12.11.1985
Sameinað þing: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1986

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ekki dettur mér í hug að eyða mörgum orðum að fjárlagafrumvörpunum. Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur þegar sagt það sem segja þarf um þau mál af okkar hálfu. Í stað þess ætla ég að víkja að öðrum viðburði íslenskra stjórnmála síðustu dagana, þ.e. landsfundi Alþb. og þeim kaflaskiptum sem hann getur boðað í íslenskum stjórnmálum á næstunni. Þar kom fram allt í senn ný sókn, ný von og nýtt afl til að gera þær vonir að veruleika.

Andstæðingar okkar voru að gera sér vonir um að Alþb. yrði í tætlum eftir þennan landsfund. Gleggsta heimildin um það er t.d. leiðari DV daginn eftir að landsfundurinn var settur. Útkoman er sú að andstæðingar okkar hafa orðið fyrir vonbrigðum. Alþb. er sterkur, samhentur flokkur. Það var viljinn til samstöðu sem einkenndi landsfundinn og stjórnmálaályktun okkar var samþykkt samhljóða. Sömuleiðis ítrekaði fundurinn stefnu flokksins í utanríkismálum: Ísland úr NATO - herinn burt. Á landsfundinum sýndi Alþb. líka að það hefur þrek til að gera upp mál með eindregnum hætti, enda þótt í þeim felist uppgjör við fyrri áherslur. Alþb. er flokkur sem þorir að gera upp málefni og kemur fram sterkari en áður þar sem samstaða um hugsjónir þjóðfrelsis og lýðræðis og jafnréttis, hugsjónir sósíalismans, er ofar öllu öðru.

Í samþykktum sínum tók landsfundur Alþb. á mörgum þeim málum sem brenna á alþýðuheimilunum um þessar mundir:

Hann vill að okurlánastöðvarnar verði bannaðar með lögum og fundinn annar verðtryggingarmælir en ránskjaravísitalan. Hann vill að tekin verði upp ný skattastefna, skattsektir margfaldaðar og meðferð skattamála bætt. Fundurinn samþykkti að skattar skuli hækkaðir á eignum umfram almenna húsnæðisþörf og að skattaeftirlit yrði hert verulega frá því sem nú er. Þá verði meðferð skattafbrotamála flýtt í dómskerfinu. Fundurinn krafðist aukinnar samneyslu og félagslegrar þjónustu þannig að skattstefnan verði forsenda betra velferðarþjóðfélags en áður. Jafnframt samþykkti fundurinn að fela flokknum að vinna að því að skattfríðindi fyrirtækja og stóreignamanna og hátekjufólks verði afnumin.

Þannig samþykkti landsfundur Alþb. róttæka stefnu í skattamálum til þess að skapa forsendur fyrir aukinni velferð, bættri félagslegri þjónustu, betra velferðarþjóðfélagi.

Þá samþykkti fundur okkar ályktun í húsnæðismálum þar sem megináhersla er lögð á það að verja fólkið tafarlaust fyrir okurlánurunum með því að öll skuldabréf verði skráð á nafn og þau framtalsskyld. Þannig verði gróðaveitum neðanjarðarhagkerfisins lokað. Alþb. vill koma á heilsteyptu húsnæðislánakerfi þar sem bankar, opinberir sjóðir og lífeyrissjóðir myndi eina heild, en forsendan verði að hver einstaklingur þurfi ekki að verja meiru en fjórðungi dagvinnutekna í húsnæðiskostnað. Það væri bylting í húsnæðismálum á Íslandi. Það dugir heldur ekkert minna. Og tafarlaust verður að koma til móts við þá sem nú eru að verða gjaldþrota. Alþingi má ekki sitja aðgerðarlaust meðan heimilin eru á gjaldþrotabálinu.

Landsfundur Alþb. samþykkti sérstaka ályktun um kjaramál þar sem lýst er stuðningi við baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir kaupmáttartryggingu. Þá var samþykkt ályktun um að endurmat verði að fara fram á störfum kvenna sem búa við enn verri kjör en aðrir á vinnumarkaði.

Í stjórnmálaályktun landsfundar Alþb. var enn fremur samþykkt að berjast fyrir nýrri byggðastefnu með auknu valdi heimamanna, m.a. til þess að ráðstafa opinberum fjármunum til samfélagslegra verkefna. Þessi samþykkt um nýja byggðastefnu tekur mið af þeirri hrikalegu byggðaröskun sem hefur átt sér stað og að forsenda þess að snúa fólksflóttanum við sé önnur byggðastefna þar sem vald og frumkvæði heimamanna leysa allsherjarmiðstýringu af hólmi.

Landsfundurinn lét sér ekki nægja að samþykkja ályktanir um félagslegar umbætur og nýja skattastefnu. Hann samþykkti einnig ályktanir um nýja sókn í atvinnulífinu sem forsendu batnandi lífskjara til frambúðar.

Í hinni íslensku atvinnustefnu er bent á margþætta möguleika íslensks þjóðarbús á öllum sviðum, en sérstaklega í sjávarútvegi og hátæknigreinum til þess að auka verðmæti þjóðarframleiðslunnar svo nemur milljörðum króna. Þannig vísaði landsfundurinn til bjartari framtíðar út úr kreppu hægri stjórnarinnar.

En flokkurinn benti einnig á leiðir til þess að bæta kjörin hér og nú með því að skipta því jafnar sem þegar er til. Fundurinn vísaði til þess að við lifum nú metaflaár og þar með stórauknar þjóðartekjur. Það á því að vera unnt að knýja fram kröfur um hærra kaup og kaupmáttartryggingu eins og bent var á í samþykktum 7. landsfundar Alþb.

Vissulega er það þó talið nærtækasta og brýnasta verkefnið í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir að koma ríkisstjórninni frá. Í stjórnmálaályktuninni er því slegið föstu að stærsta efnahagsvandamál heimilanna og framleiðsluatvinnuveganna á Íslandi sé ríkisstjórnin og efnahagsstefna hennar. Nú er verið að sauma svo að fjárhag heimilanna að fjölskyldurnar eru þúsundum saman í hættu fyrir gróðahyggjunni og afleiðingunum af stefnu hennar og framleiðsluatvinnuvegirnir, hin efnahagslega undirstaða, eru reknir með stórkostlegum halla þrátt fyrir metafla og hækkandi verð á erlendum mörkuðum fyrir útflutning okkar. Vítahring stjórnarstefnunnar verður að brjóta niður og það strax. Annars er Ísland í hættu sem sjálfstætt þjóðríki. Landflóttinn er til staðfestingar um það. Viðbrögðin við stefnu ríkisstjórnarinnar eru því ekki aðeins spurningin um betri lífskjör í bráð, heldur einnig spurning um þjóðlega reisn og sjálfstæði þjóðarinnar í lengd.

Alþb. boðar nýja sókn. En í stefnu landsfundar Alþb. birtist líka sú von sem getur breytt sókninni í batnandi lífskjör. Það kemur fram í því að unga fólkið er með okkur, hefur aldrei verið eins sterkt og fjölmennt á landsfundum Alþb. og nú. Það kemur fram í því að við ætlum að gera flokkinn að betra baráttutæki fyrir alþýðu þessa lands og síðast en ekki síst kemur það fram í mjög myndarlegri aðild forustumanna úr verkalýðshreyfingunni að forustusveit flokksins.

Á landsfundinum kom Alþb. fram sem frískur baráttuflokkur sem sameinar kynslóðir og strauma í öfluga fylkingu.

Það er að vísu ekki nýtt að stjórnmálaflokkar geri samþykktir á landsfundum sínum um stefnumál og starfshætti, en það sem ræður úrslitum er aflið, hið þjóðfélagslega afl til að hrinda hinni nýju sókn af stað til þess að breyta vonum í veruleika. Það afl er í Alþb. Þess vegna eiga nú að vera forsendur til að skapa einingu hinnar faglegu og pólitísku baráttu til þess að hefja hina nýju sókn til þess að breyta vonum í veruleika.

Það sem hefur háð verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni á undanförnum tveimur árum er einmitt skortur á slíkri heildarsamstöðu. Nú er tækifæri til að efla hana og styrkja. Reynslan sýnir að þetta sameinaða afl og ekkert annað getur brotið niður múra afturhaldsins. Þeir umlykja nú alþýðuheimilin í landinu og skapa svartsýni og landflótta. En þessa múra er hægt að brjóta niður ef við stillum saman í eina fylkingu hina faglegu og pólitísku baráttu. Í samþykktum landsfundar Alþb. birtast því ekki aðeins óskir heldur kemur fram í landsfundinum ein órofa heild stefnu og starfs og loks afl til að hrinda stefnunni í framkvæmd og það er aðalatriðið.

Herra forseti. 14 ár eru til nýrrar aldar. Við þurfum nú að undirbúa það að næstu ár skapi vissu fyrir því að sjálfstætt þjóðfélag á Íslandi taki af bjartsýni, sigurvissu og gleði á móti nýrri öld. Eftir landsfund Alþb. hafa andstæðingar okkar orðið fyrir vonbrigðum. Í Alþb. birtist allt í senn: ný sókn, ný von og nýtt afl. Þar er sigurbraut fólksins.