23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (4368)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er alveg augljóst að hér er sósíalismi andskotans á ferðinni. Mál þetta er mjög illa undirbúið. Það er ekki hægt að svara því til hver reikningsstaða fyrirtækisins er. Það liggur ekki fyrir. Hins vegar liggur það fyrir að tap hefur verið hjá félaginu undangengin ár á flestöllum leiðum. Það liggur fyrir að tap er á innanlandsflugi. Tap er á hluta utanlandsflugs og óráðið er með annað. Það er ljóst að önnur flugfélög geta tekið að sér innanlandsflugið, önnur flugfélög en Flugleiðir ef menn vilja hafa sanngirni í þeim efnum, og það liggur líka ljóst fyrir hvað varðar utanlandsflugið að ef menn óttast Flugleiðir, það að þær skuli vera einar á markaðinum, þá er hægt að leysa það með öðrum hætti, m.a. leiguflugi.

Mér sýnist að sú ríkisábyrgð sem hér er farið fram á sé grundvölluð á engu öðru en viljanum á því að koma einstaklingum til bjargar sem hafa rekið fyrirtækið á þann hátt að það er nær gjaldþroti en nokkru öðru. Það virðist vera sérstakt hlutverk Sjálfstfl. að koma í veg fyrir það að fyrirtæki og eigendur þeirra beri ábyrgð á því sem þeir eru að gera. Umræður og allur undirbúningur hér minnir mig á till. sem kom í deildina fyrir nokkrum árum síðan, till. um að veita þeim ábyrgð sem voru að grafa eftir gullskipi. Sú till. vakti mikla athygli og því er ekki að leyna að margur hér var með gull í augunum þegar menn töluðu um það en menn vita hvernig sú sjóferð fór, ef svo mætti segja. Að lokum tókst að vísu að koma málum þannig fyrir að það varð að taka veð hjá þeim einstaklingum, sem voru að grafa eftir þessu gullskipi, en hér er tekið veð í kaupleigusamningi. Það kallar aftur fram þá spurningu hvort nokkurt fordæmi sé fyrir því í veröldinni að tekið sé veð í kaupleigusamningi án þess að annar aðilinn að þessum kaupleigusamningi viti nokkuð um það eða hafi nokkuð um það að segja. Það væri fróðlegt að vita hvort svo er.

Ég tel og minn flokkur að hér sé mjög óvarlega að farið og það sé ekki verjandi fyrir okkur hér að taka ábyrgð á láni sem nemur rúmum 100 millj. kr. til þessara hluta, einkum vegna þess að upplýsingar skortir. Það liggja engar upplýsingar fyrir um fjárhagsstöðu fyrirtækisins aðrar en þær að það sé í vandræðum og tap sé á rekstrinum og framtíðarsýn virðist vera afskaplega völt. Þetta verður einn af þeim hornsteinum sem hlaðið er í vörðu Sjálfstfl., þá vörðu sem þeir kenna við einkaframtak og guma af, en hún er ömurleg þessi ganga að því leyti til að svo virðist sem þetta sé einkum þáttur í að forða því að fyrirtæki og eigendur þeirra standi ábyrgir fyrir því sem þeir eru að gera og hafi gert.

Ég legg til að þetta mál verði skoðað í nefnd, en ég á ekki von á því að fjh.- og viðskn. Ed. fái frekari upplýsingar en nefndin fékk í Nd., en þær voru af mjög skornum skammti, enda vita þeir, sem eru að biðja um þetta, ekki hver staðan er. Þeir halda beint út í bláinn án nokkurs fyrirheits, án vitneskju um annað en það að taka skal ábyrgð á 100 millj. kr. sem eins víst er að tapist algjörlega skattgreiðendum í landinu.