23.04.1986
Efri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4579 í B-deild Alþingistíðinda. (4403)

Starfslok efri deildar

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Þá er komið að lokum þessa fundar sem er seinasti fundur hv. Ed. á þessu starfsári. Annríkið hefur verið mikið að undanförnu, nótt lögð við dag og starfsfólk Alþingis ekki farið varhluta af þessum önnum því að einungis vegna lipurðar og frábærrar fyrirgreiðslu þess tekst að veita málum í réttan farveg.

Ég þakka hv. þingdeildarmönnum sérstaklega fyrir mikla þolinmæði í garð forseta og mjög gott samstarf. Þá vil ég þakka varaforsetum og skrifurum þeirra góðu aðstoð og samvinnu. Jafnframt er skrifstofustjóra Alþingis og öllu öðru starfsfólki þökkuð lipur fyrirgreiðsla og aðstoð.

Ég óska hv. þingdeildarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars svo og starfsfólki Alþingis og þeirra fjölskyldum og þakka fyrir góðan vetur sem er senn á enda. Ég vænti þess að við hittumst heil að hausti þegar Alþingi kemur saman á ný.