22.04.1986
Efri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (4250)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Hér er ótvírætt um stærsta og merkasta mál þessa þings að ræða að ég tel og getur, ef vel tekst til, valdið gjörbyltingu í þeim málaflokki sem hér um ræðir.

Við skulum gæta þess að þetta er afrakstur kjarasamninga. Þetta er afrakstur þeirrar baráttu sem verkalýðshreyfingin hefur háð við sína vinnuveitendur, beinn afrakstur af því, gott sýnishorn af því hversu félagsleg atriði geta áunnist í slíkum samningum og dapurlegt í raun í allri þeirri gagnrýni sem á þessa samninga hefur verið hversu lítt þessu stórmáli hefur verið haldið til haga og er það sérkapítuli sem ég ræði ekki hér.

Meginatriði þessa frv., þessa afmarkaða máls svo stórt sem það er, er annars vegar forsendan, þ.e. þátttaka lífeyrissjóðanna. Á þeirri þátttöku í uppbyggingu húsnæðiskerfisins hefur verið mikill misbrestur hjá mörgum lífeyrissjóðum og margir stórir sjóðir og sterkir tekið þar lítinn þátt eða nær engan. Sannleikurinn er sá að kerfið hefði ekki verið svelt eins og það hefur verið ef þau mál hefðu alls staðar verið í lagi hjá lífeyrissjóðunum. Hins vegar er það sem snýr að húsbyggjendum og húskaupendum, þ.e. hærri lán til lengri tíma, sem ætti mjög að auðvelda öll húsnæðismál fólks, einkum til lengri tíma litið.

Það er öllum ljóst að hér er engan veginn á öllum þáttum tekið. Þar bíður fjölmargt frekari vinnu og væntanlegra úrlausna. Félagslega kerfið allt, nýjar leiðir þar t.d., þarf alveg sérstaklega að fara yfir og reyna þær lausnir sem viðráðanlegar verða þeim efnaminnstu. Nýjar leiðir þarf þar sérstaklega að athuga.

Í nál. meiri hl. félmn. Nd., en Alþb. stóð að því nál., eru gefin fyrirheit um þetta og margt fleira sem nánari vinna verður lögð í. En þessi áfangi er hinn merkasti þó margt hefði eflaust getað á annan veg verið. Ég hnýt máske sér í lagi um stærðarmörk í þessu sem mér þykja óhóflega rúm. Nd. leiðrétti frá upphaflegri gerð ýmislegt, m.a. varðandi elli- og örorkuþega, endurbótalán til öryrkja, hámarksrétt elli- og örorkuþega svo og ákveðna viðbót vegna orkusparandi aðgerða.

Ekki verður hjá því komist að hafa uppi ýmsar efasemdir um framkvæmd lánsréttar, en á það skal líka bent að þá reynir fyrst og fremst á þroska og þegnskap forráðamanna lífeyrissjóðanna hvernig þar til tekst. Ef allir sýna þar þann þroska og þegnskap að taka þátt í þessu sameiginlega húsnæðislánakerfi mun framkvæmd lánsréttarins ekki verða neitt vandamál.

Fá mál hafa verið meira í brennidepli í okkar þjóðfélagi en einmitt húsnæðismálin. Það ber því að fagna þessum áfanga alveg sérstaklega. Við vitum hins vegar að sú umræða sem um þessi mál hefur farið fram hefur mestmegnis farið fram um neyð þeirra mörgu sem hafa lent í hinum mestu vandræðum með íbúðarhúsnæði sitt, kaup eða byggingar, og því er vert að geta um það sérstaklega og minna á það að fyrsta atriðið í samkomulagi ASÍ, VSÍ og Vinnumálasambands samvinnufélaganna var einmitt aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árinu 1980 og síðar, að 300 millj. til viðbótar þeim 200 millj. sem fyrr voru komnar í þetta verði varið til þessa málaflokks, einmitt til þessa fólks. Á þessu er svo hnykkt í nál. meiri hl. félmn. Nd. þar sem segir sérstaklega, með leyfi virðulegs forseta: „að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.“

Ég sé ekki ástæðu til á þessum knappa tíma að fara frekar í þetta stóra mál. Ég mun í nefnd skoða það betur, en lýsi eindregnum stuðningi við frv.