23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4539 í B-deild Alþingistíðinda. (4322)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi svara þeim fyrirspurnum sem komu sérstaklega frá hv. þm. Karvel Pálmasyni og í fyrsta lagi að því er varðar aflatryggingar. (Gripið fram í.) Ég átti ekki sérstaklega von á að svo margir vildu heyra í mér, en ég fagna því. Að því er varðar aflatryggingarnar kemur skýrt fram í nál. að nauðsynlegt sé að fara ofan í það mál og það mun verða gert, en spurningin er fyrst og fremst með hvaða hætti tekna verði aflað til slíkra aflatrygginga. Það er ávallt mikill áhugi fyrir því að njóta slíkra trygginga á hverjum tíma ef illa gengur. Ég tel hins vegar miklu mikilvægara að menn umgangist auðlindir hafsins með þeim hætti að sem minnst þurfi á slíkum aflatryggingum að halda. Það er aðalatriðið í þessu máli. Það er einnig rétt að benda á að auðvitað tryggja menn sig aldrei fyrir áföllum af ýmsu tagi, því miður. En þetta mál mun verða tekið til athugunar í samvinnu við hagsmunaaðila sjávarútvegsins. Bæði sjómenn og útvegsmenn hafa á þessu máli ákveðnar skoðanir og þeir standa að þessum breytingum fyrir hönd allra sinna umbjóðenda og verja þær gagnvart þeim.

Að því er varðar lífeyrissjóðina liggur fyrir að Lífeyrissjóður sjómanna mun hafa yfirumsjón með þessu máli. Það er ekki svo að greiðslur þurfi að senda lengur á milli landshluta. Það er nú komið slíkt boðkerfi í gegnum tölvur að þetta eru fyrst og fremst færslur sem fara á milli. Lífeyrissjóður sjómanna mun áreiðanlega hafa slíkt samband við aðra lífeyrissjóði í landinu að ég hef engar áhyggjur af því að ekki muni verða hægt að leysa það mál í góðum friði. Það verður tekið til meðferðar nú strax og þarf að setja um málið reglugerðir. Um það verður haft fullt samráð við Sjómannasamband Íslands og þá lífeyrissjóði sem hafa séð um þessi mál á undanförnum árum. Ég hef ekki áhyggjur af því máli, en ég skil alveg hvað hv. þm. Karvel Pálmason hefur í huga. Ég er honum sammála um að það er engin ástæða til að vera að senda peninga hingað suður til Reykjavíkur að óþörfu. Ég er enginn fylgismaður þess. Hann getur treyst því.

Að því er varðar trillukarla, eins og hann komst að orði, er á bls. 16 í frv. prentaður sem fylgiskjal viðauki við kjarasamning sjómanna og útvegsmanna. Þessu máli er þannig breytt að útvegsmenn munu sjá um fæðisgreiðslurnar sjálfir héðan í frá. Trillukarlar eru flestir hverjir útgerðarmenn og hafa ekki aðra sjómenn í sinni vinnu þannig að þeir verða að sjá um þessi mál sjálfir, enda enginn sérstakur kjarasamningur meðal þeirra. Það er sem sagt gengið frá þessu máli í kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna, en sá kjarasamningur nær aðeins til báta niður að 12 brúttólestum. Bátar þar undir eru utan allra kjarasamninga, enda um sjálfstæða menn að ræða með sjálfstæðar skoðanir eins og oft hefur komið í ljós.

Að því er varðar sjávarútvegshús er þetta tillaga sem kemur frá samtökum sjávarútvegsins. Þau hafa aðstöðu hér í Reykjavík og ég býst ekki við því að það sé nein tillaga um það af hálfu þessara samtaka að breyta því. Þau vilja gjarnan efla sína samstöðu, komast undir sama þak með sína félagsstarfsemi. Ég er því sammála að það sé mikilvægt fyrir sjávarútveginn að efla samstöðu innan greinarinnar og að þessir aðilar geti verið með margvíslega sameiginlega starfsemi. Það hefur sem betur fer farið vaxandi og þar er ágætis samvinna. Þeir eru þeirrar skoðunar að hún gæti enn batnað með því að þeir færu sem mest undir sama þak og gætu þá notað sameiginlega tölvuþjónustu og ýmislegt fleira.

Að því er varðar innheimtu Landssambands ísl. útvegsmanna er hér um þá niðurstöðu að ræða sem vissulega má færa rök með og gegn, en þessir fjármunir hafa hingað til verið innheimtir annars vegar af Tryggingasjóði fiskiskipa og hins vegar af Landssambandi ísl. útvegsmanna. Það kom ekki nema tvennt til í þeim efnum, annaðhvort að Landssamband ísl. útvegsmanna gerði það að öllu leyti eða þá að Tryggingasjóður fiskiskipa yrði rekinn áfram sem greiðslumiðlunaraðili. Útvegsmenn telja sig þurfa með þessum hætti að ná betri samningsstöðu gagnvart vátryggingarfélögunum og vilja hafa þá samninga sem mest í einni heild.

Hvort Tryggingasjóður fiskiskipa hefði verið rekinn áfram í því formi eða LÍÚ tæki það yfir að öllu leyti sem stofnað var til með lögum fyrir mörgum, mörgum árum má vissulega deila um, en ég tek undir það að engin ástæða er til þess að þessi innheimta sé sérstakur tekjustofn. Þær tekjur á að sjálfsögðu að innheimta með árgjöldum. Hitt er svo annað mál að sú verðbólga sem hefur herjað hér á undanförnum árum hefur gert það að verkum að oft og tíðum hafa sjóðir rýrnað og greiðslur rýrnað á tiltölulega stuttum tíma, en miðað við þann stöðugleika sem nú er kominn og við skulum vona að haldist held ég að sé full ástæða til að halda að þar verði breyting á.