23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4370)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin en ég verð að segja eins og er að ég er afskaplega litlu nær um það sem ég spurði um.

Það hefur komið fram, bæði í mínu máli og annarra hér, að það er ekki á valdi Arnarflugs að framselja eða setja veð í þessum kaupleigusamningi. Jafnframt kom fram á fundum fjh.- og viðskn. í hádeginu í dag að þessi kaupleigusamningur hljóðar upp á kaup á flugvél fyrir 4 520 000 dala. Hins vegar er markaðsverð á sams konar flugvél í dag u.þ.b. 9,5 millj. dala. Það er alveg ljóst að sá sem er að selja Arnarflugi þessa vél með kaupleigusamningi er væntanlega að leita sér að ástæðu til að rifta þessum samningi þar sem hann er mjög óhagstæður fyrir kaupleigusalann. Ljóst er einnig að þetta veð er ansi haldlítið fyrir ríkissjóð. Þess vegna var mín spurning: Hvers vegna hengir ríkissjóður sig í þetta veð?