23.04.1986
Neðri deild: 98. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða tíma þingsins á þessum síðustu mínútum eða klukkustundum fyrir þinglok til þess að reifa þær ástæður sem eru að baki minni afstöðu. Þær hafa þegar komið fram á nál. minni hl. En ég verð þó að hafa hér nokkur orð um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli.

Það kom í ljós á nefndarfundi áðan um þetta mál að stjórnvöld hafa vitað frá því í nóvember a.m.k. hver vandræði þessa flugfélags hafa verið. Reyndar voru höfð það sterk orð um það að það væri hreint á heljarþröminni. Hvernig stendur á því að þessu er fleygt hér inn á þingið hreinlega á sólarhringnum áður en því á að ljúka og ætlað að vinna svo hroðvirknislega að málinu? Þetta eru óviðunandi vinnubrögð.