23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (4274)

423. mál, áfengislög

Magnús H. Magnússon:

Hæstv. forseti. Meiri hl. allshn. hv. Ed. flutti brtt. á þskj. 969 við þetta frv. Þær brtt. ganga fyrst og fremst út á það að það verði sveitarstjórn á hverjum stað, ekki lögreglustjóri, sem hefur síðasta orðið í þessum efnum, þó að fenginni umsögn lögreglustjóra, ekki öfugt eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég treysti sveitarstjórnum betur en embættismönnum ríkisins til að taka skynsamlegar ákvarðanir í þessum málum eins og mörgum öðrum. Það er oft talað um aukið sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarfélaga og um að sveitarfélögin yfirtaki verkefni frá ríkisvaldinu og þá um leið ákvarðanatökur. Menn eru yfirleitt sammála um að það sé til bóta og mér finnst að það eigi við í þessu máli eins og á mörgum öðrum sviðum.

Ég get vel fallist á brtt. hv. þm. Jóns Kristjánssonar á þskj. 1089 en mér finnst vanta botninn í 3. lið brtt., hvernig með skuli fara ef ágreiningur kemur upp milli sveitarstjórnar og lögreglustjóra. Því hef ég lagt fram brtt. á þskj. 1093 við brtt. hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Brtt. mín er svohljóðandi:

„Við 3. tölul. bætist: Dómsmrh. sendir tillögur sínar um málsmeðferð til sveitarstjórnar sem tekur endanlega ákvörðun um hvort leyfissvipting skuli vera varanleg.“