23.04.1986
Efri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4578 í B-deild Alþingistíðinda. (4397)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. 2. umr. um þetta mál var frestað s.l. mánudag og ég skildi það þannig að um það væri samkomulag hjá hv. sjávarútvegsnefndarmönnum að greiða fyrir því að máli þessu yrði lokið hér í dag. Ég hef ekki gert neinar athugasemdir við þann framgangsmáta og í því trausti hef ég starfað hér í þinginu. Nú er það svo að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Það hefur stöðvast áður í þinginu og þýðir ekkert að vera að kenna einum né öðrum þar um. Það hafa komið margvíslegar áskoranir frá samtökum verkafólks, frá samtökum fiskvinnslunnar, frá samtökum sjómanna þar sem skorað er á Alþingi Íslendinga að ljúka þessu máli. Hér er greinilega um málamiðlunarfrv. að ræða þar sem brtt. hafa komið allmargar til beggja átta þar sem annar aðilinn telur að of skammt sé gengið og hinn að allt of langt sé gengið.

Ég tek því undir orð hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar 6. landsk. þm. og vænti þess að Alþingi Íslendinga sjái sér fært að ljúka þessu máli. Það hefur verið lagt fram þrívegis á Alþingi Íslendinga og ætti því öllum hv. þm. að vera vel kunnugt um efni þess þó að ávallt megi um það deila hversu langan tíma þurfi til að afgreiða mál. Ég minni á að hér hafa jafnvel verið afgreidd mál í dag sem voru flutt á þessum morgni, en þetta mál hefur haft margra ára undirbúning. Ég vænti þess að hv. þingdeild sjái sér fært að vera nokkrum mínútunum lengur til að koma til móts við þessar óskir, ekki aðeins mínar heldur samtaka fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna um allt land.