23.04.1986
Efri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4576 í B-deild Alþingistíðinda. (4387)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Frsm. minni hl. (Magnús H. Magnússon):

Hæstvirtur forseti. Nefndin hefur fjallað um málið og rætt við málsaðila. Hefur komið fram að tryggingar vegna ríkisábyrgðar eru óljósar og ófullnægjandi. Jafnframt kom fram að engan veginn væri ljóst að þær ráðstafanir sem í frv. felast tryggi á nokkurn hátt stöðu þess fyrirtækis sem ætlunin er að aðstoða. Af þeim ástæðum leggur minni hl. nefndarinnar til að frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Málið er illa undirbúið og engar upplýsingar fyrirliggjandi um að hlutafé skili sér né heldur að kaupleigusali sé tilbúinn til að fallast á að ríkið gangi inn í kaupleigusamning. Þá er engan veginn ljóst að frv., þó að lögum verði, leysi nokkurn vanda til frambúðar fyrir ferðamannaiðnaðinn eða Arnarflug hf.

Af þessum ástæðum samþykkir deildin að fela ríkisstjórninni að vinna betur að málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Stefán Benediktsson sat fund nefndarinnar og er samþykkur nál. þessu. Undir nál. rita auk mín Ragnar Arnalds og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.