir nýja kerfinu ef umsækjandi óskar þess.

Í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna er sú breyting gerð að lánshlutfall hækkar úr 80% í 85% og heimilt er, ef sérstaklega erfiðlega stendur á, að lána útborgun til allt að þriggja ára.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að um þetta mál sé áfram samkomulag gegnum þessa hv. deild og hægt verði að nýta vel þennan stutta tíma, sem er vissulega mjög stuttur það sem eftir er af þingi, til að tryggja að frv. verði að lögum. Þetta er samkomulagsmál og ég vonast til þess að meðferð hv. Ed. sýni að svo er einnig í þessari hv. deild.