23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4532 í B-deild Alþingistíðinda. (4315)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að tala um þetta dagskrármál, en hv. þm. sem talaði síðast hringdi í mig einn morguninn og sagðist mundi tala um þetta mál hér utan dagskrár. Ég sagðist að sjálfsögðu verða við því að ræða það ef til þeirrar u ræðu yrði efnt. Síðan fer hann að tala um það nú án ess á nokkurn hátt að láta mig vita um það. Hitt er svo annað mál að ég get vel tekið þátt í umræðu um það má ef deildin hefur tíma til, en ég hef skilið það svo að svo væri ekki og þess vegna verð ég við tilmælum hæstv. forseta. (Forseti: Forseti vill af þessu tilefni taka það fram að hann er ekki við því búinn að hér hefjist utandagskrárumræður eða umræður um önnur mál en þau sem á dagskrá eru ef það er vilji þingsins að þessum þingfundi ljúki í dag eða þinginu yfirleitt.) Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við þessu, en gat ekki annað en skýrt frá þessu m.a. vegna ámæla sem komu fram í máli hv. þm. En ég skal ekkert gera frekari tilraun til að verja mig í því máli.

Í sambandi við það sem hann ræddi hér um að öðru leyti og varðar efni þessa máls, þ.e. um skreiðina, þá er það mál afar einfalt. Það var ákveðið á sínum tíma að taka gengismun af sjávarafurðum. Rökin fyrir því eru mjög einföld. Það hráefni sem var keypt í þær birgðir sem voru fyrir hendi á þeim degi sem gengisbreyting átti sér stað var miðað við gamalt gengi og hefur ávallt verið. Þess vegna hefur það verið venja lengi að taka hluta af þeim gengismun og dreifa til útgerðar og sjómanna vegna þessarar stöðu. Þá er mikilvægt að allar birgðir séu meðhöndlaðar eins. Hins vegar, eins og kom fram hjá hv. þm., eru þar ekki hvalaafurðir og slíkar afurðir vegna þess að hvalskipin njóta einskis úr þessum sjóðum.

Hitt er svo annað mál að skreiðin er mikið vandamál og um það vandamál hefur oft verið fjallað, m.a. af ríkisstjórn. Það var fjallað um það nú í vetur og þar var ákveðið að taka ekki gengismun af skreið sem seld væri eftir 1. janúar 1986 og ekki útflutningsgjöld heldur. Var þessi ákvörðun tekin af því tilefni að menn voru að vonast eftir því að það væri mögulegt að selja skreiðina og ljóst að þar yrði mikið tap. Hins vegar er það svo að það standa eftir skuldbindingar gengismunarsjóðs, eins og hv. þm. rakti hér, og verður ekki komist hjá að standa við þær.

Hitt er svo annað mál að það eru ýmis atriði óútkljáð varðandi vandamál skreiðarframleiðenda. Seðlabankinn breytti lánum sínum í innlend lán á sínum tíma í ársbyrjun 1985 og vextir af þeim lánum á árinu 1985 eru 90 millj. kr. Þessir vextir hafa ekki enn þá verið tekjufærðir hjá Seðlabanka Íslands. Bankastjórn Seðlabankans hefur ákveðið að bíða með ákvörðun í því máli þar til vitað er fyrir hvað skreiðin selst. Ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð vegna skreiðarinnar upp á 250 millj. kr. Það er einnig ákveðið að taka ekki endanlegar ákvarðanir um það mál fyrr en ljóst er hvað fæst fyrir skreiðina. Einnig hefur verið kvartað yfir mikilli vaxtatöku viðskiptabanka af afurðalánum vegna skreiðar og um það hefur verið rætt hvort þeir gætu að einhverju leyti komið til móts við skreiðarframleiðendur.

Það er full samstaða um það milli hagsmunanefndar skreiðarframleiðenda og stjórnvalda að það sé rétt að breyta þessu miðað við áramót, þ.e. hætta að taka gengismun og útflutningsgjöld miðað við áramót. Hitt er svo annað mál að skreiðarframleiðendur hafa lagt áherslu á fyrirgreiðslu að því er varðar vexti Seðlabankans, að því er varðar fyrirgreiðslu ríkissjóðs, að því er varðar vexti viðskiptabanka.

Það er aðalatriðið í þessu máli að menn geri í því rétt skil og séu ekki að rugla saman óskyldum málum eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerði áðan. Það virðist engu skipta þó hann fái margvíslegar upplýsingar í málinu.

Að öðru leyti ætla ég ekki að gera þetta mál að umræðuefni, það er í mínum huga mjög skýrt að því er varðar skreiðina, en vil taka fram að þau mál eru alls ekki leyst. Sú brtt. sem hv. þm. Halldór Blöndal flytur hér breytir aftur á móti engu í þeim stóra vanda og skiptir engu máli að því leytinu til. En ef hún væri samþykkt mundi hún aðeins rugla það mál og gera línur mun óskýrari en þær eru.