23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4560 í B-deild Alþingistíðinda. (4366)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Þar sem nú líður óðum að þinglausnum er óhjákvæmilegt að tefja ekki tímann heldur fara fáum orðum um hvert mál. En auðvitað er þetta mál svo seint á ferðinni að undrum sætir og málið svo stórt í eðli sínu að það hlýtur að kalla á verulega umræðu ef vel á að vera.

Hér er um að ræða það að ríkissjóður taki ábyrgð á láni að upphæð rúmar 100 millj. kr. til að styrkja greiðslustöðu fyrirtækisins Arnarflugs, eins og fram kemur í upphafsorðum athugasemda við frv. Sá galli er á þessari gjöf Njarðar að við veitingu ríkisábyrgðar er bersýnilega ekkert veð að fá fyrr en í febrúarmánuði árið 1989 því að veðið, sem boðið er, er kaupleigusamningur sem bersýnilega verður ekki virkur sem veðandlag fyrr en eftir að afsal hefur verið gefið út af hálfu seljanda. Og það verður ekki fyrr en í febrúarmánuði 1989 þótt að vísu megi segja samningnum upp í maímánuði 1988. Það eru engar líkur á því að seljandi vélarinnar samkvæmt þessum kaupleigusamningi muni samþykkja að ríkið taki veð í þessum samningi vegna þess að hagsmunir seljandans eru bersýnilega á allt annan veg og þar af leiðir að þarna er ekkert veð að hafa fyrr en eftir rúm tvö ár. Ég hygg að aldrei hafi verið veitt ríkisábyrgð sem grundvölluð hefur verið með jafnótraustum hætti og þessi.

Það er alveg ljóst að hér er lagt út í mikið happdrætti. Ef vel tekst til og félagið verður rekið með hagnaði næstu árin, þá sleppur ríkið frá þessari áhættu. Vissulega er ekki alveg útilokað að svo fari því að bensínverð fer nú óðfluga lækkandi og dollarinn hefur lækkað í verði, en útgjöld fyrirtækisins eru fyrst og fremst í dollurum meðan aftur á móti tekjurnar eru í Evrópugjaldmiðlum. Þannig að að þessu leyti eru horfur í rekstri fyrirtækisins bjartari en verið hefur og hlýtur að vekja einhverja bjartsýni um að ekki þurfi endilega að takast illa til. Hitt er ljóst að allar fyrri áætlanir félagsins hafa brugðist. Vonir manna um að félagið næði sér upp úr kviksyndinu hafa brugðist og í sjálfu sér engin vissa fyrir því að svo muni ekki áfram verða.

Ef illa fer, sem allt eins getur orðið samkvæmt framansögðu, þá er um tvennt að ræða. Annaðhvort hefur ríkið tapað þessum rúmlega 100 millj. kr. vegna þess að það hefur enga tryggingu fyrir ábyrgðinni eða að ríkið neyðist til að halda fyrirtækinu gangandi og forða því frá gjaldþroti frá mánuði til mánaðar, ef gjaldþrot skyldi blasa við, meðan beðið er eftir því að kaupleigusamningurinn verði virkur fyrir kaupanda og hann öðlist afsal fyrir eigninni. Sem sagt: Það gæti farið svo, ef illa til tekst, að fyrirtækið yrði nánast rekið á vegum ríkissjóðs og fyrir hans reikning vegna þess að það væri talið að með því að halda í kaupleigusamninginn og láta hann verða virkan í ársbyrjun 1989, þá ynnist meira en hitt sem tapast ef ábyrgðin verður virk gagnvart ríkinu.

Það er því ekkert út í bláinn þegar hv. seinasti ræðumaður talaði um það að nánast væri verið að þjóðnýta þetta fyrirtæki. Þetta væri viss tegund af sósíalisma og af því tilefni kallaði hann flokk fjmrh. stærsta sósíalistaflokkinn hér á Íslandi. (Gripið fram í: Það er nú ekki sanngjarnt gagnvart Alþb.) Nei, í fyrsta lagi er það ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem bera þetta nafn með rentu, það er rétt. Það er hrikalega ósanngjarnt að óhreinka svo þetta hugtak að nota það á Sjálfstfl. og í öðru lagi er það efnislega alrangt, því að það er auðvitað ein sérstök tegund af sósíalisma sem Sjálfstfl. getur fallist á. Það er sá sósíalismi sem kenndur hefur verið við andskotann og felst í því að þjóðnýta tapið en láta aftur einkaeigendurna hirða gróðann. Það er þessi sérstaki sósíalismi, sem auðvitað á ekkert skylt við sósíalisma Alþb., sem Sjálfstfl. aðhyllist og felst í þessu tilviki í því að þjóðnýta tap upp á 100 millj. kr.

Ég þarf sem sagt ekki að fara neitt frekari orðum um það eða tefja deildina frekar með máli mínu. Það er svo augljóst sem nokkuð getur verið að hér er ríkið og ríkissjóður og fjmrh. fyrir þess hönd að vaða út í meira fjárhagslegt kviksyndi en dæmi eru til á seinni árum ef Hafskipsævintýrið er undanskilið. Hér er tekin geysileg áhætta. Ég er ekki að segja að ríkissjóður þurfi endilega að tapa í þessu hættuspili. Ég lýsti því áðan að það eru vissulega möguleikar á að þetta gæti bjargast, þetta gæti sloppið fyrir horn og þar með töpuðust ekki þessar 100 millj. En hitt er bersýnilega allt eins líklegt, ef ekki líklegra, að þessar 100 millj. tapist. Hér er tekin allt of mikil áhætta. Málið er allt of illa undirbúið og raunar allt of seint á ferðinni og því er nokkuð ljóst að ég treysti mér ekki til að bera ábyrgð á því. Mér sýnist alveg ljóst að hér er vaðið út í kviksyndi og mjög óvíst að fjmrh. komist út úr því á nýjan leik.