23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4534 í B-deild Alþingistíðinda. (4317)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gríðarlega stórt mál sem hefur í sjálfu sér hlotið allvandaðan undirbúning utan þings og ástæða til að fagna því ef þingið getur afgreitt ýmsa þætti sem hér eru til einföldunar á greiðslukerfi sjávarútvegsins. Hér er komið að máli sem við hreyfðum fyrir nokkrum misserum þegar ákvarðanir voru teknar um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í sjávarútvegi. Þá töldu menn að það væri ekki ástæða til að veita því öllu saman í gegnum Aflatryggingasjóð heldur gæti vel komið til greina að það gengi beint til viðkomandi aðila. Þá voru menn ekki tilbúnir að hlusta á þessar athugasemdir. Núna er horfið frá því fyrirkomulagi sem upp var tekið varðandi endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts í sjávarútvegi og það er vel.

Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma deildarinnar í neinar málalengingar og vind mér beint að efninu sem er brtt. sem ég flyt við 13. gr. frv. Í 13. gr. stendur:

„Viðskiptabanki útvegsmanns skal skila því fé, sem greiða skal á reikning hvers fiskiskips skv. 2. tölul. 7. gr. laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, inn á reikning Landssambands ísl. útvegsmanna hjá viðkomandi banka til greiðslu iðgjalda af vátryggingu skipsins.“

Ég hef tekið eftir því að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur haft stórtekjur af þeim flutningi fjármagns, sem þarna er verið að gera tillögur um, á undanförnum árum. Þar sem þetta frv. gengur út á einföldun á greiðslum innan sjávarútvegsins tel ég ástæðu til að fella þetta ákvæði niður og segi í staðinn í brtt., herra forseti:

„Viðskiptabanki útvegsmanns skal skila því fé, sem greiða skal á reikning hvers fiskiskips skv. 2. tölul. 7. gr. laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, inn á reikning þess tryggingafélags, sem tryggir skipið, samkvæmt nánari tilvísun útvegsmanns.“

Það er algerlega óeðlilegt að þessir peningar skuli endilega þurfa að millilenda hjá LÍÚ. Það er einna svipaðast því ef t.d. Alþýðusamband Íslands hefði með að gera greiðslur á heimilistryggingum fyrir fólk. Peningar í heimilistryggingar yrðu þá að millilenda hjá Alþýðusambandi Íslands. Þetta fyrirkomulag er að mínu mati algerlega óeðlilegt og ég tel að brtt. mín sé til einföldunar og stuðli þannig að því að markmið þessa frv. að öðru leyti nái fram.