23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (4263)

248. mál, póstlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tel mjög miður að Nd. skyldi eyðileggja frv. sem hér liggur fyrir svo sem raun ber vitni. Við ræddum þetta frv. fyrir nokkru og gerðum á því veigamikla breytingu í frjálsræðisátt án þess að báknið yrði aukið, en Nd. hefur kosið að líta aftur en ekki fram í þeim málum. Það markast af áhrifum bankastjóra og bankavaldsins sem telur nú að að sér sé sorfið, þess sama bankavalds sem staðið hefur fyrir hvers konar eyðslu og útþenslu í bankakerfinu, atvinnuvegunum til mikils tjóns vegna offjárfestinga og annars, án þess að þjónusta yrði teljandi miklu betri. Það er þetta vald sem hér hefur ráðið ríkjum. Við minntumst á það við síðustu umræðu hér að samþykkt till. um að Póstgíróstofan fengi að stunda inn- og útlánastarfsemi væri í sjálfu sér byggðamál. Pósthús væru miklu víðar en bankar og þessi breyting hefði mjög liðkað til fyrir ýmiss konar viðskiptum ekki síst fyrir launamenn.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Mér þykir mjög leitt að þessi öfl skyldu kúga þá sem eru í Nd. og að þeir skuli kjósa að hafa reglur og lög um bankastarfsemi meira í ætt við það sem tíðkast austan járntjalds en það sem tíðkast meðal vestrænna þjóða. Við Alþýðuflokksmenn höfum ekki kosið að flytja brtt. á ný hér því við höfum lýst okkur fúsa til að greiða fyrir þingstörfum, en vonandi kemur sá tími að það takist að breyta þessu aftur.