23.04.1986
Efri deild: 88. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (4279)

423. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég er í raun tilbúinn að halda langa ræðu um þetta mál og sé ástæðu til þess eftir að sú yfirlýsing kom frá hv. 3. þm. Vesturl. að þessi mál hefðu verið í einhverri sjálfheldu af því að allt hefur ekki verið opnað upp á gátt í þessum efnum. Það væri nefnilega ærin ástæða til þess að ræða þetta mál einmitt út frá því sjónarmiði sem tröllríður okkar þjóðfélagi að af því að menn hafa viljað hamla hér á móti, af því að menn hafa ekki viljað opna allt upp á gátt varðandi vínveitingaleyfi, hafi þessi mál verið í sjálfheldu. Í sjálfheldu fyrir hverja? Fyrir örfáa gróðaaðila sem hafa ætlað að ná sér í skjóttekinn gróða með þessum hætti. Það eru þeirra hagsmunir sem þarna eru í veði og þeirra hagsmunir sem knýja á það að jafnvel ágætustu menn tala um að mál séu í sjálfheldu af því að gróðamöguleikarnir eru minnkaðir í þessum efnum hjá einstökum aðilum.

Ég er, virðulegi forseti, ekkert viss um að ég ljúki máli mínu á næstunni því að ég tel að öll málsmeðferð þessa sé með endemum. Menn koma hér upp og flytja brtt. á brtt. ofan til þess að sníða af vankanta, taka af agnúa og annað því um líkt. Og hvers vegna? Vegna þess að menn ösnuðust til þess, svo að ég noti það orð, að fara að hringla í frv. hæstv. dómsmrh. um þessi mál, þykjast vera að færa vald og verkefni og ég veit ekki hver ósköpin yfir til sveitarfélaga í þessum efnum, þykjast gera það, og lenda svo í sjálfheldu með allt saman, í sannkallaðri sjálfheldu, og þurfa að halda fund eftir fund í allshn. til þess að finna einhverja lausn út úr ógöngunum. Það er niðurstaðan í þessu máli. Síðan koma menn og fara að tala við dómsmrn. fram og til baka, hvernig megi nú lagfæra þetta og lagfæra hitt svo að úr þessu verði ekki hið argasta klúður. (Forseti: Forseti verður að fá að trufla hv. ræðumann aðeins. Það er greinilegt að hér fer fram umræða sem ekki verður hægt að ljúka á næstu mínútum eins og gert hafði verið ráð fyrir og reyndar boðað af forseta fyrir nokkru síðan á þessum fundi, að fyrirhugaðar atkvæðagreiðslur færu fram kl. 12. Ef hv. þm. ætlar að flytja langt mál að þessu sinni eins og hann var að gefa í skyn, og forseti að sjálfsögðu getur ekki lagt neinar hömlur á það, væri gott að fá það fram núna því að þá held ég að ég yrði að biðja hv. þm. um að fresta ræðunni þar til síðar á þessum fundi.)

Ég vil gjarnan fá að fresta þessari ræðu vegna þess að ég er alls ekki tilbúinn að fara úr þessum ræðustól við svo búið og ljúka þar með minni tölu.

Umr. frestað.