22.04.1986
Efri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að virða það samkomulag sem gert var og takmarka mjög mál mitt hér.

Ég vil byrja á því að taka fram að mér þykir mjög miður að ekki skuli gefast meiri tími til að vinna þetta mál hér í þinginu en raun ber vitni og vil minna á að það liðu fullar þrjár vikur frá því að kjarasamningar voru gerðir og það samkomulag sem þetta frv. byggir á, þar til fullskipuð nefnd tók að vinna að þessu máli. Þó var ljóst og hafði verið ljóst frá því í janúar, að stefnt var að því að ljúka þingi síðasta vetrardag. Heldur var því hægt farið af stað, finnst mér, í það að vinna þetta mikla mál og þinginu frá upphafi ætlaður lítill tími til þess að fjalla um það.

Ég hlýt líka að gagnrýna hvernig þetta frv. er til komið. Ég tel að um húsnæðismál eigi ekki að semja í samningum aðila vinnumarkaðarins heldur eigi stjórnvöld á hverjum tíma að stjórna því hvernig þessum málum er háttað, enda til þess kjörin.

Hvað frv. varðar, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., þá er þar að finna verulega hækkun og lengingu lána. Það er sannarlega af því góða og það styð ég heilshugar. Í Nd. vorum við Kvennalistakonur aðilar að meirihlutaáliti félmn. með fyrirvara. Sá fyrirvari helgast af nokkrum atriðum. Ég skal rétt reyna að tæpa á þeim og vera eins stuttorð og mér mögulega er unnt.

Í fyrsta lagi teljum við að heldur skammt sé gengið í þá átt að tryggja rétt þeirra sem ekki geta nýtt sér þessi lánsréttindi í fyrstu umferð. Þ.e. ef menn hafa ekki tækifæri til að nýta sér réttindin að fullu í fyrsta skipti sem þeir reyna að festa kaup á íbúð sökum bágra fjárhagsástæðna teljum við að það hefði átt að tryggja að þeir gætu nýtt sér það sem þeir ekki nýttu í fyrsta skipti í annað skipti þ.e. þegar þeir reyndu að stækka við sig. Það má að mínu viti ekki búa þannig um hnútana að réttur þeirra sem geta strax við fyrstu atrennu keypt sér fullnægjandi íbúð sé sterkari en hinna sem ekki geta það af efnalegum ástæðum.

Í öðru lagi hefði ég viljað sjá lánshlutfall til eldri íbúða hærra en þarna er. Um það fluttum við Kvennalistakonur brtt. við 1. umr. í Nd. og teljum mikið við liggja að sú húsnýtingarstefna, sem menn hafa mjög haft á orði en síður á borði, verði viðurkennd og staðfest með lögum þannig að hana sé hægt að framkvæma. Við lögðum á það áherslu að þessi atriði kæmu inn í nál. meiri hl. félmn. í Nd. Það hafa þau gert og teljum við það nokkurn áfanga þar sem þar er kveðið á um að milliþinganefndin skuli áfram vinna að þessum málum og mun þá fulltrúi okkar þar halda áfram og fylgja þessum málum eftir í nefndinni. Það er áfangi, en björninn er ekki unninn.

Eins helgast fyrirvari okkar við þetta frv. af því að við höfum töluverðar efasemdir um fjármögnun þessa nýja lánakerfis, en forsenda þess að það geti staðist er sú að það verði töluverð vaxtalækkun á næstunni. 5-6% vaxtamunur á teknum lánum og veittum eins og nú er gengur vitaskuld ekki. Eins og réttilega hefur verið bent á mundi það þýða að það tæki okkur ekki ýkja mörg ár að kollvarpa þessu kerfi endanlega. Þess vegna hefðum við viljað hafa ákveðnari fyrirætlanir um það hvað stendur til að gera í vaxtamálunum.

Eins helgast fyrirvari okkar af því að við erum allsendis ósáttar við þá kjarasamninga sem hér voru gerðir um mánaðamótin febrúar og mars. Það kemur m.a. fram í nál. minni hl. félmn. í Nd. að ein ástæða þess að minni hl. styður frv. er sú að það er hluti af þeim samningum sem gerðir voru og sem sá minni hl. studdi. Sú ástæða er ekki okkar ástæða og ég vil að það komi hér skýrt fram.

Við lögðum á það mikla áherslu í félmn. Nd., þar sem við fengum áheyrn í tilefni þessa máls, að áfram yrði unnið að málefnum þess stóra hóps fólks sem kallað er misgengishópurinn og sem hefur farið afar illa út úr tilraun sinni til að koma sér upp þaki yfir höfuðið á undanförnum fimm árum eða svo. Ég hef miklar áhyggjur af þessum hópi. Það er engin tilraun gerð til þess í frv. að taka á málum hans. Þetta frv. vísar fram á við, ef svo má segja, en ekki aftur á bak. Ég vil því að endingu leggja mikla áherslu á að áfram verði unnið að málefnum þessa hóps. Ég veit að milliþinganefndin mun áfram vinna að því, en einnig þurfa stjórnvöld að sýna því þá athygli, þann áhuga og þann góða vilja sem nauðsynlegur er til að leysa mál þessa hóps.