17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ræða forsrh. var því miður ekki stefnuræða stjórnmálaleiðtoga. Hún var sparðatíningur úr embættiskerfinu. Vandamál vinnandi fólks virðast ekki vera í sjónmáli út um stofugluggann hans í Arnarnesinu.

Hitt kom mér meira á óvart að fyrrverandi blaðafulltrúi atvinnurekenda, hæstv. nýorðinn fjmrh., skuli ekki fást til að viðurkenna staðreyndir um ástand og horfur í efnahagsmálum, staðreyndir sem hver einasti atvinnurekandi á Íslandi gæti leitt hann í allan sannleika um með einu símtali.

Það er nefnilega staðreynd að verðbólga á Íslandi er aftur orðin sex- til tíföld umfram viðskipta- og markaðslönd. Og það þýðir að gengisfelling Nordalssláttu er orðinn hlutur. Spurningin er ekki lengur hvort unnt sé að afstýra henni. Hún er aðeins um það hvernig skuli bregðast við. Og svo segir Þorsteinn Pálsson í ræðu sinni að náðst hafi jafnvægi lánskjara og launa vegna lækkandi verðbólgu.

Það má minna hann á spá Félags íslenskra iðnrekenda, sem var birt skömmu áður en Alþingi kom saman, um að fram undan væri eftir áramót á Íslandi að við værum að festast í sama gamla verðbólgufarinu, 60-80%. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því að ef nú væri í gildi gamla vísitölukerfið með þriggja mánaða aðlögun launa og verðlags, þá væri þessi ríkisstj. nú þegar í 80% verðbólgu. M.ö.o. árangurinn er enginn, en þeir stinga höfðinu í sandinn og neita að viðurkenna staðreyndir.

Sú var tíð að þeir sjálfstæðismenn áttu ekki orð til þess að lýsa ábyrgðarleysi þeirrar ríkisstjórnar sem þeir oft vitna hér til, ríkisstjórnar Gunnars heitins Thoroddsens, - þar sem m.a. forsrh. átti sæti og nokkrir sjálfstæðismenn fleiri - og fordæmdu ákaflega það ábyrgðarleysi að binda fast gengið við slíkar kringumstæður þegar verðbólgumunurinn hér og í markaðslöndunum var orðinn geysimikill. Þá bentu sjálfstæðismenn á að við slíkar aðstæður væri fast gengi aðför að sjávarútveginum sem við lifum á. Þá sögðu þeir að það dæmdi landsbyggðina til stöðnunar og fólksflótta. Þá sögðu þeir að það væri tilræði við atvinnuöryggi vinnandi fólks. Allt var þetta rétt þá og það er rétt enn. Um þetta má segja að vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum - var það og er það enn. Og láta svo út úr sér, um leið og menn brigsla stjórnarandstöðunni um að vera í litlum tengslum við veruleikann, að núverandi ríkisstj. hafi náð jafnvægi lánskjara og launa vegna lækkunar verðbólgu.

Hitt er rétt að ránvextirnir hafa að nokkru leyti leitt til aukins sparnaðar, þó að sumu leyti kunni það að vera tilfærsla milli sparnaðarforma. En það er önnur hlið á því máli. Hin hliðin á því máli eru auglýsingarnar um 20 þús. uppboðskröfur, uppboðið á sjálfseignarstefnunni í húsnæðismálum og þar með hin algjöru svik á stærsta kosningaloforði Sjálfstfl. fyrir kosningar. Það er líka önnur hlið á því máli. Það eru auglýsingar verðbréfabraskaranna í heilum opnum dagblaðanna sem lofa skattfrjálsum arði upp á 70-80% þeim sem vilja og geta lagt fjármuni í verðbréfakaup. Auglýsingar sem segja berum orðum að á Íslandi í dag séu gróðamöguleikarnir fólgnir í affallabraski með víxla og verðbréf, enda er það nú á stefnuskrá ríkisstj. að afnema gildandi lög um okur. Og það er enn önnur hlið á þessu máli. Sparnaðurinn er leiddur fram hjá bankakerfinu á okurmarkað frjálshyggjunnar og hann leitar að sjálfsögðu ekki í fjárfestingu í heilbrigðu atvinnulífi né í húsnæði. Síðan hæla mennirnir sér af þessum árangri.

Fullyrðingar Þorsteins Pálssonar um það að í máli okkar Alþýðuflokksmanna hafi borið á gylliboðum eru mikið öfugmæli. Ég rifja enn upp að það er ekki mjög algengt að stjórnarandstæðingar komi bæði fram með tillögur um niðurskurð ríkisútgjalda og einnig um álagningu nýrra skatta til þess að stoppa upp í fjárlagagöt stjórnarliða. Engu að síður höfum við gert það. Fullyrðing hans um að það hafi verið ósamkvæmni í málflutningi okkar Jóhönnu Sigurðardóttur vegna undanþágu á söluskatti er líka röng. Það er kjarninn í tillögum Alþfl. um afnám á undanþágum frá söluskatti að auknar tekjur af því tilefni verði notaðar til þess að lækka söluskattsprósentu og vöruverð í landinu. Það gerir núv. ríkisstj. ekki. Hún leggur á þessa skatta, alls 1700 millj. kr., þar af 400 millj. með afnámi á undanþágum, en hún nýtir ekki tækifærið til þess að koma til móts við almenning með lækkun skattprósentunnar.

Herra forseti. Það þarf mikinn pólitískan styrk til þess að knýja fram nauðsynlegar breytingar á þessu þjóðfélagi í réttlætisátt. Spurningin er: Hvar er þann styrk að finna? Hin mikla sókn Alþfl. sem hófst á þessu ári hefur gefið fyrirheit um nauðsynlegar breytingar á úreltu flokkakerfi. En fleiri þurfa að leggja okkur lið sem hingað til hafa stutt aðra flokka áður en við getum gert okkur vonir um raunhæfan árangur.

Enginn hugsandi maður bindur framar vonir við Framsóknarflokkinn. Hann er dæmdur af verkum sínum eftir 14 ár í ríkisstjórn sem þröngsýnasti og íhaldssamasti kerfisflokkur landsins. Það er pólitískt gustukaverk að gefa framsókn frí og senda hana í andlega endurhæfingu næsta áratuginn.

Haldi Sjálfstfl. svipuðum styrkleika og nú verður hins vegar ekki hjá því komist að semja við hann um nýja ríkisstjórn. En eigi slík ríkisstjórn að skila árangri þá verðum við að geta samið af styrkleika við þetta sundurleita hagsmunabandalag sem gengur undir nafninu Sjálfstfl.

Lítum ögn á stjórnarandstöðuna. Ástand hennar birtist þjóðinni í hnotskurn eina helgi í október þegar BJ hélt landsnefndarfund. Alþb. miðstjórnarfund og Alþfl. flokksstjórnarfund. Það voru ólíkar fréttir sem bárust á öldum ljósvakans af þessum fundum.

Ég læt í ljós þá von að BJ haldi ekki fleiri slíka fundi. Síðan hefur þaðan helst spurst að umræður þar snúist um einkamál en ekki lengur stjórnmál. Sá flokkur sýnist því varla vera til stórræðanna.

Á miðstjórnarfundi Alþb. kom fram að sögn viðstaddra bullandi gagnrýni á forustu flokksins, formann og þingflokk, sem var sakaður um stefnuleysi og skort á nútímaskilningi, - samkvæmt kokkabókum mæðraskýrslu. Ekki er þetta traustvekjandi.

En á flokksstjórnarfundi Alþýðuflokksins þessa sömu helgi var starfsáætlun flokksins, sem unnið hefur verið að í allt sumar, samþykkt einróma. Í henni felst að við munum á næstunni breyta skipulagi okkar og starfsháttum til samræmis við þarfir fjöldaflokks. Tugir nýrra einstaklinga hafa nú komið til starfa í milli 20 og 30 málefnahópum á vegum flokksins. Þessar fastanefndir vinna nú kerfisbundið að ítarlegri útfærslu á kosningastefnuskrá og þar með stjórnarsáttmála við næstu stjórnarmyndun. Útgáfu- og útbreiðslustarf verður stóraukið á næstunni.

Á næstu vikum byrjum við skipulagt kynningarstarf á stefnu og breyttum starfsháttum á vinnustöðum á höfuðborgarsvæðinu og sameinumst í öflugu átaki til að safna nýjum félögum til þess að taka virkan þátt í þeirri þegnskylduvinnu að breyta þessu þjóðfélagi.

Áður en gengið verður til kosninga mun eiga sér stað mikil endurnýjun á frambjóðendasveit flokksins. Þar verður hlutur kvenna mikill og unga fólkið í fylkingarbrjósti.

Hvaða ályktanir má draga af þessu? M.a. að ólíkt hinum stjórnarandstöðuflokkunum er Alþýðuflokkurinn einhuga og sameinaður á traustum hugmynda- og stefnugrundvelli. Og að hreyfing jafnaðarmanna er vaxtarbroddurinn í stjórnmálalífi þjóðarinnar nú um stundir.

Það væri að mínu mati mikið manndómsmerki ef þingmenn BJ viðurkenndu orðinn hlut og sýndu í verki trúnað sinn við sameiginleg málefni okkar með því að taka í útrétta sáttahönd. sameiginlega ættum við nú að svara stólakaupum sjálfstæðisráðherranna með tafarlausri sameiningu í einn þingflokk jafnaðarmanna. Það mundi muna um þann liðsauka í nýrri sókn jafnaðarmanna, sem gæti leitt okkur yfir 30% fylgismarkið á þessum vetri.

Á landsfundi Alþb. stefnir í uppgjör hópa sem eiga fátt sameiginlegt orðið annað en nafnið. Þau öfl innan Alþb., sem í verki eru verkalýðssinnar og sósíaldemókratar, eiga ekki samleið með flokkseigendafélagi afdankaðra stalínista og hippum og vinstrivillingum allra handa. Þessir aðilar eiga að gera tilraun til uppgjörs við fortíðina. Það er löngu tímabært. Þeir eiga að hafna fornaldarhugmyndum um ríkisforsjá og kerfisvarðstöðu og láta af andstöðu við aðild Íslands að öryggisbandalagi lýðræðisríkja.

Verði þessir aðilar undir ættu þeir að bregðast við hart, taka höndum saman með okkur hinum undir merkjum Alþfl. um að skapa á þessum vetri sameinað sóknarafl lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna. Þessi ríkisstj. hefur ekki burði til að standast slíkt stjórnarandstöðuafl. Slík breiðfylking jafnaðarmanna gæti unnið stórsigur í næstu kosningum og samið af myndugleik og styrkleika við Sjálfstfl., gerist slíks þörf.

Þetta sýnir, góðir hlustendur, að nýir sóknarmöguleikar eru óþrjótandi. Okkur er því í sjálfsvald sett að skapa pólitísk skilyrði fyrir framkvæmd þeirrar róttæku umbótaáætlunar sem ég lýsti hér áðan. Þá hefði á sannast að ládeyða sumarsins væri aðeins lognið á undan storminum, sem feykir burt kalkvistum framsóknaráratugarins og gefur þjóðinni aftur trú á sjálfa sig og framtíð sína. - Þakka ykkur fyrir.